Efnahags­umhverfið

Eftir tíu ára hagvaxtarskeið var komið að kaflaskilum og reyndist árið 2020 íslensku efnahagslífi torvelt viðureignar. COVID-19 heimsfaraldurinn skók heimsbúskapinn, sóttvarnaraðgerðir urðu daglegt brauð, flugsamgöngur voru í mýflugumynd og sögulegur efnahagssamdráttur varð raunin – ekki bara á Íslandi heldur um heim allan. Þrjár stærstu útflutningsgreinar hagkerfisins áttu í vök að verjast, þá sérstaklega ferðaþjónustan sem lá svo gott sem í dvala stóran hluta ársins. Erfiðleikar ferðaþjónustunnar og atvinnulífsins í heild sinni settu svip sinn á vinnumarkaðinn og náði atvinnuleysi áður óþekktum hæðum. Ólíkt fyrri hagsveiflum hækkuðu raunlaun hins vegar verulega, vaxtabyrði heimilanna lækkaði og hröð eignamyndum var á íbúðamarkaði, sem saman leiddi til minni neyslusamdráttar en margir höfðu óttast í upphafi heimsfaraldursins. Bæði ríkið og Seðlabankinn gripu til stórtækra aðgerða til að milda efnahagshöggið og voru ýmis úrræði, gömul og ný, kynnt til sögunnar s.s. hlutabætur, lokunarstyrkir, útgreiðsla séreignarsparnaðar og vaxtalækkanir. Að auki nýttu bæði einstaklingar og fyrirtæki sér greiðsluhlé lána sem bankarnir gáfu kost á. Krónan naut stuðnings ríflegs gjaldeyrisforða Seðlabankans og sigldi því tiltölulega lygnan sjó miðað við stærðargráðu efnahagsáfallsins. Verðbólguskotið sem margir höfðu óttast reyndist þar af leiðandi smátt í sniðum. Jafnvel þótt bólusetning sé hafin er enn langt í land og ljóst að íslenskt hagkerfi mun eiga á brattann að sækja á árinu 2021.

Mesti efnahagssamdráttur í heila öld

Í upphafi árs 2020 var strax ljóst að árið myndi reynast íslensku hagkerfi þungt í skauti. Ferðaþjónustan háði varnarbaráttu í kjölfar gjaldþrots WOW air, annað árið í röð glímdi sjávarútvegurinn við loðnubrest, erfiðleikar á álmörkuðum ollu titringi og harðvítug barátta geisaði á opinberum vinnumarkaði. Í upphafi marsmánaðar þyngdist róðurinn enn frekar þegar kórónaveiran náði landi, lokað var á flug yfir Atlantshafið og í fyrsta sinn í sögu íslensks lýðveldis var sett á samkomubann. Tilslakanir yfir sumarmánuðina reyndust skammgóður vermir og tók faraldurinn sig upp að nýju á haustmánuðum með tilheyrandi boðum, bönnum og efnahagslegum áhrifum. Þrátt fyrir þrautseigju og sveigjanleika íslensks hagkerfis sem og stórtækar mótvægisaðgerðir hins opinbera er útlit fyrir að efnahagssamdrátturinn árið 2020 verði sá mesti í heila öld.

Samsetning samdráttarins sýndi glögglega alvarleika áfallsins en allir undirliðir landsframleiðslunnar lögðust á eitt, að hinu opinbera undanskildu sem vann á móti samdrættinum í gegnum aukna samneyslu. Þrátt fyrir mikinn innflutningssamdrátt vó utanríkisverslun þyngst í efnahagssamdrættinum, enda stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins í lamasessi. Fjárfesting hélt áfram að dragast saman og munaði þar mestu um verulegan samdrátt atvinnuvegafjárfestingar. Fjárfesting hins opinbera, sem var undir væntingum, og íbúðafjárfesting lögðust á sömu sveif. Þróttmikill vöxtur innlendrar eftirspurnar yfir sumarmánuðina var ofurliði borinn af sóttvarnaraðgerðum og ferðatakmörkunum og dróst einkaneyslan því talsvert saman, þó að betur hafi farið en á horfðist.

Þrátt fyrir að gríðarleg óvissa ríkir um efnahagsþróun yfirstandandi árs, sem að miklu leyti mun ráðast af framþróun faraldursins, sýndi árið 2020 að undirstöður hagkerfisins eru sterkar og kerfið vel í stakk búið til að takast á við frekari áskoranir.

