Fyrirtækja- og fjárfestingar­bankasvið

Fyrirtækja- og fjárfestingarbankasvið veitir fyrirtækjum og stofnunum heildstæða þjónustu varðandi fjármögnun, innlán og ráðgjöf. Þjónusta sviðsins nær m.a. til aðilaskipta að fyrirtækjum, sameiningar fyrirtækja og fjármögnunar þeirra, sem og undirbúnings og ráðgjafar vegna skráningar skuldabréfa og hlutabréfa á verðbréfamarkað í samstarfi við markaði. Framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs er Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason, aðstoðarbankastjóri Arion banka.

Fyrirtækjasvið veitir millistórum og stórum fyrirtækjum alhliða fjármálaþjónustu og sérsniðnar lausnir. Mörg af rótgrónustu fyrirtækjum landsins eiga farsælt viðskiptasamband við bankann og hafa verið viðskiptavinir bankans eða forvera hans í áratugi. Áhersla bankans á langtímaviðskiptasambönd og trausta og lausnamiðaða nálgun skipta þar mestu. Á fyrirtækjasviði starfar fjöldi einstaklinga með fjölbreytta menntun, sérfræðiþekkingu og áratugareynslu af fjármálastarfsemi. Innan sviðsins starfa þrjú teymi. Sjávarútvegs- og þjónustuteymið þjónar annars vegar útgerðarfyrirtækjum og fiskeldisfyrirtækjum innanlands sem utan og hins vegar stærri þjónustufyrirtækjum landsins, m.a. í ferðaþjónustu, innflutningi, smásölu, upplýsingatækni og fjárfestingar- og vátryggingastarfsemi. Fasteigna- og innviðateymið býður upp á sérhæfða þjónustu við fyrirtæki í fasteigna- og orkugeira ásamt því að þjóna fyrirtækjum á sviðum fjarskipta, flutninga, stóriðju og annars konar iðnaðar. Greiningar- og rekstrarteymið annast fjölbreytt verkefni gagnvart viðskiptavinum og bankanum sjálfum, svo sem almenna þjónustu, greiningarvinnu, eftirlit með útlánum ásamt miðlun útlána til fagfjárfesta. Forstöðumaður fyrirtækjasviðs er Jón Finnbogason, lánastjóri Arion banka hf.

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka veitir ráðgjöf við kaup, sölu, samruna og yfirtökur á fyrirtækjum og stærri eignarhlutum ásamt því að vera leiðandi umsjónaraðili með skráningu verðbréfa í samvinnu við markaðsviðskipti bankans. Meðal viðskiptavina fyrirtækjaráðgjafar eru mörg af stærstu fyrirtækjum landsins, helstu vaxtarsprotar og umsvifamiklir fjárfestar. Teymið býr yfir mikilli reynslu og yfirgripsmikilli þekkingu þar sem áhersla er lögð á traust viðskiptasambönd, lausnamiðaða nálgun, fagmennsku og vönduð vinnubrögð. Forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar er Lýður Þór Þorgeirsson.

Lærdómsríkt ár í krefjandi umhverfi

Heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á rekstur bankans í heild og einnig starfsemi fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs. Áhersla var lögð á að veita viðskiptavinum upplýsingar um mögulega úrlausn þess vanda sem faraldurinn skapaði. Þá færðu flestir starfsmenn vinnustöð sína inn á heimili sitt. Arion banki naut fjárfestinga undanfarinna ára í tækniinnviðum og gat nýtt þá til að veita viðskiptavinum sínum snögga og tafalausa úrlausn mála.

