Virðing fyrir umhverfinu

Umhverfis- og loftslagsmál eru ofarlega á baugi hjá okkur í Arion banka. Við viljum tryggja heildstætt yfirlit yfir þau umhverfisáhrif sem hljótast af daglegri starfsemi okkar og lágmarka jafnframt neikvæð áhrif. Við gerum okkur grein fyrir að mestu áhrifin sem bankar geta haft í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál eru í gegnum lánveitingar og fjárfestingar og við tökum þá ábyrgð alvarlega.

Vel hefur gengið að draga úr kolefnisspori í eigin starfsemi bankans á síðastliðnum árum og við höldum áfram á þeirri braut. Á fyrstu árunum eftir að Arion banki gerðist aðili að Loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar árið 2015 var fókusinn okkar að mestu inn á við, það er að segja á að auka vitund og þekkingu starfsfólks á umhverfis- og loftslagsmálum. Það var meðal annars gert með átaki í að draga úr matarsóun og auka flokkun úrgangs, með fréttum og hvatningu á innraneti bankans og fyrirlestrum um málefnið. Við höfum gert grein fyrir árangri okkar í að draga úr losun árlega frá árinu 2016.

Ófjárhagslegar upplýsingar

Við erum stolt af grænu vegferðinni okkar og nú skila áherslur okkar á umhverfis- og loftslagsmál sér í auknum mæli í þjónustu- og vöruframboði bankans. Stýring fjármuna í átt að grænni uppbyggingu og hringrásarhagkerfi er afar þýðingarmikil í baráttunni gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum og því ætlum við að feta þá braut.

 

Græn framtíð með grænum vörum

Nýjar grænar vörur hafa litið dagsins ljós og í smíðum er heildstæður grænn fjármögnunarrammi fyrir Arion banka sem verður notaður sem grunnur að enn fleiri nýjum grænum vörum, samskiptum við viðskiptavini um umhverfis- og loftslagsmál og grænni skuldabréfaútgáfu.

Græn innlán – Grænn vöxtur

Í júní 2020 kynnti Arion banki til leiks, fyrstur íslenskra banka, grænan innlánsreikning sem við köllum Grænan vöxt. Grænn vöxtur er sparnaðarreikningur sem er hugsaður fyrir einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki sem vilja leggja sitt af mörkum til umhverfisvænni framtíðar. Reikningurinn er óverðtryggður, óbundinn og því laus til úttektar hvenær sem er. Eitt meginhlutverk banka er að miðla fjármagni frá þeim sem eiga sparnað til þeirra sem þurfa lán og gegna innlán þar mikilvægu hlutverki. Fjármunum sem safnast inn á Grænan vöxt er ráðstafað til vistvænna verkefna í samræmi við umgjörð um græn innlán Arion banka.

Fyrst um sinn voru innlánin nýtt til að fjármagna vistvæn bílalán bankans, þ.e. til að fjármagna kaup viðskiptavina á bílum sem nýta umhverfisvæna orkugjafa og uppfylla ákveðin skilyrði um útblástur. Vegna mikilla vinsælda reikningsins var mögulegt að útvíkka innlánarammann í lok árs og fjármagna fleiri græna eignaflokka en þá höfðu viðskiptavinir bankans lagt samtals rúma fimm milljarða inn á Grænan vöxt. Við bættust verkefni sem snúa að hringrásarhagkerfinu, mengunarvörnum og betri stýringu úrgangs.

CIRCULAR Solutions hefur tekið út umgjörð bankans um græn innlán – sjá álit CIRCULAR. Fyrirtækið gegnir hlutverki óháðs aðila og mun árlega gera úttekt á því hversu vel þau verkefni sem fjármögnuð hafa verið uppfylla skilyrði umgjarðarinnar. Einnig metur CIRCULAR umhverfisáhrif Græns vaxtar.

Með því að leggja sparnaðinn inn á Grænan vöxt styðja viðskiptavinir og Arion banki sameiginlega við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun númer sjö, níu, ellefu, tólf og þrettán.

Stofna reikning fyrir Grænan vöxt

Áhrifagreining fyrir Grænan vöxt

Það veitir innblástur og hvatningu til að gera stöðugt betur að sjá hversu jákvæð áhrif það hefur á umhverfið að lána til grænna verkefna. Með grænum innlánum Arion banka, Grænum vexti, leggja viðskiptavinir svo sannarlega sitt af mörkum til framtíðar.