Hagvöxtur
%
Heimild: Hagstofa Íslands *Fyrstu níu mánuðir ársins
Hagvöxtur
Framlag undirliða
Heimild: Hagstofa Íslands, Arion banki. *Fyrstu níu mánuðir ársins

Brotlending ferðaþjónustunnar

Þann 28. febrúar greindist fyrsta tilfelli COVID-19 á Íslandi. Í kjölfarið fór af stað atburðarás sem fáir höfðu séð fyrir. Veldisvöxtur faraldursins á heimsvísu kallaði á hraða ákvörðunartöku; um miðjan mars lokuðu Bandaríkin á flug frá Evrópu, stuttu síðar var komið á fót takmörkunum og ströngum reglum á landamærum Íslands og undir lok mánaðarins varð samkomubann að veruleika, í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins. Aðgerðir stjórnvalda, bæði hér á landi og annars staðar, til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar voru reiðarslag fyrir íslenska ferðaþjónustu þar sem flugumferð lagðist svo gott sem af. Þrátt fyrir lítils háttar tilslakanir yfir hásumarið samhliða rénun faraldursins fækkaði erlendum ferðamönnum er sóttu landið heim úr tveimur milljónum í hálfa milljón, eða sem nemur 76% samdrætti milli ára.

Þó að ferðaþjónustan sé burðarás í áætluðum útflutningsvexti komandi ára á greinin langan veg fyrir höndum að fyrra vægi í útflutningstekjum þjóðarbúsins, sem fór hæst í tæplega 42% árið 2017. Í ljósi þess að margt hefur dafnað í skugga ferðaþjónustunnar undanfarin ár, s.s. hugverkaiðnaður, fiskeldi og framleiðsla á lyfjum og lækningatækjum, er ólíklegt að greinin nái viðlíka yfirburðum og áður. Uppgangur annars útflutnings er þróun sem farið hefur hljótt þrátt fyrir mikilvægi hennar fyrir íslenskt hagkerfi – byggir gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins nú á breiðari grundvelli.

Fjöldi smita innanlands og brottfarir frá Keflavíkurflugvelli
Að teknu tilliti til aflýstra fluga
Heimild: Covid.is, Isavia, Arion banki
Fjöldi ferðamanna og vöxtur ferðaþjónustunnar
Fjöldi (þús.) og vægi í útflutningi
Heimild: Ferðamálastofa, Hagstofa Íslands, Arion banki. * Útflutningur á fyrstu níu mánuðum ársins.

Fordæmalausar aðstæður á tvískiptum vinnumarkaði

Árið hófst með vopnaskaki á opinberum vinnumarkaði, hvössum yfirlýsingum og stífum fundahöldum. Þótt gripið hafi verið til verkfallsaðgerða í einstaka tilfellum setti útbreiðsla COVID-19 svip sinn á kjaraviðræðurnar og varð stór hvati að undirritun kjarasamninga. Til grundvallar lá lífskjarasamningurinn svokallaði sem tók gildi á almennum vinnumarkaði ári áður en margir bundu vonir við að hann myndi leggja grunninn að farsælla sambandi vinnumarkaðar, verðbólgu og atvinnuleysis. Stríðandi fylkingar á vinnumarkaði gerðu hins vegar báðar atlögu að lífskjarasamningnum og á tímabili gat brugðið til beggja vona. Þökk sé inngripum ríkissjóðs stóð samningurinn af sér stormasamt ár.

Þó að kjaradeilur hafi farsællega verið leiddar til lykta féllu þær í skuggann af þungbærri stöðu á vinnumarkaði. Raunir ferðaþjónustunnar höfðu djúpstæð áhrif á atvinnuleysi en störfum innan greinarinnar fækkaði um rúmlega tólf þúsund milli ára. Til samanburðar fækkaði störfum í hagkerfinu öllu um nítján þúsund. Til að sporna gegn þróuninni og vernda ráðningarsambönd kynnti ríkisstjórnin hlutabótaleiðina til leiks, úrræði sem nýttist vel og hefur nú verið framlengt fram á mitt ár. Þegar mest lét voru 33 þúsund einstaklingar skráðir í minnkað starfshlutfall og á hlutabótum. Almennt atvinnuleysi, þ.e.a.s. atvinnuleysi án hlutabótaleiðarinnar, hefur aukist statt og stöðugt og hefur aldrei mælst meira, en það stendur nú í 11,8%. Útlit er fyrir að störfum haldi áfram að fækka á komandi mánuðum og að atvinnuleysi muni stíga á fyrri hluta ársins. 

