Mannauður

Með því að skapa jákvætt vinnuumhverfi getum við haldið í og laðað til okkar besta starfsfólkið. Í sameiningu leggjum við okkur fram um að skilja þarfir og uppfylla væntingar viðskiptavina okkar, því upplifun þeirra er hjartað í Arion banka.

Mannauðsstefna Arion banka

Rétta fólkið. Að staðið sé faglega að ráðningum og að réttur einstaklingur sé í hverju starfi. Vöndum móttöku starfsfólks og viðskilnað.

Skýr sýn í jafnréttismálum. Hámörkum mannauðinn með fjölbreyttum hópi starfsfólks og með því að tryggja jöfn tækifæri og kjör.

Ánægja og samskipti. Vinnum markvisst að því að skapa hvetjandi starfsumhverfi þar sem starfsfólki líður vel, er ánægt í starfi og tekur ábyrgð. Leggjum áherslu á jafnvægi milli vinnu og einkalífs og hvetjum til heilbrigðs lífernis.

Stöðug þróun og fræðsla. Áhersla á að viðhalda og auka þekkingu og færni starfsfólks ásamt því að veita tækifæri til starfsþróunar.

Öflug forysta. Stjórnendur með skýra framtíðarsýn og markvisst unnið að því að þroska leiðtogafærni þeirra. Áhersla er lögð á uppbyggilega endurgjöf til starfsfólks.

Skilvirkt vinnuumhverfi. Aðferðir straumlínustjórnunar nýttar til að auka skilvirkni og að umbótamenning ríki á vinnustaðnum.

Árangursstjórnun. Vinnum saman að því að ná árangri með markmiðasetningu og mælingum á árangri. Hrósum þegar vel hefur tekist til.

Góð þjónusta. Leggjum okkur alltaf fram um að veita öfluga og góða þjónustu og sinnum störfum okkar af árvekni. Sýnum traust og faglegt viðmót í öllum samskiptum og förum fram úr væntingum, bæði samstarfsfólks og viðskiptavina.

Mannauðsstefna bankans í heild á vefsíðu bankans

Lærdómsríkt ár

COVID-19 faraldurinn setti mark sitt á vinnustaðinn líkt og hann gerði á samfélagið allt á árinu 2020. Nýjar áskoranir stuðluðu engu að síður að og flýttu fyrir ýmsum jákvæðum breytingum.

Árið 2020 var krefjandi en lærdómsríkt og veitti okkur tækifæri til að breyta ýmsu til batnaðar hraðar en annars hefði orðið. Starfsfólk okkar hefur staðið sig afar vel og sýnt mikinn sveigjanleika við óvenjulegar aðstæður. Við lögðum áherslu á það strax í upphafi faraldursins að setja öryggi og sóttvarnir starfsfólks og viðskiptavina á oddinn ásamt því að tryggja góða upplýsingagjöf. 

Við buðum upp á ýmsar snjallar lausnir fyrir viðskiptavini okkar þar sem tæknin var nýtt til hins ýtrasta. Við vorum vel í stakk búin þannig að starfsfólk gat unnið heima með góðum árangri. Kannanir innan fyrirtækisins sýna að starfsfólk vill eiga þess kost að vinna heima öðru hverju og er það nokkuð sem við munum bjóða upp á til framtíðar. Þá hefur fjarvinna fært landsbyggðina nær höfuðborgarsvæðinu þar sem allir taka þátt í fundum og námskeiðum í gegnum Teams.

Við fórum nýjar leiðir í fræðslu til starfsfólks og lögðum áherslu á að stjórnendur viðhéldu góðri upplýsingagjöf og tíðum samskiptum við fólkið sitt með aðstoð tækninnar. Daglegir fundir héldu áfram í byrjun dags þar sem farið er yfir áskoranir, verkefni o.fl. Þeir hafa verið mikilvægur hluti af því að halda uppi starfsandanum. Við höfum boðið upp á marga viðburði fyrir starfsfólk í formi fræðslu og skemmtana. Starfsdagar, þemafundir, hanastél, tónleikar, hreyfing, rafrænar skemmtanir og fræðsla hafa létt andann á árinu og eflt liðsheildina. Niðurstöður kannana sýna að starfsfólkinu okkar líður almennt mjög vel í vinnunni og mælir það með Arion banka sem vinnustað.

