Ábyrg bankastarfsemi

Við hjá Arion banka þjónum heimilum, fyrirtækjum og fjárfestum og leggjum sérstaka áhersla á að uppfylla þarfir þeirra viðskiptavina sem þurfa fjölbreytta fjármálaþjónustu. Arion banki nýtur sterkrar stöðu á sínum mörkuðum sem byggir á skilvirkni og fjölbreyttu vöru- og þjónustuframboði. Kjarninn í stefnu bankans er að standa öðrum framar með snjöllum og traustum fjármálalausnum sem skapa viðskiptavinum, hluthöfum og samfélaginu öllu verðmæti til framtíðar. Yfirskrift stefnu bankans um samfélagsábyrgð er saman látum við góða hluti gerast og felur meðal annars í sér að bankinn vilji vera öðrum fyrirmynd um ábyrga og arðbæra viðskiptahætti sem taka mið af umhverfi og samfélagi.

Gildi Arion banka köllum við hornsteina og eiga þeir að vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku og í öllu sem starfsfólk bankans gerir. Hornsteinarnir koma inn á hlutverk, hugarfar og hegðun en þeir eru: gerum gagn, látum verkin tala, komum hreint fram og finnum lausnir. Siðareglur bankans eru síðan viðmið fyrir starfsfólk til að stuðla að ábyrgri ákvarðanatöku og eru samþykktar af stjórn. 

Stefna Arion banka um samfélagsábyrgð

Við viljum vera öðrum fyrirmynd um ábyrga og arðbæra viðskiptahætti sem taka mið af umhverfi, efnahagslífi og því samfélagi sem við störfum í. Við setjum okkur í spor viðskiptavina og leitumst stöðugt við að gera betur í dag en í gær.

Við störfum á eftirsóknarverðum vinnustað þar sem þekking skapar verðmæti til framtíðar, viðskiptavinum, fjárfestum og samfélaginu öllu til góða.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá helstu áhersluatriði Arion banka varðandi samfélagsábyrgð. 

Skýrslugjöf um samfélagsábyrgð

Hjá Arion banka leggjum við áherslu á að samfélagsábyrgð sé hluti af daglegri starfsemi bankans, ákvarðanatöku og ferlum. Í þriðja sinn eru upplýsingar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni unnar samkvæmt Global Reporting Initiative staðlinum, GRI Core, sem hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að miðla upplýsingum tengdum samfélagsábyrgð á gagnsæjan og samanburðarhæfan hátt. Við miðlun upplýsinga um ófjárhagslega þætti í starfseminni er einnig notast við viðmið Nasdaq á Norðurlöndunum og 10 grundvallarviðmið Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Einnig er horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í fyrsta sinn gerum við nú grein fyrir framvindu innleiðingar á meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi, Principles for Responsible Banking, en Arion banki varð aðili að meginreglunum í september 2019.

Deloitte hefur veitt álit með takmarkaðri vissu á ófjárhagslegri upplýsingagjöf Arion banka 2020 sem er sett fram samkvæmt Global Reporting Initiative (GRI) og UFS leiðbeiningum Nasdaq.

Álit Deloitte með takmarkaðri vissu

Ábyrg bankastarfsemi á tímum heimsfaraldurs

COVID-19 hafði mikil áhrif á starfsemi og rekstur bankans í heild sem þurfti, líkt og aðrir, að aðlagast nýjum aðstæðum hratt með tilkomu sóttvarnaraðgerða og fjölda- og nálægðartakmarkana. Bankinn hefur lagt allt kapp á að finna leiðir til að þjóna viðskiptavinum sínum vel en á sama tíma sýna ábyrgð í sóttvarnarmálum og finna lausnir með viðskiptavinum sínum vegna fjárhagslegra áhrifa faraldursins.

Nýtt skipulag var innleitt í útibúum og voru þau eingöngu opin fyrir fyrir fram bókaða fundi stóran hluta ársins. Heimsóknum í útibú fækkaði því verulega en á sama tíma var mikil aukning í öðrum þjónustuleiðum eins og síma- og tölvupóstþjónustu og netspjalli, sem jókst um 110% á árinu. Fjarþjónusta var þróuð enn frekar og um áramót hóf Arion banki að bjóða viðskiptavinum upp á fjarfundi í gegnum Teams þar sem þeir geta sótt ráðgjöf og þjónustu hvar og hvenær sem er. Uppbygging og þróun stafrænna þjónustuleiða undanfarin ár kom sér afar vel og varð mikil aukning í notkun þeirra á árinu. Sífellt fleiri viðskiptavinir nýta sér netbankann og appið til að stofna til eða eiga í viðskiptum.