Á sama tíma og atvinnuleysi náði áður óþekktum hæðum hækkuðu raunlaun um 3,4%. Úr varð tvískiptur vinnumarkaður þar sem aðeins lítill hluti einstaklinga, þeir sem urðu fyrir atvinnumissi, fundu fyrir efnahagsþrengingunum. Þetta er þróun sem er Íslendingum ókunn, enda hefur í gegnum hagsögu landsins allt kapp verið lagt á að viðhalda háu atvinnustigi á kostnað verð- og gengisstöðugleika. Að þessu sinni virðist sem aðlögun hagkerfisins fari í ríkari mæli í gegnum vinnumarkaðinn, breyting sem endurspeglast í hærra atvinnuleysi en ella.

Atvinnuleysi og kaupmáttur launa
Ársmeðaltal atvinnuleysis og ársbreyting kaupmáttar launa
Heimild: Hagstofa Íslands, Vinnumálastofnun.

Við raunlaunahækkunina bættist hröð eignamyndun á íbúðamarkaði og lægri greiðslubyrði lána. Samspil þessara þátta ásamt úttekt séreignarsparnaðar, rýmri lausafjárstöðu í fjármálakerfinu og annarra varnaraðgerða ríkis og Seðlabankans lagði grunninn að þróttmeiri einkaneyslu en flestir væntu við upphaf faraldursins. Heildarkortavelta Íslendinga, sem jafnan gefur góða vísbendingu um þróun einkaneyslunnar, dróst þannig saman um 6% á liðnu ári. Samdráttinn mátti einvörðungu rekja til kortaveltu erlendis, enda lítið um utanlandsferðir á tímum ferðatakmarkana, og tímabundinna lokana verslana á vormánuðum. Kortavelta innanlands jókst hins vegar um 4% og sló hvert metið á fætur öðru. Þrátt fyrir heimsfaraldur og fordæmalausa stöðu á vinnumarkaði er eigna- og skuldastaða meirihluta heimila sterk og þau vel í stakk búin til að takast á við frekari áskoranir.

Kortavelta einstaklinga
Breyting milli ára á föstu gengi og verðlagi
Heimild: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Arion banki

Utanlandsferðir Íslendinga námu 18% af heildarinnflutningi árið 2019. Það gaf því augaleið að ferðatakmarkanir með tilheyrandi fækkun utanlandsferða myndu einar og sér draga umtalsvert úr innflutningi, líkt og raunin varð og endurspeglast í gríðarlegum samdrætti þjónustuinnflutnings. Á móti vó að aukin innlend neysla kallaði á aukinn innflutning neysluvara sem reyndist þegar uppi var staðið eini undirliður vöruinnflutnings sem jókst milli ára á meðan aðrir undirliðir drógu dám af minni umsvifum í atvinnulífinu og þröngri stöðu útflutningsgreinanna. Þrátt fyrir umtalsverðan innflutningssamdrátt varð útflutningshliðin fyrir enn meiri búsifjum. Framlag utanríkisverslunar til landsframleiðslu var þar af leiðandi neikvætt.

Undirliðir út- og innflutnings
Breyting milli ára
Heimild: Hagstofa Íslands, Arion banki

Þrautseigur viðskiptaafgangur

Þrátt fyrir mesta útflutningssamdrátt frá upphafi þjóðhagsreikninga bar viðskiptajöfnuðurinn ekki með sér hremmingar útflutningsgreinanna. Þvert á móti, viðskiptaafgangur var niðurstaða sem fæstir bjuggust við þegar kórónuveiran lét fyrst á sér kræla. Viðskiptaafgangurinn var engu að síður ekki svipur hjá sjón miðað við uppgangsár ferðaþjónustunnar og þarf að leita aftur til ársins 2008 til að finna minni viðskiptaafgang á fyrstu níu mánuðum ársins. Að þessu sinni var það ekki hefðbundin utanríkisverslun sem viðhélt viðskiptaafganginum heldur frumþáttatekjur. Við fyrstu sýn er jákvæður jöfnuður frumþáttatekna af hinu góða en við nánari athugun kemur í ljós að um er að ræða tvíeggja sverð þar sem jákvæðan þáttatekjujöfnuð ársins mátti að stórum hluta rekja til bókfærðs taps, það er að segja tapreksturs innlendra félaga í eigu erlendra aðila. Öllu jákvæðari þróun var á tekjuhliðinni, sem stóð af sér brimrót og umhleypinga á árinu, niðurstaða sem á erlendri stöðu þjóðarbúsins mikið að þakka.

Erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða, Seðlabankans og annarra innlendra fjárfesta hafa spilað lykilhlutverk í hratt batnandi erlendri stöðu þjóðarbúsins undanfarin ár. Samkvæmt nýjustu tölum nemur hrein erlend staða þjóðarbúsins 969 milljörðum króna, sem samsvarar 33,5% af vergri landsframleiðslu, og hefur hún aldrei verið betri. Með öðrum orðum, þjóðarbúið hefur farið úr því að vera nettó lántaki yfir í að vera nettó lánveitandi til útlanda á undraskömmum tíma, staða sem hefur sjaldan verið uppi á teningnum og styrkir viðnámsþrótt þjóðarbúsins.

Viðskiptajöfnuður
% af VLF
Heimild: Hagstofa Íslands, Arion bankiSeðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands. * Fyrstu níu mánuðir ársins
Hrein erlend staða þjóðarbúsins
Án slitabúa bankanna, % af VLF
Heimild: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands

Króna með kúta í ólgusjó

Eftir fimmtán mánaða lygna sjóferð íslensku krónunnar tók sjórinn að ýfast undir lok febrúarmánaðar samhliða uppgangi kórónuveirunnar í Evrópu. Þegar ljóst var í hvað stefndi gerði Seðlabanki Íslands samkomulag við innlenda lífeyrissjóði um hlé þeirra síðarnefndu á gjaldeyriskaupum til erlendra fjárfestinga. Hafði krónan þá veikst um 12% gagnvart evrunni á einum mánuði og Seðlabankinn selt gjaldeyri fyrir 8,5 milljarða króna. Samkomulagið var síðar framlengt fram í miðjan september. Eftir snarpa styrkingu í byrjun sumars snerist gjaldeyrisflæðið gegn krónunni og hún tók að gefa eftir allt fram á haust.

Þegar kom að gengi krónunnar var Seðlabankinn óvenjuhispurslaus í tali, krónan var of veik og á leið úr jafnvægi. Til að bregðast við hóf Seðlabankinn reglubundna gjaldeyrissölu um miðjan september með það að markmiði að auka dýpt gjaldeyrismarkaðarins og bæta verðmyndun. Þótt tilkynningin hafi haft tilætluð áhrif var hún skammgóður vermir þar sem mikill þrýstingur hafði skapast á gengi krónunnar sökum útflæðis á vegum erlendra fjárfesta. Í samræmi við fyrri yfirlýsingar brást Seðlabankinn við og nýtti umfangsmikinn gjaldeyrisforða sinn til inngripa á gjaldeyrismarkaði í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að slíkt fjármagnsútflæði myndi skapa ójafnvægi á gjaldeyrismarkaði. Alls seldi Seðlabankinn erlendan gjaldeyri fyrir 130 milljarða króna yfir árið.

Þrátt fyrir talsverðan stuðning af hálfu Seðlabankans fór svo að krónan veiktist um 14% gagnvart evrunni, 8% gagnvart breska pundinu og 4% gagnvart Bandaríkjadal. Veikingin er engu að síður hófleg í ljósi sögulegs útflutningssamdráttar og vægis utanríkisverslunar í verðmætasköpun þjóðarbúsins. Hafa ber í huga að spákaupmennska með gjaldmiðilinn ekki heimiluð í þeim skilningi að ekki er heimilt að gera afleiðusamninga með gjaldmiðilinn nema til áhættuvarna. Hefðbundin tæki gjaldeyrismarkaða til að taka afstöðu til verðlagningar gjaldmiðla hafa því litla virkni hvað krónuna varðar.

EUR/ISK og inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði
Milljarðar króna
Heimild: Seðlabanki Íslands, Arion banki

Sögulega lágir vextir í stígandi verðbólgu

Í kjölfar gengisveikingarinnar tók verðbólgan að stíga og var komin yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans um mitt ár. Þrátt fyrir mikinn framleiðsluslaka í hagkerfinu toguðu allir undirliðir verðbólgunnar í sömu átt með innfluttar vörur fremstar í flokki. Flestir greiningaraðilar, Seðlabankinn þar á meðal, telja hins vegar að verðbólgukúfurinn verði skammlífur og að verðbólgan verði komin nálægt og jafnvel undir markmið þegar líða tekur á árið enda slakinn í þjóðarbúinu mikill og lítil verðbólga í okkar helstu viðskiptalöndum. Verðbólgan mældist að meðaltali 2,8% árið 2020 en 3,0% sé húsnæðisliðurinn undanskilinn. Það er nýmæli í íslenskri hagsögu að verðstöðugleiki haldi jafnvel velli þegar harðnar í ári og er það til marks um aukinn þroska hagkerfisins og breyttan farveg aðlögunar að nýjum aðstæðum.