Við höfum jafnframt nýtt árið í að gera endurbætur á höfuðstöðvum bankans við Borgartún 19 þar sem markmiðið er að búa til sveigjanlegri og hlýlegri vinnurými til að auka vellíðan starfsfólks. Meðal annars hafa verið gerðar umbætur á umhverfi í matsal og aðstöðu til íþróttaiðkunar. Útbúin voru fjölbreyttari vinnurými og hljóðvist og loftgæði bætt. Við lukum síðan árinu á að kynna nýja útfærslu á kaupaukakerfi fyrir starfsfólk og hefur kaupréttarkerfi einnig verið komið á. Við settum okkur skýr markmið sem munu stuðla að því að starfsfólk verður enn árangursdrifnara og vinnur saman sem öflug liðsheild. 

Helga Halldórsdóttir, forstöðumaður mannauðs

Fjölbreytileiki og jöfn tækifæri

Hjá Arion banka starfar öflugur hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn. Meðalaldur starfsfólks bankans er 42,6 ár og meðalstarfsaldur er tæp 11 ár. Fjöldi starfsfólks hefur þó starfað hjá bankanum og forverum hans í mun lengri tíma eða allt að 45 ár. Í lok árs 2020 var heildarfjöldi stöðugilda 648 en þau voru 661 að meðaltali yfir árið. Í lok árs 2019 voru stöðugildi 687 og fækkaði þeim því um 39 milli ára.

Starfsfólk hefur val um hvort og í hvaða stéttarfélag það greiðir en flestir eru meðlimir í Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF). Einnig er mikill meirihluti starfsfólks félagar í starfsmannafélagi bankans sem ber nafnið Skjöldur.

Kynjaskipting starfsfólks
%
Aldursskipting starfsfólks
%

Jafnréttismál

Arion banki hefur sett sér skýra stefnu í jafnréttismálum og ber bankastjóri ábyrgð á framgangi jafnréttismála innan bankans. Í hans umboði starfar jafnréttisnefnd sem skipuð er fulltrúum starfsfólks. Nefndin setur fram aðgerðaráætlun í jafnréttismálum sem unnið er eftir til þriggja ára í senn. Markmið áætlunarinnar er að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum tækifærum starfsfólks óháð kyni, kynhneigð, uppruna, þjóðerni, litarhafti, aldri, fötlun, trú eða annarri stöðu.

Bankinn hefur um árabil lagt ríka áherslu á jafnrétti í sinni starfsemi og að einstaklingar fái greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. Bankinn fékk fyrst Jafnlaunavottun VR árið 2015, fyrstur banka, og fékk jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins árið 2018, einnig fyrstur banka. Árið 2020 stóðst bankinn svokallaða viðhaldsúttekt vegna endurútgáfu jafnlaunamerkis frá vottunaraðila. Niðurstöður úttektarinnar sýna að ferlar og stýringar tengdar jafnlaunakerfinu (ÍST 85:2012) styðja við markmiðið um að lágmarka launamun kynjanna.

Á árinu 2020 varð Arion banki aðili að Jafnvægisvoginni sem er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu. Arion banki og dótturfélögin Vörður og Valitor fengu jafnframt viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar fyrir góðan árangur í jafnréttismálum. Markmið Jafnvægisvogarinnar er að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar með kynjahlutfallið 40/60 til hliðsjónar.

Jafnréttisstefna bankans í heild á vefsíðu bankans

Kynjaskipting stjórnenda
%

Arion banki er aðili að Jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact og hefur verið það frá árinu 2014. Jafnréttissáttmálinn er alþjóðleg yfirlýsing og samkomulag á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fyrirtæki og stofnanir geta haft að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta, óháð landi og atvinnugrein, og snúa viðmiðin fyrst og fremst að kynjajafnrétti. Bankinn er einnig aðili að alþjóðlegri yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja og skuldbindur sig til að vinna að tíu grundvallarviðmiðum Sameinuðu þjóðanna sem varða samfélagsábyrgð, þar með töldum mannréttindum. Áhersla Arion banka á jafnrétti styður við fimmta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem snýr að jafnrétti kynjanna (e. gender equality).

