Skapandi efnahagslíf
og nýsköpun

Eitt af helstu áhersluatriðum Arion banka er að stuðla að blómlegu og skapandi efnahagslífi hér á landi. Á undanförnum árum höfum við komið að fjölda spennandi fjárfestingarverkefna með viðskiptavinum okkar, m.a. með það að markmiði að efla atvinnulíf. Við leggjum okkur fram um að vera til staðar fyrir frumkvöðla og hvetjum til nýsköpunar og grósku með stuðningi og samstarfi.

Fjármálakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins. Traust fjármálakerfi er mikilvægt til að ávaxta fé og fjármagna þau verkefni sem samfélagið vill ráðast í. Það er því nauðsynleg forsenda hagvaxtar og skiptir samfélagið allt máli.

Hlutverk okkar er að miðla fé frá sparifjáreigendum, fagfjárfestum og öðrum sem leita eftir ávöxtun til heimila, athafnafólks og fyrirtækja sem þurfa á fjármögnun að halda til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Markmið okkar er að sinna hlutverki okkar vel og á ábyrgan og hagkvæman hátt. Við leggjum okkur fram um að vera góður samstarfsaðili þegar kemur að fjárfestingum og fjármögnun, hvort sem um er að ræða fjölskyldubifreiðina, heimilið eða stærri fjárfestingar einstaklinga, fyrirtækja og opinberra aðila. Þannig leggjum við grunn að vexti og árangri viðskiptavina og stuðlum að aukinni fjárfestingu, framkvæmdum, hagvexti og skapandi efnahagslífi.

Auk þess að styðja vel við íslenskt efnahagslíf með framangreindum hætti teljum við að hvatning til nýsköpunar hafi jákvæð áhrif á samfélagið og því leggjum við okkur fram um að styðja við frumkvöðla, meðal annars með því því að veita frumkvöðlum aðgengi að ráðgjöf og fjármagni og styðja fyrirtæki í rekstri til frekari vöruþróunar.

Stuðningur Arion banka við nýsköpun og virk þátttaka í uppbyggingu efnahagslífsins, auk ábyrgrar starfsemi, styður við tvö af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Annars vegar það áttunda sem snýr að góðri atvinnu og hagvexti, og hins vegar það níunda sem snýr að nýsköpun og uppbyggingu.

Nýsköpun

Á undanförnum árum hefur bankinn fjárfest beint í fjölda nýsköpunarfyrirtækja og stuðningi þeim tengdum. Þá hefur Arion banki tekið þátt í fjölda viðburða sem tengjast nýsköpun og var á árinu 2020 einn samstarfsaðila Nýsköpunarviku sem meðal annars stóð fyrir lausnarmóti (e. hackathon). 

Arion banki setti fram áskorun til þátttakenda í lausnarmótinu sem snéri að því að nýta færsluupplýsingar til að reikna út kolefnisspor viðskiptavina og hjálpa þeim að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Sex teymi skiluðu inn tillögu að lausn sem allar voru athyglisverðar og vel útfærðar. Teymi skipað Gamithra Marga og Eyþóri Mána bar sigur úr býtum með lausnina Grænn sjóður.

Það var samdóma álit dómnefndar að Grænn sjóður væri skapandi lausn með skýran ávinning fyrir alla hlutaðeigandi, þ.e. fjármálastofnanir, viðskiptavini og síðast en ekki síst umhverfið. Kynning teymisins á sigurverkefninu er aðgengileg hér.

Menning sem stuðlar að nýsköpun

Umhverfi fjármálafyrirtækja er sífellt að breytast. Áhersla á nýsköpun er því nauðsynleg og er hluti af allri starfsemi bankans til að mæta breytingum og til að efla samkeppnishæfni bankans til lengri tíma litið. Stöðug og markviss sjálfsskoðun á því hvort núverandi aðferðafræði varðandi vörur, þjónustu og verkferla sé best til þess fallin að stuðla að árangri er lykilþáttur í þeirri menningu sem bankinn vill stuðla að.

Mikilvægt er að nýsköpunarhugmyndir innan bankans fái skilvirka meðhöndlun á öllum stigum frá greiningu yfir í þróun og svo eftirfylgni. Bankinn vinnur nýsköpunarverkefni og fjárfestingar þeim tengdar í teymi starfsmanna þvert á bankann sem vinnur sameiginlega að ákvörðunartöku, þróun og innleiðingu.

Stuðningur við frumkvöðla

Arion banki hefur stutt á margvíslegan hátt við frumkvöðla, bæði í gegnum viðskiptahraðlana Startup Reykjavík og Startup Energy og með beinum fjárfestingum í frumkvöðlafyrirtækjum. Þannig hefur bankinn lagt sitt af mörkum til að skapa umhverfi þar sem frumkvöðlar njóta ráðgjafar og leiðsagnar reynslumikilla aðila í þeim tilgangi að gera hugmyndir sínar að veruleika og skapa þannig ný viðskiptatækifæri.

