Arion banki og dótturfélög veita afar fjölbreytta og umfangsmikla fjármálaþjónustu. Starfsemi bankans er samofin lífi og starfi fólksins í landinu og því fór bankinn ekki varhluta af þeim miklu sviptingum og óvissu sem einkenndi flest ef ekki öll svið samfélagsins á árinu 2020. Arion banki brást með markvissum hætti við einum hraðasta og mesta efnahagssamdrætti síðari tíma og bauð viðskiptavinum sínum úrræði sem skiptu sköpum í baráttunni við efnahagsleg áhrif COVID-19 heimsfaraldursins. Eignir bankans námu í árslok um 1.173 milljörðum króna og er lánasafn til viðskiptavina þar af um 823 milljarðar króna. Eigið fé bankans nam í árslok 198 milljörðum króna. Fjárhagslega sterk staða bankans, 27,0% eiginfjárhlutfall og 15,1% vogunarhlutfall í árslok, gerði bankanum kleift að styðja vel við viðskiptavini sína á þessu mjög svo krefjandi ári.

Fljótlega eftir að kórónaveiran barst hingað til lands á síðasta degi febrúarmánaðar varð ljóst að hægja myndi verulaga á efnahagslífi og að ferðalög á milli landa myndu að miklu leyti leggjast af. Til að bregðast við þessu bauð Arion banki viðskiptavinum sínum, fyrstur banka hér á landi, greiðsluhlé á lánum og nýttu fjölmargir sér það úrræði. Aðrir bankar gerðu slíkt hið sama og ljóst er að þessi aðgerð bankanna, ásamt hlutabótaleið stjórnvalda, skipti mestu til að draga úr efnahagslegum áhrifum samdráttarins fyrir fyrirtæki og heimili.

Erum til staðar fyrir viðskiptavini okkar

Fjölmörg fyrirtæki í viðskiptum við bankann stóðu frammi fyrir því að þurfa lánafyrirgreiðslu vegna skyndilegs tekjufalls. Bankinn vill sannarlega standa með sínum viðskiptavinum og aðstoða þá í gegnum erfiða tíma en staðan sem upp var komin var vandasöm þar sem hvorki fyrirtækin né aðrir vissu hve langvinnt tekjufallið yrði, og vita ekki enn. Til að koma til móts við viðskiptavini á þessum einstöku tímum slakaði bankinn í mörgum tilvikum á hefðbundnum útlánakröfum. Var þar horft til viðskiptasögunnar, lífvænleika fyrirtækjanna og þess að samband okkar við viðskiptavini er langtímasamband og við viljum vera til staðar þegar vel viðrar en einnig þegar á móti blæs. Til viðbótar við hefðbundnar lánveitingar buðu stjórnvöld ríkisábyrgðir á lánum til fyrirtækja sem fjármálafyrirtækin veittu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Annars vegar var um að ræða svokölluð viðbótarlán til stórra fyrirtækja og hins vegar stuðningslán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Alls veitti bankinn á árinu um fjögurra milljarða króna lán með ríkisábyrgð að hluta eða öllu leyti.

Til að koma til móts við viðskiptavini á þessum einstöku tímum slakaði bankinn í mörgum tilvikum á hefðbundnum útlánakröfum. Var þar horft til viðskiptasögunnar, lífvænleika fyrirtækjanna og þess að samband okkar við viðskiptavini er langtímasamband og við viljum vera til staðar þegar vel viðrar en einnig þegar á móti blæs.

Sterk fjárhagsstaða mikilvæg

Sem betur fer var það svo að heimili, fyrirtæki og íslenska ríkið voru sögulega í óvenjugóðri stöðu í upphafi árs hvað skuldsetningu varðar. Við nutum góðs af því að á undanförnum áratug hefur verið byggt upp öflugt fjármálakerfi hér á landi, skuldir ríkisins lækkaðar og komið upp myndarlegum gjaldeyrisforða hjá Seðlabanka Íslands. Allt mikilvægir þættir sem gerðu Íslandi auðveldara að bregðast við efnahagssamdrætti með kraftmiklum hætti og koma í veg fyrir stærra tjón en raun ber vitni. Engu að síður eru áhrif heimsfaraldursins vissulega mikil á tilteknar atvinnugreinar og þá ekki síst á ferðaþjónustu og tengdar greinar og það mun taka þær tíma að rétta úr kútnum.

