Markaðir

Markaðir samanstanda af eignastýringu og markaðsviðskiptum. Eignastýringin skiptist í eignastýringu fagfjárfesta, einkabankaþjónustu og rekstur lífeyrissjóða. Eignastýring Arion banka stýrir fjármunum fyrir hönd viðskiptavina samkvæmt fyrir fram ákveðinni fjárfestingarstefnu hvers og eins. Markaðsviðskipti sinna miðlun verðbréfa fyrir innlenda og erlenda viðskiptavini bankans. Sérfræðingar markaðsviðskipta veita aðstoð og milligöngu í viðskiptum á skráðum verðbréfum á öllum helstu verðbréfamörkuðum heims. Til viðbótar sinnir sviðið sölu á sjóðum í rekstri alþjóðlegra fjármálafyrirtækja. Stefnir, dótturfélag Arion banka, er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki sem annast stýringu á fjölbreyttu úrvali verðbréfa-, fjárfestinga- og fagfjárfestasjóða. Framkvæmdastjóri markaða er Margrét Sveinsdóttir.

Eignastýring

Eignastýring Arion banka, ásamt dótturfélögum, er leiðandi í eignastýringu á Íslandi með um 1.131 milljarð króna í stýringu.

Fjölbreytt þjónusta til að mæta ólíkum þörfum

Eignastýring sérhæfir sig í að veita viðskiptavinum með ólíkar þarfir fjölbreytt úrval fjárfestingarmöguleika og alhliða þjónustu. Áhersla er lögð á breitt vöru- og þjónustuframboð þar sem hagsmunir viðskiptavina eru ávallt hafðir að leiðarljósi. Eignastýring hefur á að skipa starfsfólki með áratugareynslu og þekkingu af fjármálamörkuðum. Lögð er áhersla á persónulega þjónustu byggða á góðri samvinnu við viðskiptavini. Þannig er lagður grundvöllur að traustu langtímasambandi við viðskiptavini og fjárhagslegum ávinningi þeirra.

Heildareignir í stýringu hjá Arion banka og dótturfélögum
Milljarðar króna
Eignaskipting
%

 

Samfélagsábyrgð og ábyrgar fjárfestingar

Eignastýring Arion banka gegnir samfélagslega mikilvægu hlutverki við varðveislu og ávöxtun fjármuna einstaklinga, stofnana og fyrirtækja. Starfsemi eignastýringar byggist fyrst og fremst á trausti og ábyrgð gagnvart viðskiptavinum, hagsmunaaðilum og samfélaginu öllu. Sem leiðandi afl á innlendum fjármálamarkaði tekur eignastýring Arion banka hlutverk sitt alvarlega og leggur áherslu á uppbyggingu þekkingar á sviði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. 

Eignastýring fagfjárfesta innleiddi árið 2018 verklag ábyrgra fjárfestinga í starfshætti sína sem felur í sér að við eignastýringu er horft til þriggja grunnþátta sjálfbærni; umhverfis, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS). Þannig er ekki einvörðungu horft til fjárhagslegra þátta heldur einnig annarra þátta sem taldir eru viðeigandi við greiningu á fjárfestingum og uppbyggingu eignasafna. Í fjárfestingarferli eignastýringar eru fjárfestingar metnar út frá fyrrnefndum grunnþáttum sem hluti af heildarmati fjárfestinga. Eftir að fjárfesting hefur átt sér stað er haldið utan um virkt eignarhald og meðferð umboðsatkvæða með kerfisbundnum hætti hjá þeim viðskiptavinum sem þess óska og unnið út frá skilgreindri hluthafastefnu.

Síðastliðin ár hefur eignastýring fagfjárfesta unnið að greiningu á ófjárhagslegum upplýsingum um innlend skráð félög á Aðallista Kauphallarinnar með góðum árangri. Var það mat greinenda eignastýringar að skortur væri á samhæfðum ófjárhagslegum upplýsingum á innlendum skráðum markaði og að félög væru ekki að nýta sér opinber viðmið sem ætluð eru til að hjálpa þeim í þeim efnum. Samhliða greiningunni, sem gerð var samkvæmt UFS leiðbeiningum Nasdaq, skapaðist dýrmætt tækifæri fyrir starfsfólk eignastýringar til að ræða ófjárhagslega upplýsingagjöf og framvindu samfélagsábyrgðar við fulltrúa skráðu félaganna. Það er mat eignastýringar að bæði magn og gæði ófjárhagslegra upplýsinga hafi aukist verulega á milli ára sem gerir alla greiningu bæði aðgengilegri og ítarlegri.