Strax í upphafi faraldursins var lögð áhersla á að hlúa vel að starfsfólkinu, tryggja öryggi þess og vellíðan á þessum óvenjulegu tímum. Flestir færðu starfsstöðvar sínar heim og unnu stóran hluta ársins heima. Fjarfundir voru nýttir með markvissum hætti til að tryggja upplýsingaflæði og góða samvinnu. Fjarvinnan á árinu hefur styrkt samvinnu landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis með tíðari samskiptum og fjarfundum. Viðburðir og fræðsluefni fyrir starfsfólk og viðskiptavini voru að mestu á rafrænu formi þetta árið, með góðum árangri.

Strax í upphafi faraldursins var lögð áhersla á að hlúa vel að starfsfólkinu, tryggja öryggi þess og vellíðan á þessum óvenjulegu tímum. Flestir færðu starfsstöðvar sínar heim og unnu stóran hluta ársins heima. Fjarfundir voru nýttir með markvissum hætti til að tryggja upplýsingaflæði og góða samvinnu.

Arion banki lagði sig fram við að aðstoða viðskiptavini sem urðu fyrir fjárhagslegum áhrifum COVID-19. Til að bregðast við skyndilegri tekjuskerðingu lántaka var þeim boðið greiðsluhlé á íbúðalánum til allt að níu mánaða og var bankinn fyrstur til að bjóða upp á þá lausn. Umfang lána í greiðsluhléi var mest í apríl og maí og fengu um tvö þúsund einstaklingar og fimm hundruð fyrirtæki greiðsluhlé lána. Samkomulag var gert á milli ríkis og banka um veitingu stuðnings- og viðbótarlána til að brúa bilið fjárhagslega. Rúmlega 300 stuðningslán voru veitt og 86% þeirra voru afgreidd með sjálfvirkum hætti.

Arion banki lítur björtum augum fram á veginn eftir krefjandi en á sama tíma lærdómsríkt ár. Árið 2020 kenndi okkur að það er vel hægt að sinna fjarvinnu með góðum árangri heima fyrir. Sett hafa verið markmið sem stuðla að auknum afköstum og öflugri samvinnu og liðsheild.

Ábyrgar lánveitingar, innlán og fjárfestingar

Það hvernig bankar stýra fjármagni getur haft afgerandi áhrif á framgang sjálfbærrar þróunar í hverju landi fyrir sig og á heimsvísu. Þess vegna leggur Arion banki sig fram um að gera stöðugt betur í sinni starfsemi og hafa jákvæð áhrif á bæði umhverfi og samfélag.

Á árinu 2018 voru lánareglur bankans uppfærðar og inn komu ákvæði um að horft skuli til umhverfis, samfélags og stjórnarhátta við mat á lánveitingum. Í september 2019 gerðist Arion banki aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi, Principles for Responsible banking (PRB). Með reglunum sem kynntar voru við upphaf allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna er verið að tengja starfsemi banka við mikilvæg alþjóðleg markmið og skuldbindingar á sviði sjálfbærni, eins og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamkomulagið. Arion banki var í hópi þeirra fyrstu til að lýsa yfir stuðningi við meginreglurnar og var þar í hópi um 130 banka frá 49 löndum.

Í kjölfar undirritunar, í desember 2019, samþykkti stjórn bankans nýja og metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu og markmið í takt við þessar skuldbindingar. Þar kemur meðal annars fram að bankinn ætli að beina sjónum sínum að verkefnum sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu. Á árinu 2020 var unnið að því að innleiða meginreglurnar um ábyrga bankastarfsemi og markmið umhverfis- og loftslagsstefnunnar. Greining var gerð á lánasafni bankans út frá grænum viðmiðum og vinna hófst við að smíða fjármögnunarramma sem verður notaður til grundvallar grænu vöruframboði, innlánum og útlánum, og er einnig hugsaður sem grunnur að mögulegri grænni skuldabréfaútgáfu. Þá var útlánastefna bankans uppfærð á árinu 2020 og áhersla lögð á sjálfbærni.

Á árinu 2020 var unnið að því að innleiða meginreglurnar um ábyrga bankastarfsemi og markmið umhverfis- og loftslagsstefnunnar. Greining var gerð á lánasafni bankans út frá grænum viðmiðum og vinna hófst við að smíða fjármögnunarramma sem verður notaður til grundvallar grænu vöruframboði, innlánum og útlánum, og er einnig hugsaður sem grunnur að mögulegri grænni skuldabréfaútgáfu.

Eitt meginhlutverk banka er að miðla fjármagni frá þeim sem eiga sparnað til þeirra sem þurfa lán og gegna innlán þar mikilvægu hlutverki. Um mitt ár 2020 kynnti Arion banki, fyrstur íslenskra banka, grænan sparnaðarreikning sem ber heitið Grænn vöxtur. Grænn vöxtur er innlánsreikningur sem er hugsaður fyrir einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki sem vilja leggja sitt af mörkum til umhverfisvænni framtíðar. Fjármunum sem safnast inn á Grænan vöxt er ráðstafað til vistvænna verkefna í samræmi við umgjörð Arion banka um græn innlán.

