Áhættustýringarsvið

Áhættustýringarsvið bankans er sjálfstæð stjórnunareining og ber ábyrgð gagnvart bankastjóra. Framkvæmdastjóri sviðsins er Úlfar F. Stefánsson.

Áhættustýringarsvið skiptist í þrjár einingar.

Áhættueftirlit ber ábyrgð á umgjörð innra eftirlits og styður við áhættustýringu fyrstu varnarlínu. Deildin ber ábyrgð á yfirferð lána með tilliti til niðurfærsluþarfar og tryggir að innri ferli og stýringar bankans lágmarki hættu á tapi með sem skilvirkustum hætti. Einingin stýrir þróun og viðheldur aðferðum til að greina, mæla, hafa eftirlit með og stjórna rekstraráhættu með það að markmiði að lágmarka hana. Ábyrgð á stjórnun eigin rekstraráhættu liggur hjá sviðum bankans.

Áhættustjóri öryggis og gagna tilheyrir áhættueftirliti og sinnir eftirliti með öryggismálum og stýringu gagna í annarri varnarlínu bankans.

Undir ábyrgðarsvið áhættugreiningar fellur markaðsáhætta, lausafjáráhætta, eiginfjárgreining, líkanagerð og framkvæmd álagsprófa. Deildin greinir og hefur eftirlit með kerfislægum ójöfnuði og áhættum á efnahagsreikningi bankans. Framkvæmd innra mats á eiginfjárþörf (ICAAP) og lausafjárþörf (ILAAP) bankans er á ábyrgð deildarinnar. Áhættugreining ber ábyrgð á þróun og rekstri lánshæfismatslíkana bankans.

Áhættustjóri útlána tilheyrir lánagreiningu en einingin tryggir aðkomu áhættustýringar að lánamálum hjá útlánasviðum ásamt því að greina og hafa eftirlit með lánamálum sem koma fyrir lánanefndir bankans. Einingin sinnir umsýslu og skipulagi lánanefndafunda, ráðgjöf varðandi breytingar á lánareglum og veitir skýrslugjöf til lánanefndar stjórnar.

Áhættustjóri lífeyrissjóða í rekstri hjá Arion banka er staðsettur á áhættustýringarsviði og heyrir undir framkvæmdastjóra. Áhættustjóri lífeyrissjóða uppfyllir hlutverk ábyrgðaraðila áhættustýringar í samræmi við lög 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og reglugerð 590/2017 um eftirlitskerfi með áhættu lífeyrissjóða.

Nánari umfjöllun um áhættustýringu bankans er að finna í umfjöllun um áhættustýringu og í áhættuskýrslu bankans fyrir árið 2020.