Síðastliðin ár hefur eignastýring fagfjárfesta unnið að greiningu á ófjárhagslegum upplýsingum um innlend skráð félög á Aðallista Kauphallarinnar með góðum árangri.

Á árinu 2020 útbjó eignastýring leiðarvísi í ábyrgum fjárfestingum fyrir starfsfólk sem nær til allra eignaflokka. Samhliða var skipaður vinnuhópur sem er ábyrgur fyrir upplýsingagjöf og greiningu.

Arion banki er virkur þátttakandi í mótun og þróun ábyrgra fjárfestinga á Íslandi og á fulltrúa í vinnuhópum á vegum IcelandSIF (e. Iceland Sustainable Investment Forum). Arion banki var einn af stofnaðilum samtakanna árið 2017. Bankinn er einnig aðili að Meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, United Nations Principles of Responsible Investments (PRI), sem eru virk alþjóðleg samtök eignastýringaraðila og fjármagnseigenda um málefni ábyrgra fjárfestinga. Aðild að samtökunum felur í sér að eignastýring bankans undirgengst sex meginreglur samtakanna um ábyrgar fjárfestingar auk þess að skila gagnsæisskýrslu til samtakanna um hvernig staðið er að ábyrgum fjárfestingum innan eignastýringar.

Aðgerðir eignastýringar Arion banka á sviði ábyrgra fjárfestinga styðja vel við sjálfbærnistefnu bankans og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem snúa að jafnrétti kynjanna, góðri atvinnu og hagvexti, nýsköpun og uppbyggingu og aðgerðum í loftslagsmálum.

Góður árangur lífeyrissjóða í rekstri og stýringu

Eignastýring Arion banka sérhæfir sig í stýringu eigna fagfjárfesta og rekstri lífeyrissjóða. Frjálsi lífeyrissjóðurinn, stærsti frjálsi lífeyrissjóður landsins, hefur átt í farsælu samstarfi við Arion banka og forvera hans. Viðbótarlífeyrissparnaður Arion banka, Lífeyrisauki, er jafnframt í stýringu og rekstri hjá eignastýringu. Lífeyrisauki er stærsti séreignarsjóður landsins sem tekur eingöngu við viðbótarframlagi og er í lok árs um 112 milljarðar króna að stærð. Um 20 þúsund sjóðfélagar velja að greiða viðbótarlífeyrissparnað sinn í Lífeyrisauka og leggja þannig fyrir til efri áranna eða nýta sér sparnaðinn til kaupa á eigin húsnæði. Lífeyrisauki býður upp á fjölbreytt úrval fjárfestingarleiða, alls sjö leiðir auk ævilínu. Árið 2020 var farsælt ár fyrir Lífeyrisauka og sú leið sem skilaði hæstu ávöxtuninni var Lífeyrisauki 1 en nafnávöxtun fjárfestingarleiða Lífeyrisauka var á bilinu 4,2% til 19,8%.

Um 20 þúsund sjóðfélagar velja að greiða viðbótarlífeyrissparnað sinn í Lífeyrisauka og leggja þannig fyrir til efri áranna eða nýta sér sparnaðinn til kaupa á eigin húsnæði. Lífeyrisauki býður upp á fjölbreytt úrval fjárfestingarleiða, alls sjö leiðir auk ævilínu.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur fagnað mikilli velgengni síðustu ár og hefur meðal annars hlotið 13 alþjóðleg verðlaun frá hinu virta fagtímariti Investment & Pensions Europe (IPE), fleiri verðlaun en nokkur annar íslenskur lífeyrissjóður.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn er yfir 40 ára gamall og var stofnaður af Fjárfestingarfélagi Íslands árið 1978. Sjóðurinn lagði grunn að fyrsta séreignarlífeyrissjóði landsins fyrir starfandi einstaklinga sem gátu valið sér lífeyrissjóð. Hann myndar þannig mótvægi við skyldubundna samtryggingarsjóði á almennum vinnumarkaði sem voru stofnaðir nokkrum árum fyrr. Sjóðurinn hefur á líftíma sínum verið í rekstri hjá sex fjármálafyrirtækjum, þar af sl. 12 ár í rekstri hjá Arion banka. Hægt er að fylgjast með gangi Frjálsa lífeyrissjóðsins og fréttum á heimasíðu sjóðsins og einnig á Facebook-síðu sjóðsins.

Nafnávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins m.v. 31.12.2020
Fimm ára meðalávöxtun
Tíu ára meðalávöxtun

Á árinu var aukin áhersla lögð á stafræna þjónustu og sjálfvirknivæðingu lífeyrisaðgerða. Hefur aðgengi viðskiptavina að upplýsingum og þjónustu lífeyrismála verið stórbætt í gegnum stafrænar dreifileiðir Arion banka með áherslu á Arion appið og netbankann. Viðbrögð viðskiptavina létu ekki á sér standa og fjöldi nýrra samninga um viðbótarlífeyrissparnað við Lífeyrisauka og Frjálsa lífeyrissjóðinn í gegnum appið fór langt fram úr væntingum.

Hefur aðgengi viðskiptavina að upplýsingum og þjónustu lífeyrismála verið stórbætt í gegnum stafrænar dreifileiðir Arion banka með áherslu á Arion appið og netbankann. Viðbrögð viðskiptavina létu ekki á sér standa og fjöldi nýrra samninga um viðbótarlífeyrissparnað við Lífeyrisauka og Frjálsa lífeyrissjóðinn í gegnum appið fór langt fram úr væntingum.

Í Arion appinu býðst viðskiptavinum nú einstök yfirsýn yfir lífeyrissparnaðinn sinn ásamt því að geta gert samning um viðbótarlífeyrissparnað og á næstu misserum verður enn fleiri nýjungum bætt við. Með innleiðingu lífeyrismála í stafrænar dreifileiðir bankans færum við lífeyrismálin nær viðskiptavinum okkar, bætum upplifun og upplýsingagjöf til viðskiptavina og styðjum enn frekar við stafræna vegferð Arion banka.

Einkabankaþjónusta

Einkabankaþjónusta Arion banka er víðtæk persónuleg fjármálaþjónusta fyrir efnameiri einstaklinga, fyrirtæki, sjóði og stofnanir.

Einkabankaþjónusta Arion banka býður efnameiri einstaklingum og lögaðilum upp á sérsniðna fjármálaþjónustu. Hver viðskiptavinur hefur sinn eigin viðskiptastjóra sem heldur utan um eignasafnið og fjárfestir með markmið viðskiptavinarins að leiðarljósi. Viðskiptastjóri fylgist náið með hreyfingum á markaði og gerir breytingar samkvæmt fyrir fram ákveðinni fjárfestingarstefnu sem mótuð er í samræmi við þarfir viðskiptavinarins.

Viðskiptavinir í einkabankaþjónustu eru í góðu sambandi við viðskiptastjóra með símtölum, tölvupóstum eða reglulegum fundum. Ítarlegt yfirlit um stöðu og ávöxtun er sent ársfjórðungslega en auk þess geta viðskiptavinir nálgast greinargóð yfirlit í netbanka Arion banka. Viðskiptavinir einkabankaþjónustu fá bestu kjör sem eru í boði hjá bankanum hverju sinni.

Góður gangur var í einkabankaþjónustu á árinu 2020. Viðskiptavinir nutu góðrar ávöxtunar, en árið einkenndist af miklum sveiflum á verðbréfamörkuðum bæði innanlands og erlendis. Samskiptamáti við viðskiptavini var, í ljósi breyttra aðstæðna vegna COVID-19, sniðinn að þörfum hvers og eins, hvort sem það voru símtöl, rafrænir fundir eða hefðbundnir fundir. Margir nýir viðskiptavinir komu í þjónustuna og ljóst að mikill áhugi er á einkabankaþjónustu Arion banka bæði meðal einstaklinga og lögaðila.

Viðskiptavinir í einkabankaþjónustu og almennum verðbréfaviðskiptum héldu áfram að nýta sér þær rafrænu lausnir sem bankinn býður upp á og tileinka sér nýjungar. Þannig hafa bæði einstaklingar og lögaðilar stofnað almenn vörslusöfn á einfaldan, fljótlegan og öruggan máta með rafrænni undirritun samninga og annarra skjala. Viðskiptavinir hafa tekið þjónustunni vel, þar sem hún gerir þeim auðveldara að undirrita skjöl, hvar og hvenær sem er, ef rafræn skilríki eru fyrir hendi. Þessar stafrænu lausnir komu sér einstaklega vel á þessu sérstaka ári.