Fyrst um sinn voru innistæður Græns vaxtar eingöngu notaðar til að fjármagna græn bílalán sem styðja við orkuskipti í samgöngum, en viðskiptavinir Arion banka greiða engin lántökugjöld vegna fjármögnunar bíla sem ganga eingöngu fyrir rafmagni eða öðrum 100% endurnýjanlegum orkugjöfum. Vegna vinsælda reikningsins var nauðsynlegt að útvíkka innlánarammann í lok árs en þá höfðu viðskiptavinir bankans lagt rúma 5 milljarða inn á Grænan vöxt. Við bættust verkefni sem snúa að hringrásarhagkerfinu, mengunarvörnum og betri stýringu úrgangs. Með því að leggja sparnaðinn inn á Grænan vöxt styðja viðskiptavinir bankans við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun númer sjö, níu, ellefu, tólf og þrettán.

Á haustmánuðum 2020 kynnti Arion banki, einnig fyrstur banka hér á landi, betri kjör á íbúðalánum til þeirra viðskiptavina sem kaupa umhverfisvottað húsnæði. Afar lítið er um umhverfisvottað íbúðarhúsnæði hér á landi en með þessari vöru vill bankinn hvetja til frekari þróunar í átt að grænum vottunum og styðja viðskiptavini sína, einstaklinga, verktaka og fasteignafélög, áfram á þeirri vegferð.

Eignastýring Arion banka og Stefnir, dótturfélag bankans, voru með 1.131 milljarð í stýringu í árslok 2020. Sú deild innan bankans sem sinnir eignastýringu fagfjárfesta hefur innleitt í starfshætti sína verklag ábyrgra fjárfestinga sem felur í sér að við stýringu eigna er horft til þriggja grunnþátta sjálfbærni; umhverfis, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS). Eignastýring fagfjárfesta er aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, Principles for Responsible Investment (UN PRI), og hefur frá árinu 2019 birt framvinduskýrslu. Þannig er ekki aðeins horft til fjárhagslegra þátta í fjárfestingum heldur einnig annarra þátta sem taldir eru viðeigandi við greiningu á fjárfestingum og uppbyggingu eignasafna viðskiptavina. Sjá ítarlegri umfjöllun um ábyrgar fjárfestingar á vefsíðu bankans og umfjöllun um markaði.

Allt skiptir máli - stórt og smátt

Áhættumat á UFS þáttum

Arion banki framkvæmdi áhættumat í byrjun árs 2021 á þáttum sem tengjast sjálfbærni með það að markmiði að halda utan um áhættuþætti með skipulögðum hætti. Í matinu var horft til umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS). Haldnar voru þrjár vinnustofur með sérfræðingum bankans þar sem sérhver þáttur var tekinn fyrir og áhættur metnar. Við mat á áhættum var reynt eftir fremsta megni að horfa fram hjá áhrifum COVID-19 og einblína á eðlilegt ástand.

Niðurstöður áhættumats leiddu í ljós 49 UFS tengdar áhættur sem skiptast nokkuð jafnt á milli þáttanna þriggja. Við úrvinnslu voru metnar mögulegar líkur á því að atburður tengdur áhættuþætti eigi sér stað ásamt áhrifum hans á starfsemi Arion banka. Langflestar áhætturnar eru metnar sem litlar eða miðlungs áhættur fyrir starfsemi bankans þegar búið er að taka stýringar á áhættuþáttunum inn í matið, en ein áhætta lenti á aðgerðarbili. Í kjölfarið voru skoðaðar aðgerðir til að draga úr líkum á að áhættur raungerist og lágmarka áhrif þeirra á rekstur og starfsemi.

Task Force on Climate-related Financial Disclosures (TCFD)

Til að öðlast betri yfirsýn yfir áhættu tengda loftslagsbreytingum hefur bankinn nýtt sér tilmæli Task Force on Climate-related Financial Disclosures (TCFD) sem er starfshópur settur saman að frumkvæði einkaaðila með það hlutverk að leggja fram tillögur og auka gagnsæi á fjárhagsleg áhrif vegna loftslagsbreytinga. TCFD hefur tilgreint atvinnugreinar sem líklega verða fyrir mestum áhrifum loftslagsbreytinga næstu áratugina og er áhættunni skipt upp í breytingaáhættu og náttúrulega áhættu. Dæmi um breytingaáhættu er t.d. orkuskipti í sjávarútvegi og um náttúrulega áhættu meiri sveiflur í veðurskilyrðum sem leitt geta til alvarlegra náttúruhamfara. Áhætta vegna loftslagsbreytinga er til margra áratuga og þar með ólík mörgum öðrum áhættum í lánabók bankans.

