Arion banki náði góðum árangri á árinu þrátt fyrir krefjandi aðstæður vegna efnahags- og samfélagslegra áhrifa COVID-19. Bankinn brást skjótt við þegar útlit var fyrir að samkomutakmarkanir og skyndilegur samdráttur í eftirspurn víða í hagkerfinu myndi setja mark sitt á líf og störf viðskiptavina og bauð greiðsluhlé á lánum. Jafnframt veitti bankinn sérstök viðbótar- og stuðningslán sem voru liður í aðgerðum stjórnvalda vegna faraldursins. Þessar aðgerðir komu til viðbótar við hefðbundna fjármálaþjónustu og útlánastarfsemi sem sjaldan hefur verið jafn umfangsmikil, að nokkru leyti drifin áfram af vaxtalækkunum Seðlabankans. Tekjur bankans jukust um 6% á árinu á sama tíma og kostnaður lækkaði frá fyrra ári. Hagnaður bankans nam 12,5 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár var 6,5% sem er nokkuð undir markmiðum. Ástæðan er að hluta til mikið eigið fé, sem var langt umfram kröfur eftirlitsaðila, en einnig að fyrsti ársfjórðungur markaðist nokkuð af niðurfærslum og lækkunum á eignamörkuðum sökum óvissu. Afkoma bankans á öðrum fjórðungum ársins var góð. Það voru afar góð tíðindi að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands samþykkti í upphafi árs 2021 beiðni bankans um að kaupa til baka eigin bréf fyrir allt að 15 milljarða króna. Stjórn Arion banka gerir tillögu til aðalfundar um að greiða tæplega þriggja milljarða króna arð. Þrátt fyrir bæði arðgreiðslu og endurkaup er eiginfjárhlutfall bankans í árslok 27% og fjárhagslegur styrkur bankans með því besta sem gerist í Evrópu.

Starfsfólk bankans á þakkir skildar fyrir frumkvæði og útsjónarsemi við þessar einstöku aðstæður sem heimsfaraldurinn, er markaði líf allra á árinu 2020, leiddi af sér. Vikum og mánuðum saman störfuðu allt að 80% starfsmanna bankans heima, þjónuðu viðskiptavinum og sinntu margvíslegum verkefnum. Þrátt fyrir að starfsstöðvum bankans væri skyndilega fjölgað úr um 20 í rúmlega 500, tókst starfsfólki með einurð að halda uppi órofinni þjónustu, þróa og kynna aðgerðir bankans vegna COVID-19 og halda öllum verkefnum gangandi. Vöruþróun er þar með talin en bankinn kynnti fjölda nýrra þjónustuþátta á árinu.

Áherslubreytingar skila góðum árangri

Afkoma bankans batnaði verulega á milli ára, bæði hreinn hagnaður og hagnaður af áframhaldandi starfsemi, sem sýnir góðan árangur af þeim skipulags- og áherslubreytingum er ráðist var í undir lok þriðja ársfjórðungs 2019. Vaxta- og þóknunartekjur og tekjur af tryggingastarfsemi, þ.e. tekjur af okkar kjarnastarfsemi, hækkuðu um rúm 6% á milli ára á sama tíma og kostnaður lækkaði um 5%, sé horft fram hjá einskiptiskostnaði á árinu 2019. Kostnaðarhlutfall ársins var í takti við markmið okkar, þ.e undir 50%, og höfum við nú sett okkur enn metnaðarfyllra markmið, þ.e. að kostnaðarhlutfall verði 45% eða lægra.

Markviss viðbrögð við COVID-19 og vaxtalækkunum

Strax í marsmánuði bauð Arion banki, fyrstur íslenskra banka, bæði einstaklingum og fyrirtækjum að fá greiðsluhlé á lánum. Lán að upphæð 130 milljarðar króna voru að ósk viðskiptavina í greiðsluhléi á einhverjum tímapunkti á árinu 2020. Í árslok hafði talan sem betur fer lækkað um tæpa 100 milljarðar króna, niður í um 35 milljarða.

Lán að upphæð 130 milljarðar króna voru að ósk viðskiptavina í greiðsluhléi á einhverjum tímapunkti á árinu 2020. Í árslok hafði talan sem betur fer lækkað um tæpa 100 milljarðar króna, niður í um 35 milljarða.

