Helstu atburðir ársins

Starfsemi Arion banka á árinu 2020 markaðist mjög af efnahags- og samfélagslegum áhrifum COVID-19 heimsfaraldursins. Þrátt fyrir miklar áskoranir bæði fyrir bankann og viðskiptavini hans náðist góður árangur hvað varðar þjónustu og rekstur.

Skjótt brugðist við breyttum aðstæðum

Strax á vormánuðum brást Arion banki við skyndilegum samdrætti í efnahagslífi landsins og bauð viðskiptavinum sínum, fyrstur banka hér á landi, greiðsluhlé lána. Þúsundir viðskiptavina nýttu sér þessa leið, rúmlega 2.000 einstaklingar og 500 fyrirtæki. Þannig voru lán til einstaklinga að upphæð 55 milljarðar króna og lán til fyrirtækja að upphæð 87 milljarðar króna sett í greiðsluhlé á árinu. Í árslok voru hins vegar aðeins einstaklingslán að upphæð 9 milljarðar króna og fyrirtækjalán að upphæð 26 milljarðar króna í greiðsluhléi.

Til að koma til móts við fyrirtæki sem lentu í miklu tekjufalli vegna heimsfaraldursins kynntu stjórnvöld til leiks ríkisábyrgð á lánum sem bankakerfið veitti viðskiptavinum sem uppfylltu ákveðin skilyrði. Fyrirtæki í ferðaþjónustu voru stór hluti þeirra sem nýttu sér úrræðin, enda nær algjört hrun í eftirspurn eftir þjónustu þeirra flestra. Úrræðin voru annars vegar viðbótarlán fyrir stærri fyrirtæki og hins vegar stuðningslán fyrir minni fyrirtæki. Arion banki veitti þrjú viðbótarlán að upphæð 1,3 milljarðar króna og rúmlega 300 stuðningslán fyrir tæplega 3 milljarða króna.

Skert þjónusta í útibúum – appið og þjónustuverið hlupu í skarðið

Vegna samkomutakmarkana sem stjórnvöld settu vegna COVID-19 varð bankinn á löngum tímabilum að loka útibúum sínum fyrir öðrum en þeim sem áttu bókaða tíma og afgreiðslutímum þeirra var breytt víða um land. Heimsóknum í útibú fækkaði því verulega, eða um um 55% á milli ára, sem varð til þess að notkun á öðrum þjónustuleiðum bankans jókst til mikilla muna. Áhersla undanfarinna ára á stafrænar þjónustuleiðir kom sér því afar vel í þessum aðstæðum.

Alls fóru 99% þjónustusnertinga okkar við viðskiptavini fram í gegnum stafrænar leiðir. Appið er vinsælasta þjónustuleið bankans og hafa notendur þess aldrei verið fleiri, eða 86 þúsund. Álag á þjónustuverið náði nýjum hæðum á þessu ári og stóð starfsfólk þjónustuversins vaktina með stuðningi starfsfólks bankans víða um land. Símtöl jukust um 24%, innsendir tölvupóstar um 27% og 110% aukning var í netspjallinu.

Alls fóru 99% þjónustusnertinga okkar við viðskiptavini fram í gegnum stafrænar leiðir. Appið er vinsælasta þjónustuleið bankans og hafa notendur þess aldrei verið fleiri, eða 86 þúsund.

Á árinu sameinaði bankinn útibú á Suðurlandi og var fyrirtækjaþjónustan á höfuðborgarsvæðinu sameinuð í Borgartúni. Í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni starfa nú fyrirtækjasérfræðingar sem veita fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu hvers kyns fjármálaþjónustu ásamt því að styðja við fyrirtækjaþjónustu bankans um land allt.

Besta appið á Íslandi – lífeyrismálin í appið

Arion appið varð enn betra á árinu með áframhaldandi þróun og nýjungum. Núna geta notendur appsins fengið yfirlit yfir lífeyrismál sín og gengið frá samningi um viðbótarlífeyrissparnað. Þetta er fjórða árið í röð sem kannanir sýna að appið okkar er best að mati viðskiptavina bankanna. Úttekt Finalta, dótturfélags alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins Mckinsey, sýnir jafnframt að Arion banki er í fámennum hópi fjármálafyrirtækja á heimsvísu sem eru fremst á sviði stafrænnar þróunar. Bankinn hlaut einnig sérstaka viðurkenningu á Íslensku vefverðlaununum, kyndilberar í stafrænni vegferð, ásamt því að tryggingar í appinu voru valdar besta tæknilausn ársins.

Vaxtalækkanir og sókn í íbúðalánum og innlánum – fimm milljarðar í græn innlán

Vaxtalækkanir hér á landi juku spurn eftir íbúðalánum verulega. Á árinu 2020 voru um 200 milljarðar króna lánaðir í íbúðalán sem er meira en tvöföldun frá fyrra ári. Þetta þýðir að um helmingur allra íbúðalána bankans voru veitt á árinu 2020. Arion banki kynnti til leiks nýjungar eins og viðbótaríbúðalán fyrir þá sem taka lán hjá sínum lífeyrissjóði og sérstök lán fyrir einstaklinga með tekjur í erlendri mynt.