Taflan fyrir neðan sýnir útlán bankans til atvinnugreina sem eru skilgreindar sem mikilvægar til að ná tökum á loftslagsbreytingum skv. tilmælum TCFD. Í ljósi sérstöðu Íslands hvað varðar staðsetningu og orkugjafa hefur bankinn aðlagað atvinnugreinaflokka að íslenskum veruleika og er þar stuðst við Landsskýrslu Umhverfisstofnunar sem gerir grein fyrir heildarlosun gróðurhúslofttegunda á Íslandi. Niðurstöður TCFD greiningar eru notaðar í innra mati bankans á viðbótareiginfjárþörf vegna loftslagsbreytinga.

Arion banki mun vinna að frekari innleiðingu TCFD á árinu 2021. 

Viðeigandi TCFD flokkar

TCFD atvinnugreinar

Bæði breytingaáhætta og náttúruleg áhætta

Aðallega breytingaáhætta

Aðallega náttúruleg áhætta

Fjármálatengd starfsemi

Eignastýringasjóðir

0

5.092

0

Fjármálatengd starfsemi

Fjármálafyrirtæki

0

39.327

0

Fjármálatengd starfsemi

Vátryggingafélög

0

21

0

Orkufyrirtæki

Orkufyrirtæki

0

0

0

Fyrirtæki tengd landbúnaði, fæðu- og skógarframleiðslu

Landbúnaður

2.513

0

0

Fyrirtæki tengd landbúnaði, fæðu- og skógarframleiðslu

Drykkjar-, matar- og kjötframleiðsla

0

28.035

0

Fyrirtæki tengd landbúnaði, fæðu- og skógarframleiðslu

Sjávarútvegur

79.464

0

12.351

Fyrirtæki tengd landbúnaði, fæðu- og skógarframleiðslu

Skógrækt

546

0

0

Fyrirtæki tengd landbúnaði, fæðu- og skógarframleiðslu

Heildsala

0

9.287

0

Flutningastarfsemi

Flutningur í lofti

0

7.554

0

Flutningastarfsemi

Bílar og varahlutir

0

5.707

0

Flutningastarfsemi

Flutningur á sjó

0

4.652

0

Flutningastarfsemi

Flutningur á landi

0

2.716

0

Efnis- og byggingatengd starfsemi

Fjárfestingavörur

0

550

0

Efnis- og byggingatengd starfsemi

Byggingaframkvæmdir

0

47.812

0

Efnis- og byggingatengd starfsemi

Framleiðsla byggingaefna (annað en viður)

0

3.479

0

Efnis- og byggingatengd starfsemi

Málm- og námuvinnsla

0

1.301

0

Önnur fasteignatengd starfsemi*

Gististaðir og hótel**

0

29.413

0

Önnur fasteignatengd starfsemi*

Fasteignafélög***

0

0

7.897

Önnur fasteignatengd starfsemi*

Íbúðahúsnæði***

0

0

35.019

Önnur ferðatengd þjónusta*

Önnur ferðatengd þjónusta*

0

7.610

0

Samtals ISK m.

85.523

192.557

55.268

* Ekki hluti af skilgreiningum TCFD en bætt við vegna mikilvægis fyrir Ísland.
** Hótelum sérstaklega bætt við
*** 10% af útsettri áhættu vegna náttúrulegrar áhættu (t.d. sjávarmálshækkun o.s.frv.)

UFS reitun Arion banka, skuldbindingar, vottanir og þátttaka í samstarfi á sviði samfélagsábyrgðar og sjálfbærni

 

Arion banki hlaut framúrskarandi einkunn í UFS áhættumati Reitunar

Arion banki hlaut árið 2020 framúrskarandi einkunn í UFS áhættumati Reitunar og fékk 86 stig af 100 mögulegum og er í flokki A3. Um þrjátíu innlendir útgefendur hafa farið í gegnum mat Reitunar og er meðaleinkunn þeirra 60 stig.

Í niðurstöðum Reitunar er meðal annars horft til þess að innleiðing UFS áherslna í fjárfestinga- og útlánastarfsemi fjármálafyrirtækja sé stór áhættuþáttur og að Arion banki hafi sýnt nýsköpun á því sviði þegar bankinn þróaði aðferðafræði til að meta fjárfestingarkosti, fyrst og fremst skráð fyrirtæki, m.t.t. UFS og hafi þannig nýtt áhrifavald sitt á jákvæðan hátt. Einnig horfði Reitun til þess að Arion banki veiti betri lánakjör vegna kaupa á vistvænum bílum og bjóði grænan innlánsreikning, fyrstur banka á Íslandi. Þá kemur fram í niðurstöðum Reitunar að upplýsingaöryggi sé stór áhættuþáttur í fjármálastarfsemi og að Arion banki stýri þeim áhættuþætti markvisst. Vel sé staðið að mannauðsmálum innan bankans og að hugað sé að umhverfismálum í innri starfsemi.