Velferð starfsfólks

Starfsmannakönnun Arion banka sem nefnist Arion vísitala er send reglulega til allra starfsmanna bankans. Tilgangur Arion vísitölunnar er þríþættur:

  • Að mæla upplifun starfsfólks á eigin störfum, starfsumhverfi og líðan á vinnustað
  • Að vera rödd starfsfólks til að koma ábendingum hratt og auðveldlega á framfæri
  • Að finna tækifæri til umbóta og bregðast við vandamálum á skjótan og öruggan hátt

Arion vísitalan er samsett úr nokkrum kjarnaspurningum sem snúa m.a. að líðan í starfi, markmiðasetningu og endurgjöf og var meðaltal svara 4,39 árið 2020 samanborið við 4,41 árið 2019 (spurt er á kvarðanum 1-5). Almennt er svarhlutfall gott í könnuninni og eru niðurstöðurnar greinanlegar eftir teymum sem veitir stjórnendum innsýn í styrkleika og áskoranir síns teymis. Könnunin er einnig nýtt til að mæla upplifun starfsfólks á því sem er í gangi á hverjum tíma. Á árinu 2020 var m.a. könnuð líðan starfsfólks vegna COVID-19 sem og upplifun starfsfólks af styttingu vinnuvikunnar.

Gagnkvæm virðing á vinnustað

Hjá Arion banka er rík áhersla lögð á samskipti sem einkennast af gagnkvæmri virðingu og áherslu á að starfsfólki líði vel. Einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni, sem og annað ofbeldi (EKKO) er ekki undir neinum kringumstæðum umborið.

Eineltisteymi bankans ber ábyrgð á að kynna stefnu og verkferla í tengslum við EKKO og viðhalda vitund starfsfólks um þessi mál. Á árinu var forvarnar- og viðbragðsáætlun bankans gegn einelti, áreitni og ofbeldi endurskoðuð og uppfærð. Þá sátu allir stjórnendur námskeið í málaflokknum ásamt því að boðið var upp á námskeið fyrir starfsfólk.

Heilsuvernd

Okkur er umhugað um heilsu og öryggi starfsfólks og var formleg heilsu- og öryggisstefna kynnt á árinu. Markmið stefnunnar er að bæta lífsgæði og vinnuumhverfi starfsfólks ásamt því að styðja við mannauðsstefnu bankans. Með stefnunni stuðlum við að betri heilsu starfsfólks, hvort sem er andlegri, félagslegri eða líkamlegri.

Starfsfólk er hvatt til að huga vel að eigin heilsu og stunda heilbrigt líferni og leggur bankinn sitt af mörkum í þeim efnum. Unnið er markvisst að forvörnum og boðið er upp á heilsufarsskoðanir, íþróttastyrk, heilsutengda viðburði og margt fleira.

Í byrjun árs 2020 var stytting vinnuvikunnar innleidd. Í könnun meðal starfsfólks þar sem spurt var um upplifun þess af styttingu vinnuvikunnar kom í ljós að tæp 85% höfðu nýtt sér styttri vinnuviku. Af þeim sögðu 94,3% upplifunina hafa verið frekar eða mjög jákvæða.

Árið hefur verið óvenjulegt og hafa skilin á milli vinnu og einkalífs kannski ekki alltaf verið skýr þar sem margir unnu fleiri daga heima hjá sér en á vinnustaðnum. Þetta speglast í niðurstöðum Arion vísitölunnar þar sem spurt er um jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Spurt er á kvarðanum 1-5 og var meðaltal ársins 4,13 en var 4,29 árið 2019.