Þótt hófleg verðbólga hafi haft sitt að segja var það fyrst og fremst traust kjölfesta verðbólguvæntinga sem gerði Seðlabankanum kleift að beita vaxtatækinu sem skyldi og styðja innlenda eftirspurn í gegnum efnahagsáfallið. Alls lækkaði Seðlabankinn vexti um 2,25 prósentustig á árinu, úr 3% í 0,75%, og hafa þeir aldrei verið lægri.

Meginvextir Seðlabanka Íslands og verðbólga
%
Heimild: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands

Eitt umsvifamesta ár á húsnæðismarkaði frá upphafi

Undanfarin tvö ár hefur ríkt stilla á húsnæðismarkaði, verðhækkanir voru hófstilltar og fjöldi nýrra eigna fór vaxandi. Árið 2020 urðu þáttaskil. Eitt af markmiðum vaxtalækkana Seðlabankans á vormánuðum var að koma í veg fyrir hökt á húsnæðismarkaði. Viðbrögð við vaxtalækkunum létu ekki á sér standa og urðu í raun svo mikil að Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans sá sig knúna til að nefna þau tæki og tól sem hún hefur yfir að ráða ef verðhækkanir yrðu meiri en fengi samrýmst fjármálastöðugleika. Enn sem komið er hefur þróunin ekki kallað á aðgerðir af hálfu nefndarinnar.

Vaxtalækkanir Seðlabankans skiluðu sér vel til heimilanna og smurðu hjól húsnæðismarkaðarins. Eftir lítils háttar hiksta í apríl, sem eflaust má rekja til samkomutakmarkana fremur en nokkurs annars, tók húsnæðisverð við sér og hefur hækkað statt og stöðugt síðan þá. Undir lok árs stóð árstakturinn á höfuðborgarsvæðinu í 7,7% og leita þarf aftur til ársbyrjunar 2018 að viðlíka verðhækkunum. Óverðtryggð lán nutu mestrar hylli meðal heimilanna enda hefur greiðslubyrði þeirra lækkað skarpt. Lægri greiðslubyrði jók vinsældir endurfjármögnunar, gerði fjölskyldum kleift að stækka við sig, opnaði dyrnar fyrir marga fyrstu kaupendur og kynti undir verðhækkanir. Þá gæti áður óþekkt lágvaxtaumhverfi hafa aukið aðdráttarafl steinsteypu sem fjárfestingarkosts. Umsvif á húsnæðismarkaði, mæld út frá kaupsamningum, hafa aldrei verið jafnmikil ef frá er talið árið 2007. Í ljósi þess að hratt hefur gengið á fullbúnar íbúðir og samdráttur mælist á fyrstu byggingarstigum gætu húsnæðisverðshækkanirnar reynst lífseigari en margir væntu, þrátt fyrir sögulegt atvinnuleysi.

Auglýstar fasteignir til sölu og húsnæðisverð
Ársfjórðungsleg gögn, fjöldi og breyting milli ára
Heimild: Seðlabanki Íslands, Þjóðskrá Íslands. Frá maí 2018 til mars 2019 er villa í gögnunum sem útskýrir mikinn samdrátt í fjölda auglýstra eigna til sölu.

Á brattann að sækja fyrir fjárfestingu

Nokkrar breytingar urðu á útlánaþróun og stóð útlánavöxtur svo gott sem í stað á fyrri hluta ársins. Þegar líða tók á árið færðist útlánavöxtur í aukana og undir lok þriðja ársfjórðungs hafði heildarútlánastofn lánakerfisins stækkað um tæp 6% að nafnvirði. Staðan er hins vegar gerólík eftir því hvort litið er til heimila eða fyrirtækja. Útlán til heimilanna, fyrst og fremst íbúðalán, jukust umtalsvert á meðan útlánavöxtur til fyrirtækja dansaði í kringum núllið. Helst ber að nefna stuðnings- og viðbótarlán sem studdu útlánavöxt til fyrirtækja.