Nánari upplýsingar um niðurstöður Reitunar má finna hér.

 

UNEP FI og meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi – PRB

Í júlí 2019 gerðist Arion banki aðili að UNEP FI, United Nations Environment Programme Finance Initiative (UNEP FI), sem er samstarfsvettvangur umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og yfir 250 fyrirtækja og stofnana í fjármálageiranum víðs vegar um heim. Þar er fjallað er um áskoranir í samfélags- og umhverfismálum.

Í september 2019 gerðist Arion banki aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi, Principles for Responsible banking (PRB), sem mótaðar voru af UNEP FI og 30 alþjóðlegum bönkum. Nánari upplýsingar um aðild Arion banka að meginreglunum má sjá hér.

Hér má sjá samantekt á framgangi innleiðingar bankans á meginreglunum í starfsemi Arion banka.

 

Samstarfsvettvangur um loftslagsmál og grænar lausnir – Grænvangur

Í september 2019 gerðist Arion banki einn af stofnaðilum samstarfsvettvangs atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir sem fékk nafnið Grænvangur. Hlutverk Grænvangs er að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að kolefnishlutleysi árið 2040. Þá mun vettvangurinn einnig vinna með íslenskum fyrirtækjum að markaðssetningu grænna lausna á alþjóðamarkaði og styðja við orðspor Íslands sem leiðandi lands á sviði sjálfbærni.

Í ársbyrjun 2020 undirritaði bankinn áskorunina Hreinn, 2 og 3! á vegum Grænvangs þar sem skorað er á fyrirtæki að lýsa yfir orkuskiptum í vegasamgöngum. Í verkefninu felst að nýskráningar fyrirtækjabíla sem knúnir eru áfram af jarðefnaeldsneyti verði lagðar af fyrir árið 2023. Með því verður Ísland í forystu á heimsvísu hvað varðar notkun umhverfisvænni orkugjafa. Er þessi yfirlýsing í takt við markmið sem sett voru í tengslum við samþykkt nýrrar umhverfis- og loftslagsstefnu bankans þar sem fram kemur að ekki verði keyptir inn bílar nema þeir noti 100% endurnýjanlega orkugjafa frá og með árinu 2023.

 

Meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar – UN PRI

Síðla árs 2017 gerðist Arion banki aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, Principles for Responsible Investment (UN PRI). Meginreglunum er ætlað að hjálpa fjárfestum að skilja áhrif umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS) á fjárfestingar og styðja þannig við að aðilar að meginreglunum taki ófjárhagslega þætti inn í fjárfestingarákvarðanir sínar. Framvinduskýrsla eignastýringar bankans um ábyrgar fjárfestingar hefur verið birt frá árinu 2019. Sjá má nánari upplýsingar um ábyrgar fjárfestingar í umfjöllun um markaði.

 

UN Global Compact – sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja

Arion banki hefur verið aðili að UN Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja, frá árslokum 2016 og skilar árlega framvinduskýrslu til Global Compact. Í sáttmálanum eru sett fram 10 grundvallarviðmið sem snúa að mannréttindum, vinnumarkaði, umhverfi og baráttu gegn spillingu.

 

IcelandSIF – félag íslenskra fjárfesta um ábyrgar fjárfestingar

Arion banki hefur verið virkur þátttakandi í mótun og þróun ábyrgra fjárfestinga á Íslandi og hefur átt fulltrúa í stjórn og vinnuhópum á vegum IcelandSIF, félags íslenskra fjárfesta um ábyrgar fjárfestingar. Arion banki var einn af stofnaðilum samtakanna árið 2017.

 

Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Arion banki hefur hlotið viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum að undangengnu formlegu mati sem byggir á leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland gefa út. Arion banki fékk fyrst viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti árið 2016. Viðurkenningin er veitt í kjölfar ítarlegrar úttektar óháðs aðila á stjórnarháttum bankans, s.s. starfsháttum stjórnar, undirnefnda og stjórnenda. Viðurkenningin gildir í þrjú ár í senn. Sjá nánari upplýsingar í umfjöllun um stjórnarhætti Arion banka og í samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum.

 

Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð

Arion banki hefur um árabil verið aðili að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Hlutverk Festu er að auka þekkingu á samfélagsábyrgð fyrirtækja, stofnana og hvers kyns skipulagsheilda til að tileinka sér samfélagslega ábyrga starfshætti og stuðla að aukinni sjálfbærni.