Heilsu- og öryggisstefna í heild á vefsíðu bankans

97%

Heilsuvísitala
Arion banka

21%

starfsfólks nýtti
sér samgöngustyrk

77%

starfsfólks nýttu
sér íþróttastyrk

19

heilsutengdir
atburðir á árinu

62%

þeirra sem fengu boð í heilsufarsskoðun þáðu boðið 

Fræðsla og starfsþróun

Arion banki býður starfsfólki upp á fjölbreytt fræðsluefni og margvíslega þjálfun með það að markmiði að allir hafi þá þekkingu og færni sem þeir þurfa til að sinna starfi sínu. Áhersla er á að veita starfsfólki tækifæri til starfsþróunar með nýjum áskorunum, aukinni ábyrgð og krefjandi verkefnum. Á sama tíma er lagt upp með að hver og einn beri ábyrgð á sinni þekkingu og færni og er starfsfólk hvatt til að sýna metnað í að efla sig og þróast í starfi.

Þrátt fyrir COVID-19 gekk fræðsla vel á árinu og náðist að fylgja eftir þeim áherslum sem búið var að setja fyrir árið. Nýjar leiðir voru farnar til að tryggja starfsfólki aðgang að fræðslu og þjálfun og eðli máls samkvæmt var lögð áhersla á rafræna fræðslu. Óhjákvæmilega þurfti að aflýsa ýmsum námskeiðum sem áttu að fara fram í höfuðstöðvum bankans bæði á vor- og haustönn. Mörg námskeið var þó hægt að aðlaga að fjarfundarforminu og fóru þau fram í gegnum Teams með góðum árangri. Almenn ánægja var á meðal starfsmanna með þetta fyrirkomulag.  

Á árinu var haldinn 91 fræðsluviðburður en 80 viðburðum var aflýst. Á sama tíma var mikið um að starfsfólk nýtti sér rafræna fræðslu utan bankans sem ekki var hluti af fræðsludagskrá bankans.

Meðaltími fræðslu í boði innan Arion banka 2018 - 2020
Klst.

Meðaltími fræðslu sem var í boði fyrir starfsfólk Arion banka tekur til þeirra námskeiða sem voru á fræðsludagskrá bankans ásamt rafrænum fyrirlestrum í gegnum fræðslukerfið. Því til viðbótar eru vikulegir fræðslufundir þar sem farið er yfir það sem hæst ber hverju sinni, afkomukynningar og starfsdagar. Einnig er starfsfólk hvatt til að sækja ráðstefnur, námskeið og fyrirlestra utan bankans.

Á árinu lauk innleiðingu á þjónustustefnu bankans þegar síðasti hópur starfsfólks fór í gegnum þjónustuþjálfun. Markmið þjálfunarinnar er að efla þjónustumenningu í takt við þjónustustefnu bankans. Innleiðingin byggir á grunni straumlínustjórnunar sem hefur verið innleidd í bankanum. Lögð hefur verið áhersla á að skapa lærdómsmenningu, vinna að umbótum og gera þannig stöðugt betur í dag en í gær. Samhliða hefur verið lögð enn meiri áhersla á að veita starfsfólki fræðslu um okkar vörur og þjónustu.

Meginverkefni 2020

  • Nýjar leiðir í fræðslu – hvernig nýtum við tæknina sem best
  • Rafræn fræðsla
  • Nýliðafræðsla
  • EKKO fræðsla
  • Heilsa og öryggi starfsfólks
Fræðsla innan Arion banka eftir kyni
Klst.
Fræðsla innan Arion banka 2020 - Stjórnendur og starfsfólk
Meðaltal klst.

1.978

þátttakendur í
fræðsluviðburðum bankans
fyrir starfsfólk

 

 

91

fræðsluviðburður
fyrir starfsfólk
í boði á árinu

 
 

 

81

rafrænn fyrirlestur
í fræðslukerfi
bankans

 
 
 

 

2,8

Hver starfsmaður sótti
að meðaltali tæplega 3 fræðsluviðburði

 
 

 

10,6

Hver starfsmaður hlustaði
að meðaltali á tæplega
11 rafræna fyrirlestra

 

Nánari upplýsingar um mannauðsmál Arion banka má finna í samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum fyrir árið 2020 og í GRI tilvísunartöflu.