Heildarinnstæða Græns vaxtar var kr. 5.111.603.279 þann 31.12.2020.

Allar innstæður voru notaðar í fjármögnun verkefna sem skilgreind eru í umgjörð bankans um græn innlán. Áætluð losun gróðurhúsalofttegunda sem komið var í veg fyrir með fjármögnun þessara verkefna er rúm 22 þúsund tonn CO2í árið 2020. Það samsvarar árlegri losun um 10 þúsund bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Saman látum við góða hluti gerast.

Fjármögnuð verkefni með grænum innlánum

Upphæðir

Áætlaður samdráttur GHL og/eða losun GHL sem komið er í veg fyrir á ári (tCO2í). Heildarfjármögnun verkefna

Þar af áætlaður samdráttur GHL og/eða losun GHL sem komið er í veg fyrir á ári (tCO2í) vegna lána sem eru fjármögnuð með Grænum vexti

Mengunarvarnir og betri stýring úrgangs

3.201.603.279

-43.246

-21.705

Orkuskipti í samgöngum

1.910.000.000

-967

-546

Samtals

5.111.603.279

-44.213

-22.251

Verkefni fjármögnuð með Grænum vexti

100%

Hlutfall innstæðna sem voru nýttar í græn verkefni

Gott fyrir
umhverfið

10.000

Áætlaður samdráttur sem samsvarar árlegri losun um 10 þúsund bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti

Minni losun gróðurhúsalofttegunda

-22.251

tCO2í
Áætlaður samdráttur GHL og/eða losun GHL sem komið er í veg fyrir á ári vegna grænnar fjármögnunar

Grænustu
bílarnir

772

Lán til kaupa á grænum bílum sem uppfylla ströng viðmið um útblástur samkvæmt grænni umgjörð bankans

Hlutfall verkefna eftir tegund flokka
%
Hlutfall grænna útlána eftir aldri
%
Aðferðafræði við útreikninga

Vegna mengunarvarna og betri stýringar úrgangs voru áhrifin metin með því að skilgreina grunnviðmið fyrir hvern úrgangsflokk út frá urðun og/eða auknum ágangi á náttúrlegar auðlindir í stað þess að nýta endurunninn úrgang.

Vegna orkuskipta í samgöngum voru áhrifin metin með því að reikna út losun gróðurhúsalofttegunda miðað við sambærilega bíla að stærð og árgerð sem nota jarðefnaeldsneyti. Losunarstuðlar bílanna komu úr ökutækjaskrá.

Staðfesting CIRCULAR á áhrifagreiningu Græns vaxtar

Græn bílalán – engin lántökugjöld

Viðskiptavinir greiða engin lántökugjöld við fjármögnun bíla sem ganga eingöngu fyrir rafmagni eða öðrum 100% endurnýjanlegum orkugjöfum. 50% afsláttur er af lántökugjöldum við fjármögnun annarra vistvænna bíla sem nota að hluta til endurnýjanlega orkugjafa og að hluta til jarðefnaeldsneyti og eru með minni útblástur en 99 g/km í vegið CO2 gildi.

Græn íbúðalán – umhverfisvottað húsnæði

Sú nýjung var kynnt í október 2020 að viðskiptavinir Arion banka sem festa kaup á umhverfisvottuðu húsnæði fá 100% afslátt af lántökugjaldi. Um er að ræða húsnæði sem hefur fengið eftirtaldar vottanir: Svansvottun, BREEAM - Very Good og LEED Gold. Um var að ræða nýjung á íslenskum fjármálamarkaði en afar lítið er um að íbúðarhúsnæði sé vottað hér á landi. Markmiðið með grænu húsnæðislánunum er að hvetja til frekar uppbyggingar á umhverfisvænu og vottuðu íbúðarhúsnæði.

Eignastýring fagfjárfesta

Eignastýring fagfjárfesta innleiddi árið 2018 verklag ábyrgra fjárfestinga í starfshætti sína sem felur í sér að við eignastýringu er horft til þriggja grunnþátta sjálfbærni; umhverfis, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS). Síðastliðin ár hefur eignastýring fagfjárfesta unnið að greiningu á ófjárhagslegum upplýsingum á innlendum skráðum félögum á Aðallista Kauphallarinnar með góðum árangri. Sjá nánari upplýsingar hér.

