Valitor

Valitor var stofnað árið 1983 og er greiðslulausnafyrirtæki sem veitir fjölbreytta þjónustu á sviði færsluhirðingar, greiðslugátta og kortaútgáfu. Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi en einnig er starfsstöð í Bretlandi og nær starfsemin til 28 landa.

Viðskiptasvið

Valitor færsluhirðir Visa, MasterCard og AMEX greiðslukort og veitir kaupmönnum á Íslandi og Bretlandi greiðsluþjónustu beint en sviðið þjónustar einnig alþjóðlega færslumiðlara sem veita svo áfram greiðsluþjónustu til kaupmanna víða um Evrópu.

Útgáfulausnir Valitor taka til þjónustu og samstarfs við íslenska banka um útgáfu Visa greiðslukorta. Að auki veitir Valitor enn sem komið er nokkrum erlendum samstarfsaðilum útgáfuþjónustu. Félagið mun senn hverfa frá útgáfu korta utan Íslands en bjóða þess í stað vinnsluþjónustu á útgáfusviði í Evrópu.

Ár umbreytinga

Mikilvægir áfangar hafa náðst í umbreytingu félagsins með viðamiklum skipulagsbreytingum sem hrint var í framkvæmd í upphafi ársins 2020. Fjármagnsskipan var styrkt þegar lánum var breytt í hlutafé í mars 2020 til að styrkja efnahag félagsins. Breytingar urðu á stjórn Valitor í lok árs 2019 með innkomu þriggja nýrra einstaklinga. Á sama tíma var gripið til víðtækra aðgerða til að taka rekstur Valitor föstum tökum í því augnamiði að styrkja reksturinn til framtíðar. Þá komu til ýmsar áherslubreytingar sem eru til þess fallnar að efla kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Rekstur Valitor hafði verið óarðbær frá árinu 2014 ef litið er framhjá jákvæðum einskiptisáhrifum vegna sölu á hlutum fyrirtækisins í Visa Europe árið 2016 og ljóst að við svo búið mátti ekki standa.

Herdís Dröfn Fjeldsted var ráðin forstjóri félagsins í lok mars 2020, en hún hafði fram að því gegnt stöðu formanns stjórnar félagsins frá október 2019.

Tekin hafa verið stór skref í samþættingu grunnkerfa færsluhirðingar til að ná meiri hagkvæmni í rekstri. Mikilvægir áfangar hafa náðst í einföldun á vöruframboði og bjóða nú færsluhirðingareiningar Valitor hér á landi og í Bretlandi upp á sömu greiðslulausnir hvort sem um er að ræða posa eða vefgreiðslulausnir.

Meginþemu í stefnu Valitor 2021-2023 eru fjögur, staðlað vöruframboð, einföldun, skilvirkni og vöxtur með samstarfsaðilum í færsluhirðingu. Með viðeigandi aðgerðum mun félagið uppskera áframhaldandi rekstrarhagræðingu, fullbúnar greiðslulausnir þvert á markaði og bætta afkomu fyrirtækisins.

  • Styrkja kjarnastarfsemi Valitor í því sem félagið gerir vel með það að markmiði að auka virði og ávinning samstarfsaðila og viðskiptavina.

  • Færsluhirðingarþjónusta mun áfram vera boðin kaupmönnum á Íslandi og Bretlandi beint en einnig verður lögð áhersla á vöxt í Evrópu í gegnum samstarfsaðila. Færsluhirðing verður sameinuð undir stöðluðu vöruframboði með mismunandi markaðsnálgun.

  • Útgáfuþjónustan mun halda áfram að bjóða viðskiptavinum sínum öflugar útgáfulausnir og veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu byggða á mikilli þekkingu og reynslu á markaðnum.

Rekstur og afkoma

Árið 2020 hefur einkennst af margvíslegum áskorunum vegna COVID-19 faraldursins, en ekki síður vegna umfangsmikilla skipulagsbreytinga og margvíslegra umbóta á efnahag og í rekstri félagsins.

Jákvæður viðsnúningur varð í rekstri Valitor þrátt fyrir miklar áskoranir í ytra umhverfi félagsins. Þannig var rekstrarniðurstaða ársins af reglulegri starfsemi neikvæð um 1,5 milljarða króna og hefur batnað um 8 milljarða á milli ára, en til samanburðar var rekstrarniðurstaða ársins 2019 neikvæð um 9,5 milljarða króna. EBITDA þróun félagsins hefur sömuleiðis þróast með jákvæðum hætti og ef ekki er tekið tillit til einskiptiskostnaðar sem féll til á árinu er batinn á milli ára yfir 5 milljarðar króna.

