Stefnir

Stefnir hf. er rótgróið íslenskt sjóðastýringarfyrirtæki með um 230 milljarða króna í virkri sjóðastýringu í árslok 2020. Félagið er að fullu í eigu Arion banka og tengdra félaga og starfsstöðvar þess eru til húsa í höfuðstöðvum bankans. Eignir í stýringu félagsins eru í eigu fjölbreytts hóps fjárfesta, allt frá einstaklingum upp í stærstu fagfjárfesta landsins. Eignir fjárfesta eru ýmist í verðbréfa-, fjárfestingar- eða fagfjárfestasjóðum, auk þess sem Stefnir hefur gert samninga um stýringu á eignum nokkurra samlagshlutafélaga fyrir hönd viðskiptavina sinna. Í árslok 2020 voru 19 starfsmenn hjá Stefni.

Eignir í stýringu
Milljarðar króna

Eignir í virkri stýringu lækkuðu á árinu um tæpa 22 milljarða króna eða úr rúmum 252 milljörðum króna í 230 milljarða króna. Skýrist það að mestu af uppgreiðslu sérhæfðra afurða en jákvætt var að sjá aukinn áhuga fjárfesta á innlendum hluta- og fyrirtækjaskuldabréfum á seinni helmingi ársins. Lá leið margra fjárfesta m.a. inn í nýjan sjóð, Stefni – Vaxtasjóð, sem mun fjárfesta í dreifðu safni skuldabréfa fyrirtækja og vonumst við þannig til að styðja við enn frekari útgáfur félaga á markaði. Dreifing eignaflokka í stýringu er góð og tekjusamsetning félagsins í samræmi við markmið stjórnar.

Markaðurinn

Árið var krefjandi á öllum helstu eignamörkuðum vegna COVID-19 heimsfaraldursins, miklar lækkanir urðu á hlutabréfamörkuðum í lok fyrsta ársfjórðungs þegar faraldurinn dreifðist hratt um allan heim en þá lækkuðu erlendir hlutabréfamarkaðir um rúmlega 30%. Við tóku stuðningsaðgerðir ríkisstjórna og seðlabanka af áður óþekktri stærðargráðu, bæði til fyrirtækja og heimila. Þetta leiddi til einnar snörpustu og kröftugustu leiðréttingar sem orðið hefur á erlendum hlutabréfamörkuðum, en heimsvísitalan endaði lítillega í plús.

Innanlands brást Seðlabankinn við áhrifum COVID-19 á hagkerfið með ýmsum tækjum, m.a. lækkaði bankinn stýrivexti sína um 2% í nokkrum skrefum og boðaði til magnbundinnar íhlutunar. Ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréfum lækkaði hratt samhliða þessum aðgerðum framan af ári.

Jákvæð ávöxtun allra sjóða árið 2020

Ávöxtun sjóða á árinu 2020 var jákvæð í öllum eignaflokkum. Erlendir og innlendir hlutabréfamarkaðir skáru sig sérstaklega úr í samanburði við aðra eignaflokka. Erlendir hlutabréfamarkaðir hækkuðu umtalsvert þrátt fyrir nokkrar sveiflur, Stefnir – Scandinavian Fund hækkaði t.a.m. um rúm 28% og KF Global Value, sem er erlendur hlutabréfasjóður í stýringu Stefnis, hækkaði um rúm 17% í íslenskum krónum. Einnig náðist góður árangur í ávöxtun skuldabréfasjóða Stefnis en Stefnir – Skuldabréfaval skilaði um 8% ávöxtun á árinu. Blandaðir sjóðir nutu á árinu góðs af ávöxtun hlutabréfa og skuldabréfa og skiluðu eigendum sínum góðri ávöxtun.

Ábyrgar fjárfestingar og hlutverk Stefnis

Hlutverk Stefnis er að stýra fjármunum í eigu viðskiptavina með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Ábyrgar fjárfestingar, fjölbreyttir fjárfestingarkostir og ítarleg upplýsingagjöf eru lykilatriði við framkvæmd þeirrar samfélagsábyrgðar sem Stefnir vill standa fyrir. Með því að taka tillit til umhverfismála, samfélagslegra þátta og góðra stjórnarhátta teljum við að við getum í okkar daglegu störfum haft jákvæð áhrif á samfélag okkar, eigendum í sjóðum og öðrum haghöfum til góðs.

Stjórn Stefnis hefur sett félaginu stefnu um ábyrgar fjárfestingar og er stöðugt unnið að innleiðingu hennar í fjárfestingaferla og við samval fjárfestinga. Vöruþróun miðar að miklu leyti að því að bjóða ábyrga fjárfestingakosti í takt við óskir viðskiptavina okkar. Annarri framvinduskýrslu Stefnis til UN PRI (UN Principles for Responsible Investment) var skilað á árinu og verður hægt að fylgjast með árangri félagsins og fylgni við reglur PRI um ábyrgar fjárfestingar á þeim vettvangi. Allt starfsfólk og stjórn Stefnis eru að ljúka námi á vegum PRI Academy sem er helsti fræðsluvettvangur í málefnum ábyrgra fjárfestinga á heimsvísu.

Á árinu 2020 tók Stefnir þátt í að undirrita viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar. Fjármagn er mikilvægt hreyfiafl í mótun atvinnulífs og atvinnusköpunar í þeirri uppbyggingu sem fram undan er. Ákvarðanir sem teknar eru í dag munu hafa mikil áhrif á framþróun næstu ára og því mikilvægt að þær séu teknar með sjálfbærni að leiðarljósi. Með því að nýta fjármagn með markvissum aðgerðum er hægt að viðhalda sjálfbærri þróun og á sama tíma efla samkeppnishæfni þjóða og framtíð komandi kynslóða.

Stjórn Stefnis hefur tileinkað sér góða stjórnarhætti og einsett sér að stuðla að og styðja við ábyrga hegðun og fyrirtækjamenningu innan Stefnis, til hagsbóta fyrir alla hagaðila félagsins. Stefnir varð árið 2012 fyrst íslenskra félaga til að hljóta nafnbótina fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum og hefur viðhaldið þeirri vinnu allar götur síðan.