Áhersla á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagið

Í september 2019 gerðist Arion banki aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi, Principles for Responsible banking (PRB), sem mótaðar voru af UNEP FI og 30 alþjóðlegum bönkum. Með reglunum er lögð áhersla á að tengja starfsemi banka við mikilvæg alþjóðleg markmið og skuldbindingar á sviði sjálfbærni, eins og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamkomulagið. Arion banki var í hópi þeirra fyrstu til að lýsa yfir stuðningi við meginreglurnar og var þar í hópi um 130 banka frá 49 löndum.

Til að aðlaga stefnu okkar að meginreglum PRB og markmiðum Parísarsamkomulagsins samþykkti stjórn bankans í lok árs 2019 nýja metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu og markmið sem er ætlað að styðja enn frekar við þau áform Arion banka að vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum. Jafnframt samþykkti framkvæmdastjórn bankans sex heimsmarkmið í ársbyrjun 2020 sem bankinn mun leggja áherslu á. Nánari upplýsingar um framgang innleiðingarinnar má finna í PRB framvinduskýrslu.

Umhverfis- og loftslagsstefna Arion banka

Við viljum vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar og losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein stærsta áskorun samtímans og við viljum leggja okkar af mörkum svo Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og alþjóðlegum umhverfis- og loftslagssáttmálum, m.a. um að halda hlýnun jarðar vel innan 2 gráða, helst innan 1,5 gráða.

Bankar gegna lykilhlutverki í því að fjármagna framfarir og Arion banki vill vera hreyfiafl til góðra verka. Við beinum sjónum okkar að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu og munum meta lánasafn bankans út frá grænum viðmiðum og setja okkur metnaðarfull markmið í þeim efnum.

Við gerum þá kröfu til okkar birgja að þeir taki mið af umhverfis- og loftslagsáhrifum í sinni starfsemi. Þegar við veljum á milli sambærilegra tilboða frá birgjum munu loftslags- og umhverfissjónarmið ráða ákvörðun okkar. Markmið bankans er að draga úr losun kolefnis og annarra gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af eigin starfsemi um a.m.k. 40% fyrir árið 2030 og kolefnisjafna alla þá losun.

Við setjum okkur markmið og birtum árangur hvað varðar þá þætti sem við höfum mest áhrif á, svo sem innkaup, eigin rekstur og þjónustu við viðskiptavini. Með markvissum hætti munum við auka þekkingu starfsfólks á umhverfismálum og styðja við vegferð viðskiptavina okkar í átt að grænni framtíð í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Markmið samþykkt af stjórn í lok árs 2019 og staða markmiða 31.12.2020

Á árinu 2020 munum við meta lánasafn bankans út frá grænum viðmiðum og setja okkur markmið í þeim efnum.

Staða: Vinnan við að meta lánasafn bankans gekk vel á árinu 2020 og sýndi niðurstaða greiningar að á bilinu 20-30% lána fyrirtækjasviðs geti flokkast sem græn. Stefnt er að því að ljúka vinnu við grænan fjármögnunarramma á árinu 2021. Þegar sá rammi liggur fyrir getum við sett okkur mælanleg markmið um hvernig við aukum hlut grænna lánveitinga.

Á árinu 2020 munum við setja okkur stefnu hvað varðar lánveitingar til einstakra atvinnugreina með tilliti til loftslags- og umhverfissjónarmiða.

Staða: Þegar grænn fjármögnunarrammi verður tilbúinn munum við vinna að því að setja stefnu um einstakar atvinnugreinar. Útlánastefna bankans var uppfærð árið 2020 og aukin áhersla lögð á sjálfbærni.

Frá árinu 2020 munum við spyrja okkar helstu birgja um umhverfis- og loftslagsáhrif af þeirra starfsemi.

Staða: Í ársbyrjun 2020 var nýtt birgjamat innleitt og allir stærstu birgjar bankans sem gerðir hafa verið útvistunarsamningar við fóru í gegnum matið. Þá var byrjað að spyrja nýja birgja um frammistöðu þeirra varðandi jafnréttismál, vinnurétt og umhverfis- og loftslagsmál. Í lok árs 2020 voru samþykktar siðareglur fyrir birgja sem verða innleiddar á árinu 2021.

Fyrir árslok 2022 ætlum við að meta kolefnisspor lánasafnsins og í framhaldi af þeirri vinnu setja okkur markmið um hvernig við getum dregið úr sporinu til ársins 2030 í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins.

Staða: Ekki hafið.

Frá og með árinu 2023 mun bankinn ekki kaupa inn bíla nema þeir noti 100% endurnýjanlega orkugjafa.