COVID-19 faraldurinn hefur haft veruleg áhrif til lækkunar tekna og því má reikna með að fyrri markmið um viðsnúning í rekstri kunni að taka lengri tíma en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Alrásaþjónusta (e. Omni-Channel) félagsins í Danmörku var seld í maí og tengd starfsemi í alrásaþjónustu í Bretlandi síðan einnig seld í byrjun júní. Salan var mikilvægt skref í viðsnúningi á rekstri félagsins, þótt starfsemi alrásaþjónustunnar hafi haft neikvæð áhrif á sjóðstreymi félagsins á fyrri hluta ársins að öðru leyti. Það er álit yfirstjórnar félagsins að þessi ákvörðun hafi verið mikið framfaraskref þótt enn standi félagið frammi fyrir margvíslegum áskorunum og óvissu í rekstrinum.

Rekstur útgáfulausna gekk vel í krefjandi umhverfi, en COVID-19 faraldurinn hafði neikvæð áhrif á tekjur útgáfulausna þar sem kortanotkun erlendis dróst verulega saman.

Starfsemi færsluhirðingar innanlands hefur verið að sækja í sig veðrið á síðustu misserum, viðskiptavinum fjölgað og afkoma batnað. Vegna COVID-19 faraldursins hafa viðskiptahættir verið að breytast í verslunar- og veitingaþjónustu, sem hefur verið mætt með framþróun og nýsköpun í vöruframboði, sérstaklega á sviði netviðskipta en ekki síður snertilausra greiðslulausna við búðarborðið.

Starfsemi með færslumiðlurum erlendis (e. Partnerships) hefur gengið vel, samstarfsaðilum í greiðslumiðlun fjölgað og fleiri nýir samstarfsaðilar á því sviði koma til í ársbyrjun 2021.

Valitor og samfélagið

Starfsmenn félagsins voru um 330 í upphafi ársins, en fækkaði á árinu og voru þeir samtals 214 í árslok á starfsstöðvum félagsins á Íslandi og í Bretlandi.

Áhersla var lögð á jafnréttismál á árinu og hefur vægi hvors kyns sem hlutfall af heildarstarfsmannafjölda orðið mun jafnara á árinu. Í framkvæmdastjórn félagsins sitja nú 3 konur og 4 karlar. Kynjahlutfall starfsmanna í lok ársins var um 53% karlar og 47% konur. Valitor hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar á árinu 2020, en vert að geta þess að félagið hefur gengist undir árlega jafnlaunavottun síðan 2019.

Með breyttum áherslum og fækkun starfsfólks var ráðist í mikla hagræðingu í húsnæðismálum Valitor í Dalshrauni í lok ársins. Þannig minnkaði fyrirtækið við sig og fór úr 4.400 fermetrum í u.þ.b. 2400. Af því leiðir að betri nýting verður á húsnæði félagsins og mun allt starfsfólk sinna störfum sínum í opnu rými eftirleiðis.

Á árinu 2020 var samþykkt ný fjarvinnustefna Valitor. Eitt af markmiðum hennar er að draga úr mengun með færri ferðum starfsfólks til og frá vinnu, auk þess að fækka þeim ferðalögum erlendis sem ekki eru talin nauðsynleg.

Það er stefna Valitor að sýna gott fordæmi í umhverfismálum. Markmiðið er að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif rekstrarins með því að leggja rækt við sjálfbærni, bæði í innri og ytri starfsemi. Valitor er þátttakandi í loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar síðan í nóvember 2015. Frá árinu 2017 hefur Valitor markvisst unnið að því að draga úr kolefnisspori félagsins og var gengið til samstarfs við Klappir Grænar lausnir í þeim tilgangi að kortleggja betur eigin vistspor.

Valitor leggur mikla áherslu á að starfsfólk þess geti samsamað sig og fylgt gildum fyrirtækisins. Gildi Valitor eru þrjú: traust, samvinna og framúrskörun. Dýrmætasta eign fjármálafyrirtækis er traust og trúverðugleiki sem markast ekki síst af jákvæðum siðferðisgildum sem höfð eru í heiðri af öllu starfsfólki þess. Þannig vill Valitor starfa.