Það kann að skjóta skökku við að bankinn hafi aldrei veitt jafnmörg íbúðarlán og á árinu 2020. Þessi staðreynd skýrist vitanlega af breyttu vaxtaumhverfi hér á landi í kjölfar stýrivaxtalækkana Seðlabanka Íslands en bylting varð í spurn eftir íbúðarlánum með breytilegum óverðtryggðum vöxtum. Um helmingur íbúðalánasafns bankans í árslok voru lán sem við veittum viðskiptavinum á árinu 2020, samtals um 200 milljarðar króna. Lán til fyrirtækja voru einnig óvenjumikil en bankinn lánaði um 440 milljarða króna til fyrirtækja á árinu. Þar var að talsverðum hluta um endurfjármögnun að ræða. Meðal nýrra lána til fyrirtækja er rúmlega einn milljarður króna í viðbótarlán og tæpir þrír milljarðar króna í stuðningslán sem tengjast aðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19.

Vegna aðstæðna varð að grípa til þess ráðs að loka útibúum bankans um skeið nema fyrir þeim viðskiptavinum sem höfðu bókað tíma fyrir fram. Er ekki annað að heyra en að þetta fyrirkomulag hafi mælst vel fyrir enda gefur það ráðgjöfum bankans færi á að undirbúa fundi með viðskiptavinum betur en ella. Takmarkað aðgengi að útibúum leiddi hins vegar til þess að álag á þjónustuver bankans náði nýjum hæðum og stóð starfsfólk þjónustuversins vaktina með stuðningi starfsfólks útibúa víða um land.

Arion appið besta bankaappið á Íslandi fjórða árið í röð

Sú stafræna þróun sem hefur átt sér stað í fjármálaþjónustu hér á landi kom sér afar vel í Covid-faraldrinum enda gátu bæði einstaklingar og fyrirtæki sinnt nær öllum sínum fjármálum með stafrænum hætti heima fyrir og greitt fyrir vörur og þjónustu með snertilausum hætti.

Að meðaltali áttum við samskipti við alla okkar viðskiptavini einu sinni á dag á árinu 2020, alls 42 milljón skipti, og voru 99% samskiptanna stafræn. Það gefur auga leið að í þessu felast tækifæri til að efla þjónustu okkar frekar, gera hana enn þægilegri og skilvirkari.

Appið er nú vinsælasta þjónustuleið bankans en notendur þess eru í dag um 86 þúsund. Fjórða árið í röð sýna kannanir meðal viðskiptavina bankanna að Arion appið er besta bankaappið hér á landi. Í raun er það svo að úttekt Finalta, dótturfélags alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Mckinsey, sýnir að Arion banki er meðal þeirra fjármálafyrirtækja á heimsvísu sem eru allra fremst á sviði stafrænnar þróunar.

Við höfum haldið áfram að bæta appið og geta notendur þess nú fengið yfirlit yfir lífeyrismál sín og gengið frá samningi um viðbótarlífeyrissparnað. Við erum líka stolt af því að á árinu fékk Arion banki sérstaka viðurkenningu á Íslensku vefverðlaununum, kyndilberar í stafrænni vegferð, ásamt því að tryggingar í appinu voru valdar besta tæknilausn ársins.

Við erum líka stolt af því að á árinu fékk Arion banki sérstaka viðurkenningu á Íslensku vefverðlaununum, kyndilberar í stafrænni vegferð, ásamt því að tryggingar í appinu voru valdar besta tæknilausn ársins.

Stafræn þjónusta er lykilþáttur í stefnu bankans og Arion appið er sterkt vopn í samkeppni sem á aðeins eftir að aukast. Það er lykilatriði að ráða yfir þjónustuleið sem viðskiptavinir okkar kunna að meta og nýta, jafnvel daglega. Við ætlum okkur einnig að eiga í markvissu samstarfi við spennandi fjártæknifyrirtæki til að auka enn frekar drifkraftinn í okkar starfsemi og efla samkeppnishæfni.

Markvisst stutt við íslensk fyrirtæki

Hluti af breytingum á starfsemi bankans er aukin áhersla á arðsemi umfram vöxt sem fer vel með þeim áherslum okkar að leita bestu lausna fyrir viðskiptavini. Þetta felur meðal annars í sér að til viðbótar við að nýta efnahag okkar til lánveitinga þá nýtum við sérþekkingu starfsfólks bankans til að aðstoða fyrirtæki við að sækja fjármagn á markað með útgáfu víxla, skuldabréfa og hlutabréfa, allt eftir því hvað hentar okkar viðskiptavinum best.

Á árinu aðstoðuðum við fjölda fyrirtækja við að fjármagna sig á markaði. Fyrirtæki eins og Eskja og Icelandic Salmon (Arnarlax) eru góð dæmi um slíkt. Einnig Controlant sem er eitt mest spennandi vaxtarfyrirtæki landsins og gegnir mikilvægu hlutverki við dreifingu bóluefnis um heim allan. Arion banki sá um tvö hlutafjárútboð fyrir félagið og sölu á 11,33% hlut í því. Það er einstaklega ánægjulegt að geta stutt við vöxt svona spennandi og mikilvægs fyrirtækis.