Staða: Við höfum þegar rafvætt hluta bílaflota okkar en enn sem komið er nota ekki allir bílar bankans 100% endurnýjanlega orkugjafa.

Við ætlum að koma hlutfalli flokkaðs úrgangs í rekstri bankans í 90% fyrir árið 2023.

Staða: Vegna mistaka við flokkun og ferli úrgangs vegna framkvæmda í höfuðstöðvum á árinu 2020 fór flokkunarhlutfall bankans niður um tæp 33% á árinu. Unnið verður í því að bæta ferlið á árinu 2021 og við stefnum áfram á 90% hlutfall fyrir árið 2023.

Markmið bankans er að draga úr losun kolefnis og annarra gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af eigin starfsemi um a.m.k. 40% fyrir árið 2030 og kolefnisjafna alla þá losun.

Staða: Samdráttur í losun bankans í eigin starfsemi, það er vegna húsnæðis og bíla, er 34,7% frá árinu 2015 sem er viðmiðunarár bankans. Bankinn hefur gert samning við Kolvið um kolefnisbindingu á móti losun í starfsemi bankans og annarrar losunar, svo sem flugferða, leigubílaferða, sorps og samgangna starfsfólks til og frá vinnu.

Helstu þættir í umhverfisuppgjöri Arion banka fyrir árið 2020

Hér má sjá helstu niðurstöður í umhverfisuppgjöri ársins 2020. Ítarlegar niðurstöður uppgjörsins má finna í töflu fyrir ófjárhagslegar upplýsingar.

Ófjárhagslegar upplýsingar

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í eigin rekstri, þ.e. vegna bifreiða og húsnæðis, hefur eins og áður segir dregist saman um 34,7% frá árinu 2015 (umfang 1 og 2). Þar af hefur heildarlosun vegna bifreiða dregist saman um 55,4,% og vegna húsnæðis um 15,8%. Helsta tækifærið í rekstri bankans til að draga enn frekar úr losun er að hætta alfarið kaupum á eldsneyti fyrir bíla. Bankinn mun ekki kaupa inn bíla nema þeir noti 100% endurnýjanlega orkugjafa frá og með árinu 2023 og er það liður í að draga úr losun í eigin rekstri um a.m.k. 40% fyrir árið 2030.

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna bifreiða (umfang 1)
tCO2í
Losun gróðurhúsalofttegunda vegna húsnæðis* (umfang 2)
tCO2í
* Upplýsingar um losun í umfangi 2 eru birtar með fyrirvara um að álestra gæti vantað á mæla vegna rafmagns og hitaveituvatns í lok árs 2020. Gögn uppfærast með sjálfvirkum hætti í kerfi Klappa og verða birt með leiðréttingum í næsta umhverfisuppgjöri. Leiðréttingar hafa verið gerðar fyrir árið 2019 og aftur í tímann þegar við á.
Heildarlosun vegna bifreiða og húsnæðis með markmiðum til ársins 2030 (án mótvægisaðgerða)
tCO2í

Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030 og á hverju ári munum við fara í mótvægisaðgerðir til að kolefnisjafna reksturinn. Við erum í samstarfi við Kolvið sem gróðursetur um 4.700 tré til að vega upp á móti losun ársins 2020 vegna eigin reksturs, þ.e. húsnæðis og bíla, en einnig vegna flugferða og leigubílaferða, sorps og samgangna starfsfólks til og frá vinnu. Auk þess hefur Arion banki styrkt Skógræktarfélag Íslands myndarlega til fjölda ára.

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna aðkeyptrar þjónustu (umfang 3 án mótvægisaðgerða)
tCO2í

Með aukinni gagnaöflun höfum við betri upplýsingar um aðkeypta þjónustu (umfang 3). Á árunum 2015-2018 bættist m.a. millilandaflug, flugferðir verktaka, flug með erlendum flugfélögum, leigubílaferðir og gagnaeyðing við umhverfisuppgjör bankans sem skýrir að hluta til af hverju skráð heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna aðkeyptrar þjónustu hækkaði á tímabilinu.

Skráð heildarlosun vegna umfangs 3 hefur aukist á milli áranna 2019 og 2020 þrátt fyrir mikinn samdrátt í flugi og öðrum þáttum uppgjörsins. Við þennan lið bættust í ár samgöngur starfsfólks til og frá vinnu eða 198 tCO2e. Að frádregnum samgöngum starfsfólks þá er samdráttur í umfangi 3 á milli áranna 2019-2020 52,8%.