Á slíkum umrótartímum var viðbúið að lán til fjárfestingaverkefna myndu dragast saman enda óvissan í efnahagslífinu mikil og fjárfesting jafnan það fyrsta sem skorið er við nögl. Engu að síður er þetta varúðarmerki á mælaborði hagkerfisins sem taka ber alvarlega þar sem atvinnuvegafjárfesting, undirstaða verðmætasköpunar hagkerfisins, hefur nú dregist saman þrjú ár í röð. Aðrir undirliðir fjárfestingar drógust einnig saman á fyrstu níu mánuðum ársins. Samdráttur íbúðafjárfestingar var viðbúinn einfaldlega vegna grunnáhrifa frá fyrra ári en þá jókst íbúðafjárfesting um 31%, meðal annars vegna skráningarvanda í þjóðhagsreikningum. Líkt og áður sagði mældist mikill samdráttur á fyrstu byggingarstigum en vonir standa til að mikill kraftur á húsnæðismarkaði og stuðningsaðgerðir ríkisins örvi íbúðafjárfestingu á komandi misserum. Samdráttur í fjárfestingu hins opinbera var óvæntari, enda mikill þrýstingur á hið opinbera að auka og hraða fjárfestingaráformum til að styðja innlenda eftirspurn.

Útlán lánakerfis
Breyting frá fyrra ári
Heimild: Seðlabanki Íslands. *Leiðrétt fyrir endurflokkun og skuldalækkunaraðgerðum stjórnvalda. Án útlána til innlánsstofnana, fallinna fjármálafyrirtækja og hins opinbera.
Fjárfesting
Hlutdeild einstakra liða í breytingu frá fyrra ári
Heimild: Hagstofa Íslands. *Fyrstu níu mánuðir ársins

Ár fimm fjáraukalaga

Jafnvel þótt hagkerfið hafi gengið í gegnum mesta efnahagssamdrátt í heila öld og sögulegan útflutningssamdrátt dró lánshæfiseinkunn ríkissjóðs ekki dám af því, staðreynd sem endurspeglar enn frekar viðnámsþrótt og sterkar undirstöður þjóðarbúsins. Af matsfyrirtækjunum þremur var aðeins Fitch sem breytti umsögn sinni úr stöðugum horfum í neikvæðar en lánshæfiseinkunn ríkissjóðs stóð óbreytt í A. Fitch og S&P meta lánshæfi ríkissjóðs fyrir langtímaskuldbindingar A á meðan Moody‘s metur lánshæfiseinkunnina A2 fyrir langtímaskuldbindingar. Aðeins Fitch telur horfurnar neikvæðar.

Áður en COVID-19 setti svip sinn á heimsbúskapinn gerðu fjárlög ársins 2020 ráð fyrir tæplega 10 ma.kr. halla. Strax í mars, þegar ríkisstjórnin steig fram af krafti og kynnti fyrsta aðgerðarpakkann af mörgum, var ljóst að ríkisfjármálahallinn yrði mun meiri. Samstaða var innan ríkisstjórnarinnar um að gera meira en minna og var ríkisfjármálum beitt af þunga til verja tekjur og atvinnu heimila. Á sama tíma og tekjuhliðin skrapp saman sökum minnkandi umsvifa blés útgjaldahliðin út, bæði vegna ýmissa mótvægisaðgerða en einnig vegna aukinna útgjalda til atvinnuleysisbóta svo dæmi sé tekið. Staðan breyttist hratt og voru alls fimm fjáraukalög samþykkt á árinu. Að endingu voru fjárlög samþykkt um miðjan desember en samkvæmt þeim verður afkoma ríkissjóðs neikvæð um 326 ma.kr. á yfirstandandi ári. Kemur sá halli í framahaldi af 269 ma.kr. halla á síðasta ári samkvæmt núgildandi áætlun. Neikvæð afkoma ríkissjóðs leiðir óhjákvæmilega til ört hækkandi skulda og er gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs hækki úr rúmlega 30% af VLF í 50% undir lok þessa árs. Aukinn slaki ríkisfjármála hefur mildað efnahagshöggið en engu að síður er enn langt í land. Ríkisfjármál munu áfram leika lykilhlutverk í að styðja hagkerfið í gegnum efnahagsþrengingarnar og leggja grundvöllinn að viðspyrnu hagkerfisins.

Heildarjöfnuður ríkissjóðs
Milljarðar króna / % af VLF
Heimild: Hagstofa Íslands, Fjármála- og efnahagsráðuneytið. * Að frátöldum óreglulegum og einskiptis tekju- og útgjaldaliðum.