40 milljarðar í umfram eigið fé

Sá skyndilegi og djúpi efnahagssamdráttur sem reið yfir í marsmánuði sýndi okkur hve miklu skiptir að kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki séu vel fjármögnuð og hafi sterka eigin- og lausafjárstöðu. Hér á landi eru ríkar eiginfjárkröfur gerðar til fjármálafyrirtækja, meiri en í mörgum af okkar nágrannalöndum. Til viðbótar beindi Seðlabanki Íslands, eins og raunar seðlabankar víða um heim, þeim tilmælum til fjármálafyrirtækja að greiða ekki út arð á árinu 2020. Vissulega voru það eðlileg tilmæli þegar óvissan var hvað mest, jafnvel þrátt fyrir óvenjustrangar kröfur hér á landi, en nú þegar dregið hefur úr óvissu með tilkomu bóluefna og hillir undir að böndum verði komið á faraldurinn er rétt að staðan sé endurmetin.

Í upphafi árs 2021 gerði Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands einmitt það og varð við beiðni bankans um að fá að kaupa eigin bréf fyrir um 15 milljarða króna til viðbótar við arðgreiðslu upp á þrjá milljarða. Tekur Fjármálaeftirlitið með þessu tillit til afar sterkrar eiginfjárstöðu bankans sem meðal annars er tilkomin vegna vel heppnaðs útboðs á AT1 skuldabréfum í febrúar að andvirði um 13 milljarða króna. 

Tekur Fjármálaeftirlitið með þessu tillit til afar sterkrar eiginfjárstöðu bankans sem meðal annars er tilkomin vegna vel heppnaðs útboðs á AT1 skuldabréfum í febrúar að andvirði  um 13 milljarða króna.

Að teknu tilliti til endurkaupa og arðgreiðslu var Arion banki  í árslok engu að síður með um 40 milljarða króna í umfram eigið fé, þ.e umfram lögbundnar kröfur og það sem bankinn telur ákjósanlegt. Þetta eru fjármunir sem bankinn getur hvorki nýtt með skilvirkum hætti í lánveitingar né ávaxtað í takti við arðsemismarkmið. Því má segja að þessir fjármunir nýtist ekki sem skyldi innan bankans og höfum við því hug á að greiða hluthöfum arð eða kaupa eigin bréf á næstu árum eftir því sem aðstæður leyfa.

Höfum hlutverki að gegna

Við stöndum frammi fyrir uppbyggingu í kjölfar heimsfaraldurs og höfum tækifæri til að ráðast í hana með sjálfbærni að leiðarljósi. Í þeirri uppbyggingu hafa fjármálafyrirtæki mikilvægu hlutverki að gegna. Fram undan eru orkuskipti sem þurfa að eiga sér stað um heim allan til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Þau umskipti kalla á mikla fjárfestingu sem fjármálafyrirtæki þurfa að styðja með markvissum hætti. Hér á landi eru til að mynda tækifæri til vistvænni samgangna og til að byggja upp grænni og sjálfbærari ferðaþjónustu en áður. Ísland getur orðið grænn áfangastaður.

Arion banki hefur unnið að því á árinu að meta lánasafn bankans út frá umhverfismálum og vinnur að gerð græns ramma utan um innlán og útlán, meðal annars með það að markmiði að gefa út græn skuldabréf. Bankinn leggur aukna áherslu á að bjóða vistvæna fjármálaþjónustu þar sem henni verður við komið og kynnti á árinu, fyrstur íslenskra banka, græn innlán og græn íbúðalán. Með þessu gefum við viðskiptavinum okkar umhverfisvænni valkosti og það er einmitt þannig og í gegnum lánveitingar okkar sem við getum haft mest áhrif í mikilvægri baráttu gegn loftlagsbreytingum.