Loftslagsyfirlýsing Festu og Reykjavíkurborgar

Í nóvember 2015 gerðist Arion banki aðili að loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar ásamt 103 öðrum fyrirtækjum. Meðal helstu verkefna á sviði loftslagsmála er að ná utan um umhverfisáhrif starfseminnar og að draga markvisst úr neikvæðum áhrifum hennar. Við höfum birt umhverfisuppgjör bankans árlega síðan 2016. Nánari upplýsingar um umhverfis- og loftslagmál Arion banka má finna hér og í samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum.

Viljayfirlýsing um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar

Arion banki varð aðili að viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar þann 25. september 2020. Forsætisráðuneytið, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og Landssamtök lífeyrissjóða (LL) unnu að mótun yfirlýsingarinnar í víðtæku samráði við fulltrúa helstu aðila á fjármálamarkaði. Viljayfirlýsingin er í takti við stefnu Arion banka og markmið í þágu aukinnar sjálfbærni. Sjá nánari upplýsingar um aðild bankans að viljayfirlýsingunni hér.

 

Jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins

Arion banki fékk á haustmánuðum 2018 jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins eftir að hafa farið í gegnum endurvottun frá BSI á Íslandi og var þar með fyrstur banka til að hljóta merkið. Bankinn fékk upphaflega Jafnlaunavottun VR árið 2015, einnig fyrstur banka, og hefur farið í gegnum launagreiningar árlega síðan þá. Sjá nánar um jafnréttismál í umfjöllun um mannauð og í samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum.

 

Jafnréttissáttmáli UN Women og UN Global Compact

Frá árinu 2014 hefur bankinn verið aðili að Jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact. Jafnréttissáttmálinn er alþjóðleg yfirlýsing og samkomulag á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fyrirtæki og stofnanir geta haft að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta, óháð landi og atvinnugrein, og snúa viðmiðin fyrst og fremst að kynjajafnrétti. Sjá nánari upplýsingar í umfjöllun um jafnréttismál í Arion banka og í samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum.


 

Jafnvægisvog FKA

Benedikt Gíslason bankastjóri undirritaði á árinu 2020 viljayfirlýsingu um Jafnvægisvogina þar sem fram kemur að Arion banki ætli að vinna markvisst að því næstu árin að jafna hlut kynja í efsta lagi stjórnunar. Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA).

Bankinn hlaut jafnframt viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar fyrir jafnt hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar á árinu. Sjá nánar hér.

 

Kolviður

Arion banki og Kolviður hafa gert áframhaldandi samstarfssamning sín á milli um bindingu þeirrar kolefnislosunar sem hlýst af starfsemi bankans og var sá samningur endurnýjaður vegna útblásturs bankans fyrir árið 2020. Kolviður mun binda kolefni í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og skógrækt á móti þeirri kolefnislosun sem á sér stað í rekstri bankans á árinu. Áætlað er að Kolviður muni gróðursetja allt að 4.700 tré fyrir rekstrarárið 2020. Um er m.a. að ræða losun vegna bifreiða í rekstri bankans, húsnæðis, sorps, flugsamgangna og aksturs starfsfólks til og frá vinnu.

GRI – Global Reporting Initiative

Global Reporting Initiative hefur útbúið staðal sem hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að upplýsa um framvindu sína varðandi umhverfis-, samfélags- og efnahagsleg málefni á þann hátt að hægt er að bera gögn saman á milli fyrirtækja. Arion banki hefur nú í þriðja sinn sett fram upplýsingar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni í starfsemi bankans samkvæmt staðlinum GRI Core. Sjá GRI tilvísunartöflu Arion banka hér.

 

UFS viðmið Nasdaq

UFS viðmið Nasdaq á Norðurlöndunum snúa að upplýsingagjöf um starfsemi og áhrif skráðra fyrirtækja út frá umhverfi, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS). Frá árinu 2016 hefur Arion banki horft til þessara viðmiða við upplýsingagjöf um samfélagsábyrgð en viðmiðin tóku formlega gildi árið 2017 og önnur útgáfa leiðbeininga var gefin út árið 2019. Sjá nánari upplýsingar í samantekt á ófjárhagslegum upplýsingum.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Framkvæmdastjórn Arion banka samþykkti í ársbyrjun 2020 sex heimsmarkmið sem bankinn ætlar að leggja megináherslu á. Markmiðin sem unnið verður sérstaklega að eru markmið 5 um jafnrétti kynjanna, markmið 7 um sjálfbæra orku, markmið 8 um góða atvinnu og hagvöxt, markmið 9 um nýsköpun og uppbyggingu, markmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu og markmið 13 sem snýr að aðgerðum í loftslagsmálum.

