Upplýsingatæknisvið

Arion banki hefur einsett sér að vera fremsti stafræni bankinn á Íslandi – veita þægilegustu bankaþjónustuna – með því að auka aðgengi viðskiptavina að stafrænum vörum og þjónustu bankans. Upplýsingatækni gegnir lykilhlutverki í að hrinda þessari stefnu í framkvæmd. Nýr framkvæmdastjóri sviðsins er Styrmir Sigurjónsson og tók hann til starfa í mars 2020.

Á upplýsingatæknisviði er lögð rík áhersla á samstarf við önnur svið bankans í þeim tilgangi að þróa vörur og þjónustu bankans. Á árinu 2020 hafði COVID-19 töluverð áhrif á verkefni sviðsins þar sem aðgerðir stjórnvalda og bankans kröfðust snöggra viðbragða og hraðrar þróunar. Þrátt fyrir heimsfaraldur hefur stafræn vegferð bankans haldið áfram með nýjungum á íslenskum bankamarkaði og innleiðingu nýs innlána- og greiðslukerfis, SOPRA, sem er á lokametrunum. Meginviðfangsefni sviðsins á árinu 2021 eru að klára innleiðingu SOPRA á fyrri hluta ársins og áframhaldandi þróun stafrænna lausna viðskiptavinum okkar til hagsbóta. Þá mun áhersla á skýjavegferð, uppbyggingu og einföldun innviða og aukið aðgengi samstarfsaðila að kerfum og þjónustu (e. Open banking) verða í fyrirrúmi.

Við vinnum hörðum höndum að því að sjálfvirknivæða og einfalda allt verklag þannig að það verði sem fæst handtök í öllum ferlum, bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk bankans. Við nýtum gögn og greiningar til að taka góðar ákvarðanir og vinnum markvisst að því að hanna snjallar og skapandi lausnir.

Sviðið samanstendur af sex deildum: Hugbúnaðarþróun, tæknilegri vörustjórnun, tæknistjórn, rekstrarþróun, gagnainnviðum og verkefnastofu.

Hugbúnaðarþróun hannar, þróar, samþættir og viðheldur lausnum með stafræna stefnu bankans að leiðarljósi ásamt því að þróa sterkar grunnstoðir sem framtíðarlausnir bankans byggja á.

Tæknileg vörustjórnun sinnir vörustjórnun kerfa og lausna í takt við áherslur vöruþróunar hverju sinni ásamt því að tæknilega greina og skipuleggja þverfagleg vöruþróunarverkefni í náinni samvinnu við aðrar deildir bankans.

Tæknistjórn ber ábyrgð á öryggis- og eftirfylgdarmálum upplýsingakerfa bankans, heildarhögun (lausna, gagna og innviða) ásamt breytingarstýringu og ferlum. Deildin ber einnig ábyrgð á innkaupum og samningamálum.

Rekstrarþróun hannar, þróar og stýrir innviðalausnum er við koma rekstri upplýsingakerfa bankans. Einnig stuðlar deildin að aukinni sjálfvirkni og skilvirkni í þróun lausna og innviðauppbyggingu. Deildin ber ábyrgð á daglegum rekstri, uppbyggingu grunnstoða og innviða og skýjavegferð bankans.

Gagnainnviðir mótar gagnastefnu bankans í samstarfi við helstu hagsmunaaðila, leiðir tæknilega útfærslu hennar og tryggir skilvirkan aðgang að gögnum bankans.

Verkefnastofa sinnir verkefnastýringu þverfaglegra verkefna.