Sem fyrr birtir bankinn í árs- og samfélagsskýrslu sinni ítarlegar ófjárhagslegar upplýsingar í takti við lög og reglur, leiðbeinandi tilmæli Nasdaq og Global Reporting Initiative (GRI). Einnig er horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og 10 grundvallarviðmiða Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Í fyrsta sinn eru birtar upplýsingar um stöðu bankans vegna aðildar okkar að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankaþjónustu, Principles for Responsible Banking, og við stígum jafnframt okkar fyrstu skref í mati á loftslagsáhættu bankans út frá Task Force on Climate-related Financial Disclosure (TCFD). 

Deloitte hefur veitt álit með takmarkaðri vissu á ófjárhagslegri upplýsingagjöf Arion banka 2020 sem er sett fram samkvæmt Global Reporting Initiative (GRI) og UFS leiðbeiningum Nasdaq.

Opin bankaþjónusta 

Opin bankaþjónusta er mikilvægur þáttur í stefnu og þjónustu Arion banka eins og áhersla bankans undanfarin ár á stafræna og þægilega fjármálaþjónustu ber með sér. 

Við ætlum okkur að nýta styrkleika samstæðunnar, sérstaklega samstarf við dótturfélög okkar Vörð og Stefni, til að auka skilvirkni í starfseminni og efla vöruframboð enn frekar í gegnum stafrænar leiðir. Við leitum einnig út fyrir samstæðuna að spennandi samstarfsaðilum. Gott dæmi um þetta er samstarf bankans við Leiguskjól sem býður viðskiptavinum sínum með stafrænum hætti bankaábyrgð hjá Arion banka sem þeir geta lagt fram í stað tryggingar. Þessi nýja þjónusta gerir fjölda fólks kleift að leigja sér íbúðarhúsnæði sem það hefði annars ekki átt kost á.

Við ætlum okkur að nýta styrkleika samstæðunnar, sérstaklega samstarf við dótturfélög okkar Vörð og Stefni, til að auka skilvirkni í starfseminni og efla vöruframboð enn frekar í gegnum stafrænar leiðir. Við leitum einnig út fyrir samstæðuna að spennandi samstarfsaðilum.

Arion appið er einstakur farvegur fyrir opna bankaþjónustu en appið var á árinu 2020, eins og þrjú ár þar á undan, besta fjármálaappið hér á landi samkvæmt könnun á meðal viðskiptavina bankanna. Arion appið er því öflug sölu- og þjónustuleið sem um 86.000 þúsund Íslendingar nýta sér með reglubundnum hætti. Til viðbótar við að sækja sér hefðbundna bankaþjónustu geta viðskiptavinir Arion banka keypt tryggingar hjá Verði í appinu og séð stöðu sína hjá lífeyrissjóðum í rekstri bankans. 

Áherslubreytingar skila sér

Á síðari hluta árs 2019 voru gerðar skipulags- og áherslubreytingar innan bankans með það að markmiði að auka skilvirkni og draga úr stórum fjárhagslegum skuldbindingum bankans. Á þessu ári höfum við séð árangur þessara breytinga. Að fyrsta ársfjórðungi undanskildum, sem einkenndist af óvissu og gengislækkun skráðra hlutabréfa, var bankinn nálægt markmiði sínu um 10% arðsemi miðað við 17% hlutfall eiginfjárþáttar 1.

Arion banki er skráður í kauphallirnar á Íslandi og í Stokkhólmi og er sá eini af þremur stærstu bönkum landsins sem ekki er í ríkiseigu. Sá árangur sem við höfum náð í rekstri bankans á árinu ber vott um hve alvarlega við tökum skyldur okkar gagnvart rúmlega sjö þúsund hluthöfum bankans.