Áhersla á grænar vörur

Umhverfis- og loftlagsmál eru okkur sérstaklega hugleikin enda eitt mest aðkallandi úrlausnarefni samtímans. Við höfum á undanförnum árum lagt okkur fram um að draga úr kolefnislosun í okkar eigin starfsemi með góðum árangri. Á sama tíma gerum við okkur grein fyrir því að við höfum mest áhrif í gegnum þjónustu okkar og vöruframboð.

Á árinu 2020 lögðum við áherslu á að fjölga grænum vörum bankans. Um mitt ár kynnti bankinn græn innlán, sem við köllum Grænan vöxt, og hefur þeim verið ráðstafað til fjármögnunar á grænum bílalánum bankans. Þannig geta viðskiptavinir okkar lagt sitt af mörkum til nauðsynlegra orkuskipta. Í lok árs höfðu viðskiptavinir okkar lagt rúma fimm milljarða króna inn á reikninginn sem er framar okkar vonum. Vegna þessara miklu vinsælda höfum við útvíkkað umgjörð reikningsins og fara grænu innlánin nú einnig í að fjármagna verkefni sem styðja við hringrásarhagkerfið, mengunarvarnir og betri stýringu úrgangs.

Arion banki bauð einnig fyrstur banka upp á græn íbúðalán. Viðskiptavinir okkar, sem festa kaup á umhverfisvottuðu íbúðarhúsnæði, njóta nú sérkjara varðandi íbúðalán. Með því að bjóða upp á græn íbúðalán viljum við stuðla að því að einstaklingar, verktakar og fasteignafélög byggi meira af slíku húsnæði, en að okkar mati er framboðið of lítið í dag.

Með því að bjóða upp á græn íbúðalán viljum við stuðla að því að einstaklingar, verktakar og fasteignafélög byggi meira af slíku húsnæði, en að okkar mati er framboðið of lítið í dag.

Áframhaldandi skuldbinding við sjálfbærni og ábyrga fjármálaþjónustu

Í umhverfis- og loftslagsstefnu bankans, sem samþykkt var af stjórn hans undir lok árs 2019, er kveðið á um að bankinn ætli að leggja sitt af mörkum til þess að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og alþjóðlegum skuldbindingum. Við munum jafnframt halda áfram þátttöku í því góða starfi sem er unnið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna en þar erum við aðilar að meginreglum um ábyrga bankaþjónustu (PRB) og ábyrgar fjárfestingar (PRI) sem og Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Við höfum valið okkur sex heimsmarkmið til að leggja sérstaka áherslu á. Þau eru jafnrétti kynjanna, sjálfbær orka, góð atvinna og hagvöxtur, nýsköpun og uppbygging, ábyrg neysla og framleiðsla og aðgerðir í loftslagsmálum.

Við erum stolt af því að á árinu hlaut Arion banki framúrskarandi einkunn í UFS áhættumati Reitunar, 86 stig af 100 mögulegum. Um þrjátíu innlendir útgefendur hafa farið í gegnum mat Reitunar og er meðaleinkunn þeirra 60 stig. Er þetta okkur hvatning til áframhaldandi áherslu á sjálfbærni í okkar störfum.

Ný og metnaðarfull stefna Arion banka

Í desember samþykkti stjórn Arion banka uppfærða stefnu. Hún grundvallast á þeirri vegferð sem bankinn hefur verið á undanfarin ár, menningu okkar og gildum og þeim áherslubreytingum sem kynntar voru í september 2019. Kjarninn í hinni uppfærðu stefnu er að við ætlum að standa öðrum framar með snjöllum og traustum fjármálalausnum sem skapa viðskiptavinum, hluthöfum og samfélaginu öllu verðmæti til framtíðar.

Innleiðing stefnunnar er þegar hafin og mun hún setja mark sitt á alla okkar starfsemi og þjónustu á komandi árum. Til að styðja við innleiðingu stefnunnar höfum við sett okkur skýra mælikvarða og markmið sem kaupaukakerfi bankans fyrir árið 2021 byggist jafnframt á. Allir starfsmenn bankans eiga aðild að kaupaukakerfinu. Í byrjun árs 2021 bauðst starfsfólki jafnframt að taka þátt í kaupréttarkerfi til fimm ára með það að markmiði að samþætta enn betur hagsmuni starfsfólks og langtímahagsmuni bankans.

Við erum því með skýra stefnu og markmið.

Ég vil þakka stjórn og starfsfólki Arion banka fyrir frábært samstarf og fyrir einstakt þolgæði og ósérhlífni á ári sem seint mun gleymast.