Skrifstofa bankastjóra
Undir skrifstofu bankastjóra falla meðal annars, fyrir utan bankastjóra sjálfan, aðstoðarmenn/ritarar, sérfræðingar í viðskiptaþróun og aðalhagfræðingur bankans. Jafnframt tilheyra mannauður, lögfræðiráðgjöf, samskiptasvið og fjárfestatengsl sem og regluvarsla og persónuverndarfulltrúi skrifstofu bankastjóra.
Þannig felast verkefni sviðsins meðal annars í almennri aðstoð við bankastjóra og utanumhaldi vegna stjórnar- og nefndarfunda. Aðalhagfræðingur bankans hefur það hlutverk að spá fyrir um, greina og fjalla um íslenska efnahagsþróun til gagns fyrir bankann og viðskiptavini hans.
Stærstur hluti eigna bankans í skráðum og óskráðum félögum fellur undir skrifstofu bankastjóra.
Mannauður er samstilltur og framsækinn hópur sem hefur skýra sýn og þekkingu til að miðla stefnu bankans. Starfsfólk mannauðs veitir ráðgjöf og stuðning við val á starfsfólki, auk þess að efla leiðtogafærni og hæfni starfsfólks. Mannauður styður við starfsþróun, hvetur til stöðugra umbóta og aukinnar starfsánægju. Mannauður er stefnumiðaður samherji sem styður við stefnu bankans með því að tengja saman fólk og lykilferla með upplifun viðskiptavina að leiðarljósi. Helga Halldórsdóttir er mannauðsstjóri bankans.
Lögfræðiráðgjöf bankans veitir sjálfstæða og faglega lögfræðiráðgjöf til annarra sviða bankans og yfirstjórnar. Ráðgjöfin annast jafnframt ýmsa skjala- og samningagerð, samskipti við utanaðkomandi lögmenn, stjórnvöld og hagsmunasamtök, ásamt því að hafa yfirumsjón með innheimtu krafna og málflutningi bankans. Lögð er áhersla á góð tengsl við önnur svið bankans til að tryggja að lögfræðingar komi nægilega snemma að þeim álitaefnum sem til úrlausnar eru hverju sinni. Birna Hlín Káradóttir er yfirlögfræðingur, leiðir lögfræðiráðgjöfina og situr í framkvæmdastjórn bankans.
Viðskiptaþróun sinnir þróun og stefnumótun bankans til lengri og skemmri tíma. Eigendastefna dótturfélaga, óskráðar fjárfestingar og verkstýring stærri umbreytingaverkefna falla einnig undir sviðið. Ólafur Hrafn Höskuldsson er forstöðumaður viðskiptaþróunar.
Samskiptasvið heldur utan um samskipti og fjárfesta- og almannatengsl bankans gagnvart ytri markhópum ásamt boðskiptum við innri markhópa. Markmið fjárfestatengsla er að sjá um að veita fjárfestum tímanlegar, réttar og viðeigandi upplýsingar til að auðvelda þeim að skilja starfsemi bankans. Verkefnastjórnun samfélagsábyrgðar heyrir undir samskiptasvið. Haraldur Guðni Eiðsson er forstöðumaður samskiptasviðs.
Meginhlutverk regluvörslu er að draga úr hættu á því að reglur séu brotnar í rekstri bankans með fyrirbyggjandi aðgerðum. Þá sér regluvarsla um að samhæfa aðgerðir bankans gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og gegnir hlutverki persónuverndarfulltrúa. Nánar um regluvörslu Arion banka og persónuvernd hér. Hákon Már Pétursson er regluvörður.