Fyrirtækjaráðgjöf bankans hélt áfram að vinna með og styðja við fyrirtæki í landinu. Á árinu þjónaði deildin mörgum af mest spennandi vaxtarfyrirtækjum landsins, meðal annars fyrirtæki sem gegnir lykilhlutverki í því stóra verkefni sem heimurinn stendur nú frammi fyrir við dreifingu bóluefnis. Þá hefur Arion banki verið leiðandi í að styðja við vöxt og þróun fiskeldis hér á landi. Sú vaxandi atvinnugrein tók mörg stór skref í þróun sinni hér á landi, meðal annars með skráningu hlutabréfa í Noregi, með aðstoð fyrirtækjaráðgjafar bankans. Fiskeldi hefur stutt ötullega við sumar af brothættustu byggðum landsins og er orðin ein lykilstoða í útflutningstekjum þjóðarbúsins. Arion banki mun áfram leggja áherslu á þróun verðbréfamarkaða og stuðning við alþjóðaviðskipti og vaxtarfyrirtæki.

Fyrirtækjaráðgjöf bankans hélt áfram að vinna með og styðja við fyrirtæki í landinu. Á árinu þjónaði deildin mörgum af mest spennandi vaxtarfyrirtækjum landsins, meðal annars fyrirtæki sem gegnir lykilhlutverki í því stóra verkefni sem heimurinn stendur nú frammi fyrir við dreifingu bóluefnis.

 

Samfélagsábyrgð og umhverfismál

Arion banki hefur markað sér skýra stefnu þegar kemur að samfélagsábyrgð og umhverfis- og loftslagsmálum. Saman látum við góða hluti gerast er yfirskrift stefnu bankans um samfélagsábyrgð sem kristallast í að starfa með ábyrgum hætti í sátt við samfélag og umhverfi. Starfsfólk fyrirtækja- og fjárfestingabankasviðs hefur stefnu bankans að leiðarljósi í öllum sínum störfum og leggur sitt af mörkum til upplýstrar umræðu og ákvarðanatöku. Sem dæmi um viðfangsefni sviðsins á sviði samfélagsábyrgðar og umhverfismála má nefna að öll lán fyrirtækjasviðs til orkuiðnaðar eru á sviði endurnýjanlegrar orku. Lán bankans til sjávarútvegs miða í öllu að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar og allar fasteignir sem fyrirtækjasvið kemur að því að fjármagna notast við jarðvarmaorku til húshitunar.

Á árinu voru útbúnir verkferlar við mat grænna eigna í lánasafni bankans. Í kjölfarið réðst fyrirtækja- og fjárfestingarbankasvið í umfangsmikla greiningu á lánasafni sínu þar sem þar til bær lán voru flokkuð sem græn. Svið bankans hafa einnig starfað saman að mótun sérstaks græns fjármögnunarramma sem mun nýtast þeim viðskiptavinum bankans sem mesta áherslu leggja á umhverfis- og samfélagsmál í rekstri sínum.

Svið bankans hafa einnig starfað saman að mótun sérstaks græns fjármögnunarramma sem mun nýtast þeim viðskiptavinum bankans sem mesta áherslu leggja á umhverfis- og samfélagsmál í rekstri sínum.

Virk þátttaka fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs í uppbyggingu efnahagslífsins styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 7 um sjálfbæra orku, markmið 8 um góða atvinnu og hagvöxt og markmið 9 um nýsköpun og uppbyggingu.

Rekstur ársins, vaxtaberandi eignir í lok árs, skipting lánasafns

Vaxtaberandi eignir sviðsins námu í árslok um 317 milljörðum króna. Útlán til viðskiptavina voru um 310 milljarðar króna eða sem nemur um 38% af heildarútlánum Arion banka til viðskiptavina og 79% af útlánum til fyrirtækja.

Skipting lánasafns fyrirtækjasviðs eftir atvinnugreinum 31.12.2020
%

Lánasafn fyrirtækjasviðs endurspeglar helstu greinar atvinnulífsins. Stærstu atvinnugreinar í lánasafninu eru fasteignir og tengdur rekstur, 33%, og sjávarútvegur, 25%. Þar á eftir eru verslun og þjónusta og fjármála- og tryggingastarfsemi með 11%. Iðnaður, 8%, fjarskipta- og upplýsingatækni með 6% og aðrar atvinnugreinar með 5% hlutdeild.