Þrátt fyrir vaxtalækkanir var bankinn í mikilli innlánasókn á árinu. Innlán bankans jukust um 15% á árinu og markaðshlutdeild bankans á innlánamarkaði jókst. Innlán eru áfram mikilvægasta fjármögnunarleið bankans.

Græn vegferð Arion banka hélt áfram á árinu og kynnti bankinn um mitt ár græn innlán fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem vilja leggja sitt af mörkum til umhverfisvænni framtíðar. Arion banki er eina fjármálafyrirtækið á Íslandi sem býður viðskiptavinum sínum slíkan valkost. Viðtökurnar voru mjög góðar og söfnuðust rúmir fimm milljarðar króna inn á reikninginn. Innlánin hafa verið notuð til að fjármagna græn bílalán bankans sem hafa einnig gengið framar vonum. Vegna vinsælda þurfti bankinn á fyrstu vikum ársins 2021 að útvíkka þau verkefni sem grænum innlánum verður ráðstafað til. Bankinn kynnti einnig fyrstur banka græn íbúðalán, ekki síst til að hvetja til byggingar á vottuðu íbúðarhúsnæði.

Græn vegferð Arion banka hélt áfram á árinu og kynnti bankinn um mitt ár græn innlán fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem vilja leggja sitt af mörkum til umhverfisvænni framtíðar. Arion banki er eina fjármálafyrirtækið á Íslandi sem býður viðskiptavinum sínum slíkan valkost.

Fjölbreyttur stuðningur við spennandi fyrirtæki

Lán til fyrirtækja voru óvenjumikil á árinu og að mörgu leyti drifin áfram af breyttu vaxtaumhverfi en bankinn lánaði um 440 milljarða króna til fyrirtækja á árinu. Að miklu leyti var um endurfjármögnun að ræða. Bankinn aðstoðaði jafnframt fjölda fyrirtækja við að fjármagna sig á markaði með útgáfu skuldabréfa, víxla og hlutabréfa. Arion banki var einnig annar umsjónaraðilinn með yfirtökutilboði í öll hlutabréf útgefin af Skeljungi.

Góð ávöxtun viðskiptavina í stýringu

Arion banka samstæðan er ein stærsta eignastýringin á Íslandi með um 1.131 milljarð króna af eignum í stýringu. Ávöxtun ársins var góð og eignir í stýringu jukust um rúma 100 milljarða króna. Eignir fagfjárfesta í stýringu hafa aldrei verið meiri og ávöxtun lífeyrissjóðanna var góð, eða á bilinu 4-17%.

Þá var Arion banki stærstur í miðlun hlutabréfa á markaði fimmta árið í röð.

Áfram unnið að innleiðingu nýs innlána- og greiðslukerfis

Vinna við innleiðingu SOPRA, nýs innlána- og greiðslukerfis bankans, var eitt af stóru verkefnum ársins. Um er að ræða eitt allra stærsta upplýsingatækniverkefni sem bankinn hefur ráðist í á síðari árum. Verkefnið kallar á náið samstarf jafnt innan bankans sem utan sem þrátt fyrir fjarvinnu hefur gengið vel. Stefnt er að því að innleiðingu SOPRA ljúki á fyrri hluta árs 2021.

Efnahagur

Bankinn gaf út fyrstu víkjandi skuldabréfaútgáfu íslensks fjármálafyrirtækis, sem fellur undir viðbótar eigin fjár þátt 1 (AT1 skuldabréf) samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, í febrúar þegar bankinn gaf út skuldabréf fyrir 100 milljónir bandaríkjadala. Skuldabréfin hafa engan lokagjalddaga en eru uppgreiðanleg af hálfu Arion banka eftir fimm ár. Heildareftirspurn eftir skuldabréfunum var um 500 milljónir bandaríkjadala frá yfir 90 fjárfestum frá Bretlandi, Sviss og Norðurlöndunum.

Í nóvember 2020 gaf Arion banki út óveðtryggt skuldabréf til 3,5 ára fyrir 300 milljónir evra. Umframeftirspurn var meðal fjárfesta en heildareftirspurn eftir skuldabréfum nam yfir 500 milljónum evra frá um 50 fjárfestum. Samhliða útgáfu skuldabréfanna fór fram vel heppnað endurkaupaútboð á 300 milljónum evra af 500 milljón evra skuldabréfaútgáfu sem er á gjalddaga í desember 2021.

Í byrjun árs 2021 samþykkti Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands 15 milljarða króna kaup bankans á eigin bréfum. Í kjölfarið samþykkti stjórn Arion banka á fundi sínum 10. febrúar 2021 að heimila bankanum að hefja endurkaupaáætlun á hlutabréfum bankans á Íslandi og í Svíþjóð (í formi SDR). Þrátt fyrir endurkaup og þriggja milljarða arðgreiðslu er fjárhagslegur styrkur bankans í árslok 2020 með því besta sem gerist í Evrópu.

Fréttir ársins 2020