Umtalsverðar breytingar urðu meðal stærstu hlutahafa bankans á árinu. Meðal annars hafa ýmsir erlendir aðilar dregið úr eignahlut sínum og íslenskir lífeyrissjóðir aukið við sinn hlut. Innlendir aðilar áttu í lok árs um 62% hlut í bankanum og hefur hlutur þeirra ekki verið hærri eftir að bankinn var skráður á markað sumarið 2018. Þróun hlutabréfaverðs bankans á árinu speglaði jákvæða þróun í starfsemi bankans og hækkaði gengi hlutabréfa hans um 10,5% á árinu í kauphöllinni á Íslandi en lækkaði um 8,8% í kauphöllinni í Stokkhólmi. Þessi munur skýrist fyrst og fremst af veikingu íslensku krónunnar gagnvart þeirri sænsku en sú veiking nam nær 20% á árinu.

Samkeppni á fjármálamarkaði

Arion banki er í nokkuð sérstakri stöðu þar sem íslenska ríkið, sem eigandi tveggja af þremur stærstu bönkum landsins, er helsti samkeppnisaðili bankans. Við teljum þá stöðu ekki heillavænlega til lengri tíma og fögnum því áformum stjórnvalda um að selja hlut í Íslandsbanka á árinu. Að ríkið takmarki umsvif sín á fjármálamarkaði leiðir til heilbrigðari og skilvirkari samkeppni á fjármálamarkaði neytendum til góða.

Arion banki á ekki aðeins í samkeppni við íslensk fjármálafyrirtæki heldur einnig öflug alþjóðleg fyrirtæki. Umsvif erlendra fyrirtækja í fjármálaþjónustu eru umtalsverð hér á landi. Bæði er um að ræða erlenda banka sem lána til margra af stærstu fyrirtækjum landsins, t.a.m. orku- og sjávarútvegsfyrirtækja, og alþjóðleg tækni- og fjártæknifyrirtæki eins og Apple, Amazon og Paypal sem keppa ekki síst á neytendamarkaði. Það er kominn tími til að Samkeppniseftirlitið horfi til þessarar staðreyndar þegar það tekur fyrir málefni fjármálamarkaðarins hér á landi.

Arion banki á ekki aðeins í samkeppni við íslensk fjármálafyrirtæki heldur einnig öflug alþjóðleg fyrirtæki. Umsvif erlendra fyrirtækja í fjármálaþjónustu eru umtalsverð hér á landi.

Við fögnum öflugri samkeppni, innlendri og erlendri. Hún hvetur okkur til dáða og skerpir sýn okkar á að veita viðskiptavinum okkar þægilega, snjalla og trausta fjármálaþjónustu.

Skýr stefna til framtíðar

Undir lok árs 2020 samþykkti stjórn uppfærða stefnu fyrir Arion banka. Breytingarnar á stefnunni eru rökrétt framhald af þeim skipulags- og áherslubreytingum sem hrundið var í framkvæmd síðla árs 2019. Markmiðið er að skerpa framtíðarsýn bankans og dótturfélaga og skapa lausnamiðaða og árangursdrifna menningu.

Til að styðja við innleiðingu á stefnu bankans samþykkti stjórn jafnframt breytingar á kaupaukakerfi Arion banka. Ein helsta breytingin felst í því að nú er allt starfsfólk þátttakendur í kerfinu. Sett hafa verið skýr markmið fyrir árið 2021. Það markmið sem mestu skiptir er að arðsemi eiginfjár bankans sé hærri en vegið meðaltal arðsemi keppinauta bankans. Með öðrum orðum höfum við sett okkur það markmið að standa samkeppnisaðilum okkar framar. Þetta er skýrt og einfalt yfirmarkmið sem nær yfir alla þætti í starfseminni og tekur þar að auki tillit til aðstæðna í umhverfi bankans. Ný stefna og markmiðasetning felur í sér jákvæða hvatningu fyrir starfsfólk bankans og skýr markmið að keppa að, viðskiptavinum, samstarfsfólki og hluthöfum til góða. Við horfum björtum augum fram á veginn.

Ég þakka starfsfólki, stjórnendum og stjórn fyrir samstarfið á árinu 2020.