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða (hluti af umfangi 3)
tCO2í

Flugferðum fækkaði verulega á milli áranna 2019 og 2020, aðallega vegna heimsfaraldursins COVID-19. 

Flokkað sorp
%

Vegna mistaka við flokkun og ferli úrgangs vegna framkvæmda í höfuðstöðvum á árinu 2020 fór flokkunarhlutfall bankans niður um tæp 33% á árinu. Unnið verður í því að bæta ferlið á árinu 2021 og við stefnum áfram á 90% flokkunarhlutfall fyrir árið 2023. 

Samgöngukönnun meðal starfsfólks

Í lok árs var send út könnun á allt starfsfólk og spurt um ferðavenjur til og frá vinnu. Niðurstöðurnar sýna að 79% starfsfólksins nota fyrst og fremst einkabílinn, 15% hjóla eða ganga til vinnu og 6% nota almenningssamgöngur. Meirihlutinn notar jarðefnaeldsneyti á bílana sína, eða 77%, en 23% nota umhverfisvænni orkugjafa.

Ferðamáti starfsfólks
%
Bílar starfsfólks - aflgjafar
%
Losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna starfsfólks eftir orkugjöfum
%

Lykiltölur

55,4% 

samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda vegna bifreiða í rekstri

15,8%

 samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda vegna húsnæðis

4.700

tré gróðursett
vegna losunar

21%

starfsfólks nýtti
sér samgöngustyrk

198

tCO2tí 
heildarlosun vegna ferðamáta starfsfólks

284

kgCO2í 
meðallosun á hvern starfsmann vegna samgangna

Ítarlegt umhverfisuppgjör Arion banka fyrir árið 2020 er eins og fyrr segir að finna í samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum. Gögn og upplýsingar í uppgjörinu gilda fyrir árið 2020 og tengjast meginstarfsemi Arion banka, dótturfélög standa utan uppgjörsins. Gögn frá árunum 2015-2019 eru sett fram til samanburðar en árið 2015 er viðmiðunarár bankans þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi bankans til ársins 2030.

Í umhverfisuppgjöri bankans hefur náðst góður árangur í að safna saman gögnum með rafrænum gagnastraumum í gegnum kerfi Klappa grænna lausna. Þó eru útistandandi upplýsingar um starfsstöðvar þar sem bankinn deilir húsnæði með öðrum, svo sem í verslunarkjörnum, þegar kemur að sorphirðu, hita og rafmagni.

Á sama tíma og bætt var við fleiri gagnastraumum fyrir árið 2020 var ákveðið að endurreikna gögn fyrir tímabilið 2015 til og með 2019 samkvæmt nýjustu upplýsingum. Af þessu hlýst ákveðið misræmi ef uppgjör þetta er borið saman við fyrri umhverfisuppgjör.

Upplýsingar um útblástur vegna samgangna starfsfólks byggja á niðurstöðum könnunar sem var unnin af CIRCULAR Solutions.

Dæmi um aðgerðir í rekstri til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og neikvæðum umhverfisáhrifum:

  • Fermetrum undir starfsemi bankans hefur verið fækkað verulega í takt við aukna áherslu á stafræna þjónustu.
  • Við höfum þegar rafvætt hluta bílaflota okkar.
  • Við spyrjum birgjana okkar um þeirra áherslur og frammistöðu í umhverfis- og loftslagsmálum. Þegar um er að ræða tvö sambærileg tilboð ræður frammistaða birgja varðandi umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti því hversu viljug við erum að ganga til viðskipta.
  • Samgöngustyrkir hafa verið veittir starfsfólki frá árinu 2012. Með samgöngustefnu sinni leggur Arion banki sitt af mörkum til að bæta heilsu starfsfólks og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá bifreiðum. Markmið samgöngustefnu bankans er að auka nýtingu starfsfólks á vistvænum og hagkvæmum ferðamáta. Með vistvænum samgöngum er átt við allan ferðamáta til og frá vinnu annan en einkabílinn, s.s. að ganga, hjóla, fá far með öðrum eða ferðast með almenningssamgöngum. Á árinu 2020 nýttu tæplega 21% starfsfólks sér samgöngustyrk bankans að minnsta kosti hluta úr ári.
  • Við eigum í öflugu samstarfi, bæði innan- og utanlands, á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Nánari upplýsingar um UFS reitun Arion banka, skuldbindingar, vottanir og þátttöku í samstarfi á sviði sjálfbærni má nálgast hér.