Starfsemi bankans, þar á meðal aðgerðir í jafnréttismálum, stefna og markmið í umhverfis- og loftslagsmálum, stuðningur við frumkvöðla og atvinnulífið í heild, framsækni í stafrænni þjónustu sem og virk þátttaka í uppbyggingu efnahagslífsins ríma vel við þessi heimsmarkmið.

Stýrihópur um samfélagsábyrgð

Í Arion banka er starfandi stýrihópur um samfélagsábyrgð. Verkefnastjóri samfélagsábyrgðar sem starfar á skrifstofu bankastjóra heldur utan um starf hópsins. Í stýrihópnum eru framkvæmdastjórar markaða, viðskiptabankasviðs og fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs ásamt forstöðumanni samskiptasviðs og sölu- og markaðsstjóra bankans.

Meginverkefni hópsins snúa að stefnumótun á sviði sjálfbærni. Ábyrgðarmaður sjálfbærnimála Arion banka er bankastjóri.

Birgjar

Í samræmi við það meginmarkmið í stefnu bankans að skapa verðmæti til framtíðar, viðskiptavinum, hluthöfum og samfélaginu öllu til góða, leitar bankinn í nærumhverfi sitt eftir þjónustu eins og frekast er unnt að því gefnu að birgjar standist kröfur um gæði og hagkvæmni.

Nær allir stærstu og mikilvægustu birgjar bankans starfa á Íslandi. Þrátt fyrir að aðfangakeðja bankans teygi sig út fyrir landsteinana er fyrsti hlekkur hennar oftast á heimamarkaði. Þannig er einungis einn erlendur birgir á meðal 10 stærstu birgja bankans og aðeins 8 á meðal þeirra 50 stærstu.

Stærsti hluti erlendra birgja bankans tengist innkaupum á hugbúnaði, ráðgjöf og þjónustu tengdri upplýsingatækni. Vélbúnaður er því sem næst allur keyptur með milligöngu innlendra aðila.

Innkaup skiptast með eftirfarandi hætti á milli 50 stærstu birgja
%

Við vöndum okkur í innkaupum

Árið 2019 tók bankinn til endurskoðunar spurningar í birgjamati um stöðu birgja í jafnréttismálum, vinnurétti og umhverfis- og loftslagsmálum. Nýtt birgjamat var tekið í gagnið í ársbyrjun 2020. Staða birgja í þessum málum mun til framtíðar hafa áhrif á það hversu viljugur bankinn er að ganga til viðskipta við viðkomandi aðila. Bankinn mun jafnframt reglulega meta frammistöðu birgja sem hann á í viðvarandi viðskiptasambandi við.

Í umhverfis- og loftslagsstefnu bankans sem samþykkt var af stjórn Arion banka í desember 2019 kemur fram að við gerum þá kröfu til birgja okkar að þeir taki mið af umhverfis- og loftslagsáhrifum í sinni starfsemi og þegar valið stendur á milli tveggja sambærilegra tilboða frá birgjum munu loftslags- og umhverfissjónarmið ráða ákvörðun okkar.

Nýjar innkaupareglur sem voru samþykktar á haustmánuðum 2020 tóku mið af þessum markmiðum og árið 2020 fóru allir stærstu birgjar bankans sem bankinn hefur gert útvistunarsamning við í gegnum birgjamatið. Þá hófst innleiðing á því að spyrja nýja birgja um frammistöðu þeirra varðandi jafnréttismál, vinnurétt og umhverfis- og loftslagsmál.

Siðareglur birgja, sem snúa að sjálfbærni og samfélagsábyrgð, voru unnar 2020 og verða innleiddar á árinu 2021, meðal annars með þeim hætti að þær verða hluti af innkaupasamningum.

Siðareglur birgja

Öruggt fjármálakerfi – samfélaginu til hagsbóta

Samfélagið treystir á skilvirkt og öruggt fjármálakerfi og Arion banki, eins og önnur fjármálafyrirtæki, gegnir veigamiklu hlutverki við að tryggja að svo sé á íslenskum markaði.

Við byggjum starfsemi okkar á góðu skipulagi, hæfu starfsfólk, öflugu innra eftirliti og skilvirkum og öruggum kerfum.

Arion banki tekur mjög alvarlega þá skyldu sína að tryggja öruggar fjármagnshreyfingar og vernda þær eignir og upplýsingar sem honum hefur verið falið að gæta. Þá leggur bankinn ríka áherslu á að vera ætíð á varðbergi gagnvart hvers kyns fjármunabrotum og fyrirbyggja þau skaðlegu áhrif sem slík brot geta haft á viðskiptavini, rekstur bankans og samfélagið.

