Sólbjarg

Þann 20. júní 2019 eignaðist Arion banki allt hlutafé í TravelCo hf. og dótturfélögum (TravelCo) þegar bankinn gekk að veðum sínum. TravelCo var stofnað í kjölfar falls Primera Air ehf. og Primera Travel Group hf. og var tilgangur félagsins eignarhald og rekstur ferðaskrifstofa í Skandinavíu og á Íslandi. Markmið bankans með því að ganga að sínum veðum var að verja daglega starfsemi ferðaskrifstofanna með það fyrir augum að selja alla hluti sína í TravelCo og dótturfélögum. Sólbjarg ehf. er eignarhaldsfélag TravelCo og er í eigu Arion banka.

Bankinn lauk sölu á Terra Nova Sól ehf., sem var hluti af TravelCo, á fyrsta ársfjórðungi 2020.

Ferðamannaiðnaðurinn hefur beðið mikinn hnekki vegna heimsfaraldurs COVID-19 með algjöru hruni í tekjum frá því að faraldurinn hófst. Skandinavísku ferðaskrifstofurnar sem voru í eigu TravelCo fengu samþykkta fjárhagslega endurskipulagningu seint á árinu 2020 og fóru síðar í gjaldþrotameðferð sem fól í sér sölumeðferð á eignum félaganna. Bravo Tours 1998 A/S var stofnað í október 2020 og er í eigu Sólbjargs (59,4%) og danskra lögaðila (40,6%).

Íslenska ferðaskrifstofan Heimsferðir heyrir beint undir Sólbjarg. Kaupsamningur var undirritaður við Ferðaskrifstofu Íslands ehf. í desember 2020 sem fól í sér sölu á öllum rekstri Heimsferða og vörumerki þess. Endanleg sala er háð samþykki Samkeppnisyfirvalda. Sólbjarg mun verða minnihlutaeigandi í Ferðaskrifstofu Íslands gangi kaupin eftir.

Eignir Sólbjargs eru flokkaðar sem starfsemi til sölu í samræmi við IFRS 5.