Sem dæmi um árangursríkt samstarf á því sviði þá vann Arion banki á árinu með frumkvöðlafyrirtækinu Controlant á ýmsum sviðum. Controlant er upplýsingatæknifyrirtæki sem þróar hugbúnaðarlausnir með sérstaka áherslu á lyfjaiðnaðinn. Controlant er í lykilhlutverki í dreifingu á bóluefni gegn COVID-19, en félagið hefur þróað rauntímalausnir til að fylgjast með hitastigi og staðsetningu á viðkvæmum vörum í flutningi og geymslu.

Sem dæmi um árangursríkt samstarf á því sviði þá vann Arion banki á árinu með frumkvöðlafyrirtækinu Controlant á ýmsum sviðum. Controlant er upplýsingatæknifyrirtæki sem þróar hugbúnaðarlausnir með sérstaka áherslu á lyfjaiðnaðinn. Controlant er í lykilhlutverki í dreifingu á bóluefni gegn COVID-19, en félagið hefur þróað rauntímalausnir til að fylgjast með hitastigi og staðsetningu á viðkvæmum vörum í flutningi og geymslu.

Í upphafi ársins 2020 vann Arion að útgáfu breytanlegs skuldabréfs fyrir 1,3 ma.kr. sem fjármagnaði starfsemi félagsins á góðum kjörum. Á seinni hluta ársins fór Controlant svo í frumútgáfu hlutafjár með það að markmiði að safna 0,5-1 ma.kr. til þess að fjármagna gríðarlegan vöxt félagsins, en í kjölfar vel heppnaðs söluferlis með margfaldri umframeftirspurn nam útgefið hlutafé að lokum 2,3 ma.kr.

Auk þess að aðstoða félagið beint tók Arion einnig að sér sölu hlutabréfa næststærsta eiganda félagsins, Frumtaks. Arion sá um sölu á 11,33% hlut í félaginu. Vænt söluvirði hefur verið gefið upp í kringum 2 ma.kr.

Stefnumarkandi samstarfsaðilar

 

Betri þjónusta við aðila á leigumarkaði í gegnum Leiguskjól

Leiguskjól er gott dæmi um samstarfsaðila sem bankinn hefur valið að starfa með og styður við þjónustu bankans. Leiguskjól tók þátt í Startup Reykjavík hraðlinum árið 2018. Þar hófst fjárfesting bankans í félaginu þegar bankinn eignaðist 6% hlut. Á árinu 2019 gerði bankinn samstarfssamning við félagið ásamt því að auka við fjárfestingu sína í félaginu og á bankinn nú 51% hlut. Fjárfestingin og samstarfssamningurinn við Leiguskjól eru liður í áherslu bankans á aukið samstarf við fjártæknifélög þar sem markmiðið er meðal annars að nýta grunnstoðir bankans og tengja við þann fókus og kraft sem felst í frumkvöðlastarfi.

Félaginu gekk vel á árinu 2020 og er dæmi um samstarf fjártæknifyrirtækis og banka sem nýtir vel styrkleika beggja aðila. Arion banki sér tækifæri á frekara samstarfi við Leiguskjól á komandi misserum og mun leitast við að nýta þá reynslu sem fengist hefur úr þessu verkefni í frekara samstarfi við fjártæknifélög.

 

Eyrir Sprotar – fjárfestingar í sprotafyrirtækjum

Arion banki er í samstarfi við Eyri Invest um rekstur sprota- og vaxtarsjóðsins Eyrir Sprotar slhf. Eyrir Invest og Arion banki eru stærstu hluthafar sjóðsins. Sjóðurinn er 6 ma. kr. að stærð og hefur fjárfest í 11 fyrirtækjum.

 

Efling nýsköpunar á fjármálamarkaði með Fjártækniklasanum

Arion banki er aðili að Fjártækniklasanum sem er liður í að efla samstarf við fjártæknifélög. Tilgangur Fjártækniklasans er að efla nýsköpun í fjármálum. Að auki starfrækir Fjártækniklasinn nýsköpunarsetur og stendur fyrir ýmiss konar viðburðum.

 

Stuðningur við unga frumkvöðla

Arion banki hefur verið einn af aðalbakhjörlum Ungra frumkvöðla, Junior Achievement á Íslandi. Samtökin hafa það hlutverk að búa ungt fólk undir framtíðina og auka færni þess til atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar með því að stuðla að aukinni nýsköpunar-, frumkvöðla- og viðskiptamenntun í framhaldsskólum. Samtökin stóðu fyrir samkeppni meðal framhaldsskólanema á árinu 2020 sem gefur nemendum færi á að kynnast frumkvöðlastarfinu af eigin raun í námi sínu.

Alls voru 113 fyrirtæki stofnuð í keppninni og var það Dyngja, fyrirtæki nemenda í Verslunarskóla Íslands, sem stóð uppi sem sigurvegari og tók þátt fyrir hönd Íslands í Evrópukeppni ungra frumkvöðla sem var haldin með rafrænum hætti þetta árið. Dyngja er fjárfestingaapp sem leyfir notendum sínum að fjárfesta með gervipening á íslenska hlutabréfamarkaðnum.