Regluvarsla
Regluvarsla er sjálfstæð eining sem heyrir undir bankastjóra og starfar samkvæmt erindisbréfi frá stjórn. Regluvörður er Hákon Már Pétursson.
Meginhlutverk regluvörslu er að draga úr hættu á því að reglur séu brotnar í rekstri bankans með fyrirbyggjandi aðgerðum. Þá sér regluvarsla um að samhæfa aðgerðir bankans gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og gegnir hlutverki persónuverndarfulltrúa.
Regluvarsla starfar samkvæmt áhættumiðaðri starfsáætlun samþykktri af stjórn þar sem meðal annars er kveðið á um reglulegt eftirlit og reglulega fræðslu fyrir starfsfólk um þau lög og reglur sem bankinn starfar eftir. Regluvarsla veitir áhættunefnd stjórnar skýrslu ársfjórðungslega um verksvið sitt.
Upplýsingar um brot á lögum og reglum og dómsmál
Arion banka var ekki synjað um skráningu, heimild, aðild eða leyfi til þess að stunda tiltekin viðskipti eða starfsemi á árinu né sætti afturköllun, ógildingu eða uppsögn skráningar, heimildar, aðildar eða leyfis.
Arion banki greiddi eina sekt árið 2020. Í júlí 2020 ákvað Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands að leggja stjórnvaldssekt á bankann að fjárhæð 87,7 milljónir króna vegna brots á 1. mgr. 122. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að skilyrði fyrir frestun á birtingu innherjaupplýsinga vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga hefðu ekki verið uppfyllt eftir að umfjöllun vefmiðils um uppsagnir í bankanum birtist þann 22. september 2019. Arion banki hafnar niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins og hefur höfðað mál til ógildingar ákvörðunarinnar.
Upplýsingar um helstu dómsmál tengd Arion banka er að finna í skýringum með ársreikningi samstæðu bankans.
Aðgerðir gegn peningaþvætti og öðrum fjármunabrotum
Það er stefna Arion banka að berjast gegn peningaþvætti og öðrum fjármunabrotum og koma í veg fyrir að þjónusta bankans sé misnotuð í slíkum tilgangi. Bankinn hefur sett sér stefnu um aðgerðir gegn fjármunabrotum sem er að finna á vefsíðu bankans.
Árið 2020 sendi Arion banki yfir 700 tilkynningar um grun um peningaþvætti til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.
Skyldur bankans sem útgefanda í kauphöll
Hlutabréf Arion banka eru í viðskiptum á markaði bæði hjá Nasdaq Ísland og Nasdaq Stokkhólmi. Þá eru skuldabréf gefin út af bankanum í viðskiptum á markaði hjá Nasdaq Ísland og kauphöllinni í Lúxemborg (Bourse de Luxembourg).
Hvorki eftirlitsstofnanir né kauphallir gerðu athugasemdir við upplýsingagjöf bankans árið 2020, að frátalinni áðurnefndri stjórnvaldssekt.
Persónuvernd
Arion banka er umhugað um persónuvernd og réttindi viðskiptavina sem varða persónuupplýsingar og að persónuupplýsingar séu unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga („GDPR“). Bankinn hefur sett sér persónuverndarstefnu sem er að finna á vefsíðu bankans.
Á árinu 2020 móttók bankinn eina réttmæta kvörtun um brot á persónuvernd frá utanaðkomandi aðila. Engin kvörtun barst frá Persónuvernd. Bankinn tilkynnti 72 tilvik til Persónuverndar á árinu þar sem trúnaður var rofinn. Í einu tilviki var um að ræða verulega áhættu fyrir réttindi og frelsi einstaklings, en í öllum öðrum tilvikum var lítil eða takmörkuð áhætta. Ekkert tilvik um þjófnað eða tap á persónuupplýsingum var upplýst á árinu.