Bankinn leggur sérstaka áherslu á aðgerðir til að fyrirbyggja:

  • Fjármunabrot, svo sem peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka, sviksemi og mútur og spillingu
  • Hagsmunaárekstra
  • Markaðsmisnotkun og innherjasvik
  • Tölvuglæpi

Arion banki leggur sig fram um að eiga ekki í viðskiptum við aðila sem stunda hvers kyns ólögmæta starfsemi eða lúta alþjóðlegum viðskiptaþvingunum. Bankinn leggur ríka áherslu á að þekkja viðskiptavini sína og aðra aðila sem hann starfar með og viðhefur eftirlit með fjármunahreyfingum í þeim tilgangi að greina viðskipti sem geta gefið vísbendingu um ólögmæta háttsemi. Þá er bankinn einnig á varðbergi gagnvart tölvuárásum og fjársvikum gegnum netið, en þessar hættur hafa vaxið samhliða því sem rafræn viðskipti aukast. Sjá upplýsingar fyrir viðskiptavini á vefsíðu bankans.

Ekkert eftirlit er þó eins öflugt og vökul augu starfsfólks sem fær reglulega þjálfun í að greina grunsamleg viðskipti eða hegðun og hvernig bregðast skuli við. Árlega gengst starfsfólk okkar undir fræðslu til að viðhalda þekkingu sinni, meðal annars varðandi varnir gegn fjármunabrotum, öryggismál og meðferð trúnaðarupplýsinga.

Ekkert eftirlit er þó eins öflugt og vökul augu starfsfólks sem fær reglulega þjálfun í að greina grunsamleg viðskipti eða hegðun og hvernig bregðast skuli við. Árlega gengst starfsfólk okkar undir fræðslu til að viðhalda þekkingu sinni, meðal annars varðandi varnir gegn fjármunabrotum, öryggismál og meðferð trúnaðarupplýsinga.

Grunsemdir um ólögmæta háttsemi viðskiptavina eru án undantekninga tilkynntar lögreglu og bankinn leggur sig fram við að liðsinna yfirvöldum í þeirra rannsóknum.
Arion banki hefur að auki sett sér stefnu um uppljóstranir, þar sem starfsfólk er hvatt til að láta vita ef upp kemur grunur um óviðeigandi eða ólögmæta háttsemi bankans, starfsfólks hans eða samstarfsaðila. Bankinn gætir trúnaðar um uppruna slíkra ábendinga og verndar þá sem stíga fram með grunsemdir sínar, en starfsfólki býðst einnig að senda ábendingar nafnlaust. Allar ábendingar um hugsanlega ólögmæta háttsemi eru rannsakaðar af sjálfstæðum eftirlitseiningum bankans og tilkynntar til viðeigandi yfirvalda eftir því sem tilefni er til. Auk þess býðst starfsfólki, sem og öðrum, að senda ábendingar til Fjármálaeftirlitsins.

Innri reglur og eftirlit

Starfsfólk Arion banka er meðvitað um þá staðreynd að starfsemi bankans hefur áhrif á ólíka hagsmunaaðila og samfélagið í heild sinni. Settar hafa verið starfsreglur, siðareglur og stefnur um ólíka þætti starfseminnar, s.s. um upplýsingagjöf, persónuvernd, upplýsingaöryggi, peningaþvætti og jafnréttismál.

Reglur og skilmálar á vefsíðu bankans

Mikilvægur þáttur í starfsemi bankans og ábyrgð hans gagnvart samfélaginu er að stýra áhættu og taka upplýstar ákvarðanir. Áhættustýring er því grundvallarþáttur í starfsemi bankans og samfélagsábyrgð hans. Stefna bankans er að hafa virka áhættustýringu sem felur í sér að greina og mæla áhættu og grípa til aðgerða ef hún fer út fyrir skilgreind mörk. Samhliða ársskýrslu gefur bankinn út áhættuskýrslu, Pillar 3, þar sem ítarlega er gerð grein fyrir helstu áhættum og stýringu á þeim.

Nánari upplýsingar um innra eftirlit, þ.e. áhættustýringu, innri endurskoðun, regluvörslu og persónuvernd hjá Arion banka, má finna hér.

Stjórnarhættir

Góðir stjórnarhættir stuðla að opnum og traustum samskiptum stjórnar, hluthafa, viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila, s.s. starfsmanna bankans og almennings. Stjórnarhættir bankans leggja enn fremur grunninn að ábyrgri stjórnun og ákvarðanatöku, með það að markmiði að skapa varanleg verðmæti. Stjórn bankans leggur ríka áherslu á góða stjórnarhætti og endurmetur stjórnarhætti sína reglulega með tilliti til viðurkenndra leiðbeininga um stjórnarhætti.

Nánari upplýsingar um stjórnarhætti Arion banka og stjórnarháttayfirlýsingu er að finna hér.