Viðskiptavinir í einkabankaþjónustu og almennum verðbréfaviðskiptum héldu áfram að nýta sér þær rafrænu lausnir sem bankinn býður upp á og tileinka sér nýjungar. Þannig hafa bæði einstaklingar og lögaðilar stofnað almenn vörslusöfn á einfaldan, fljótlegan og öruggan máta með rafrænni undirritun samninga og annarra skjala.

Markaðsviðskipti

Markaðsviðskipti sinna miðlun verðbréfa fyrir innlenda og erlenda viðskiptavini bankans. Arion banki hefur undanfarin ár haft sterka stöðu í veltu verðbréfa á Aðalmarkaði Nasdaq á Íslandi og var á árinu 2020, fimmta árið í röð, með mestu hlutdeild kauphallaraðila á hlutabréfamarkaði. Á skuldabréfamarkaði var Arion banki með þriðju mestu hlutdeildina.

Markaðsviðskipti Arion banka hafa sterk viðskiptatengsl og geta sérfræðingar markaðsviðskipta veitt aðstoð og milligöngu í viðskiptum á skráðum verðbréfum á öllum helstu verðbréfamörkuðum heims.

Árið var óvenjulegt á verðbréfamarkaði. Efnahagsáfall vegna útbreiðslu COVID-19 kallaði á umfangsmeiri viðbrögð af hálfu ríkis og Seðlabanka en áður hafa sést hér á landi. Miklar verðsveiflur sköpuðu krefjandi aðstæður á markaði, sérstaklega í lok febrúar og í marsmánuði á hlutabréfamarkaði og á haustmánuðum á skuldabréfamarkaði. Liðlega 60% munur var á lægsta og hæsta gildi ársins á OMXI10 vísitölu íslenskra hlutabréfa og tæplega 1,40 prósentustiga munur var á hæsta og lægsta dagslokagildi ávöxtunarkröfu lengsta flokks óverðtryggðra ríkisbréfa.

Almennt var árið þó farsælt fyrir markaðsviðskipti og viðskiptavini. Markaðir stækkuðu, tekjur jukust og afkoma batnaði. Viðskiptavinum hélt áfram að fjölga og aukinn áhugi almennings var vel merkjanlegur þegar leið á árið. Lækkun skammtímavaxta og veruleg aukning peningamagns í umferð hefur skapað nýjan veruleika á innlendum og alþjóðlegum fjármagnsmarkaði.

Almennt var árið þó farsælt fyrir markaðsviðskipti og viðskiptavini. Markaðir stækkuðu, tekjur jukust og afkoma batnaði. Viðskiptavinum hélt áfram að fjölga og aukinn áhugi almennings var vel merkjanlegur þegar leið á árið.

Arion banki hefur á ýmsum vettvangi lagt sig fram um að byggja upp og efla innlendan verðbréfamarkað, m.a. með því að auka áhuga og þátttöku almennings. Í nóvember og desember sl. bauð bankinn upp á þóknanalaus viðskipti með hlutabréf í netbanka fyrir fjárhæðir undir einni milljón króna og voru viðbrögð viðskiptavina framar vonum. Bankinn ætlar að halda áfram á þeirri vegferð, m.a. með því að efla stafrænar lausnir.

Markaðshlutdeild og sæti Arion banka á hlutabréfamarkaði

Megináhersla markaðsviðskipta hefur verið á að veita stækkandi hópi viðskiptavina góða þjónustu og aðgang að framúrskarandi þekkingu og kerfum. Áfram verður lögð áhersla á vöruþróun, til að skapa viðskiptavinum fleiri tækifæri til ávöxtunar og áhættudreifingar, sem og unnið að því að bæta og þróa stafrænar lausnir bankans.

Áframhaldandi ávinningur viðskiptavina

Fram undan er innleiðing á MiFID II tilskipun Evrópusambandsins og MiFIR-reglugerð á íslenskum verðbréfamarkaði sem mun leiða til breytinga á starfsháttum aðila á verðbréfamarkaði. Markmiðið er að nýta þessar breytingar til hagsbóta fyrir okkar viðskiptavini. Starfsfólk markaða mun áfram leitast við að skapa og finna fjárfestingarkosti fyrir viðskiptavini til að ávaxta fjármuni þeirra eins og best verður á kosið.

Arion banki mun sem fyrr vinna að því að skapa ávinning fyrir viðskiptavini með góðri þjónustu, ávöxtun, faglegum vinnubrögðum og markvissri áhættustýringu, með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi.