Vörður

Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag sem býður þægilegar tryggingalausnir fyrir heimili og fyrirtæki. Í árslok 2020 störfuðu 109 manns hjá félaginu í 102 stöðugildum og viðskiptavinir voru liðlega 62 þúsund.

Á ári hverju koma til nýjar áskoranir í rekstri hvers fyrirtækis. Árið 2020 var engin undantekning hvað þetta varðar en starfsfólk Varðar tókst eins og umheimurinn allur á við algjörlega nýjar áskoranir sem reyndu á hugvit og hugmyndaauðgi hópsins. COVID-19 veiran hafði gríðarleg áhrif á alla starfsemi félagsins frá marsmánuði til ársloka. Starfsfólk vann stóran hluta úr árinu í fjarvinnu en þar sem félagið hafði um nokkurt skeið unnið að fartölvuvæðingu starfseminnar gengu umskiptin yfir í heimavinnu vel. Lokanir á starfsstöðvum gerðu það síðan að verkum að samskipti við viðskiptavini fóru mestmegnis fram í gegnum stafrænan búnað. Þessar kringumstæður leiddu það svo af sér að viðskiptavinir nýttu sér í auknu mæli Mínar síður og aðrar stafrænar leiðir sem kalla ekki á milligöngu starfsfólks.

Þrátt fyrir krefjandi samfélags- og efnahagsaðstæður var rekstrarafkoma Varðar á liðnu ári góð. Fjölgun varð í viðskiptavinahópi félagsins og gildir það jafnt um fjölda heimila og fyrirtækja í viðskiptum. Að baki er fyrsta heila árið í sameiginlegum útibúarekstri Varðar og Arion á Glerártorgi á Akureyri og er ekki annað hægt að segja en að þessi nýbreytni í þjónustu hafi fallið í góðan jarðveg á meðal viðskiptavina beggja.

Áfram var unnið að þróun og innleiðingu stafrænna þjónustuleiða en markmið félagsins er að gera viðskiptavinum kleift að afgreiða algengustu erindi í gegnum snjallsíma eða annan tæknibúnað hvenær sem er sólarhringsins allt árið um kring. Á sama tíma stendur viðskiptavinum einnig til boða að leita til starfsfólks á skrifstofum félagsins kjósi þeir það. Þannig er ekki hvikað frá stefnu félagsins um að vera stafræn en mannleg. Markmið félagsins með þróun stafrænna lausna er fyrst og síðast að auka og bæta þjónustuframboð félagsins.

Samfélagsábyrgð

Á síðasta ári fékk Vörður hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð. Hvatningarverðlaunin eru veitt samhliða birtingu lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki en það eru Creditinfo og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð, sem veita verðlaunin. Markmið þessarar viðurkenningar er að vekja athygli á því að framúrskarandi rekstur felur í sér að fyrirtæki hámarki jákvæð áhrif sín á umhverfið og samfélagið sem þau starfa í ekki síður en fjárhagslegan árangur sinn. Horft er til þess að fyrirtækin sýni fram á skýra stefnu um samfélagsábyrgð, sjálfbærni, kynjajafnrétti og réttindi starfsfólks. Félagið er ákaflega stolt af þessari viðurkenningu og mun hún hvetja starfsfólk áfram til góðra verka.

Á árinu 2020 var unnið að nýrri sjálfbærnistefnu á grundvelli áhættugreiningar á UFS viðmiðum Nasdaq og byggist stefnan m.a. á þessum viðmiðum. Í stefnunni kemur fram að félagið styðji við öll heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en hefur valið að styðja sérstaklega við fimm þeirra þar sem þau eiga best við kjarnastarfsemi félagsins. Þá er jafnframt farið yfir hlutverk og ábyrgð stjórnar, stjórnenda, starfsfólks og annarra hagaðila. Stefnan var samþykkt af stjórn þann 26. ágúst 2020 ásamt markmiðum fyrir árið 2020 og lykilniðurstöðum.

Undir lok árs 2020 var birgjum sent svokallað birgjamat, spurningar tengdar sjálfbærnimálum til að varpa ljósi á stöðu þeirra þegar kemur að þeim málaflokki. Til að byrja með er hugsunin sú að hafa jákvæð áhrif á birgja og samstarfsaðila okkar og hvetja þá til að huga að sjálfbærnimálum í sínu nærumhverfi. Niðurstöður reglulegs birgjamats verða síðar nýttar við val á birgjum og samstarfsaðilum þar sem félaginu hugnast að starfa frekar með birgjum sem vinna eftir sömu ábyrgu gildum og Vörður.

Ýmis verkefni eru í gangi sem snúa að því að draga úr losun félagsins á gróðurhúsalofttegundum, en ferðir starfsfólks til og frá vinnustað eru um 60% af allri losun. Þar sem meirihluti starfsfólks hefur unnið í fjarvinnu stóran hluta af árinu vegna COVID-19 dró stórlega úr losun vegna ferða til og frá vinnu á árinu 2020. Mikilvægt er að vinna áfram að verkefnum sem stuðla að minni losun enda er ætlunin að ná því markmiði sem sett var í Parísarsáttmálanum eða 40% minnkun fyrir árslok 2030.

Vörður hefur alla tíð unnið ötullega að jafnréttismálum og hlaut jafnlaunavottun fyrst íslenskra fjármálafyrirtækja árið 2014 og hefur fengið hana staðfesta árlega frá þeim tíma. Þá hefur félagið lagt mikla áherslu á að viðhafa góða stjórnarhætti og í mars 2019 hlaut Vörður í fyrsta sinn viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum að undangengnu formlegu mati og úttekt sem byggir á leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland gefa út. Vörður hlaut viðurkenninguna í kjölfar ítarlegrar úttektar á stjórnarháttum félagsins, s.s. starfsháttum stjórnar, undirnefnda og stjórnenda.

Á árinu 2020 hlaut Vörður Jafnvægisvog FKA, fyrirtækið er í hópi fyrirtækja ársins hjá VR, er fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum og fékk hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð eins og áður kom fram. Upplýsingaöryggi skiptir miklu máli í rekstri tryggingafélags og er félagið vottað samkvæmt ISO 27001, stjórnkerfi upplýsingaöryggis, frá árinu 2016.

Rekstur og afkoma

Eins og fram kom í inngangi gekk rekstur Varðar vel á árinu 2020. Sá efnahagssamdráttur sem COVID-19 veiran leiddi af sér breytti áður þekktu árstíðamynstri í starfseminni, því framan af ári dró mikið úr umferð á landinu og við það fækkaði ökutækjatjónum nokkuð. Þegar ljóst varð að landsmenn væru ekki að fara erlendis í orlof og allir hvattir til innanlandsferða yfir sumartímann fjölgaði ökutækjatjónum að nýju. Nokkur óvissa ríkti framan af ári um áður útlagðan kostnað almennings við fyrirhuguð ferðlög, kostnað við flug og gistingu erlendis. Þar sem félagið annast greiðslukortatryggingar tveggja af stóru bönkunum var jafnvel búist við miklum viðbótarkostnaði á því sviði. Hér fór líka betur en á horfðist.

Þegar ljóst var að stór hluti landsmanna myndi vinna heima og akstur minnka og ökutækjatjónum þar með fækka var ákveðið að láta viðskiptavini félagsins njóta þess ávinnings sem af hlaust. Í maímánuði var gefinn sérstakur afsláttur til þeirra heimila sem voru í viðskiptum við félagið í formi þriðjungsafsláttar af iðgjöldum mánaðarins. Afslátturinn nam liðlega 260 milljónum króna og kunnu viðskiptamenn félagsins vel að meta framlag félagsins inn í þær erfiðu aðstæður sem víða ríktu.

Félagið varð ekki fyrir einstökum stórum tjónum á liðnu ári og ekki urðu einstakir stórir fasteignabrunar. Fjöldi tjóna var svipaður á milli ára nema í ökutækjatryggingum þar sem hann var heldur minni. Ætla má að sú fækkun gangi til baka þegar efnahagsástandið batnar og landsmenn taka upp hefðbundnara mynstur í sínu lífi.

Afkoma af fjármálastarfsemi var einkar góð og reyndar vel umfram þær áætlanir sem gerðar höfðu verið fyrir árið. Það er jákvætt, en engu að síður er mikilvægt að afkoma af kjarnastarfsemi, það er tryggingastarfseminni, skili ávallt góðri niðurstöðu.

Verkefnin fram undan

Vörður hefur átt góðu gengi að fagna á liðnum árum. Félaginu hefur ár frá ári vaxið fiskur um hrygg og fengið fleiri og fleiri viðskiptavini úr hópi heimila og fyrirtækja til liðs við sig. Rekstur Varðar hefur gengið vel og tryggð viðskiptavina við félagið er mikil sem er vísbending um að viðskiptavinir kunni að meta þá þjónustu og þau kjör sem í boði eru. Mikilvægt er þó að slaka hvergi á, það er mikill metnaður innan félagsins til að gera stöðugt betur þegar kemur að þjónustu og öðrum þáttum starfseminnar. Áfram verður haldið á braut stafrænna þjónustulausna og þá er lögð mikil áhersla á hagkvæmni rekstrar sem skilar sér í samkeppnishæfum kjörum til viðskiptamanna.

Í eignarhaldi Arion banka á Verði liggja enn ónýtt tækifæri sem mikilvægt er að nýta þannig að viðskiptavinir þurfi ekki að sækja sína fjármálaþjónustu út fyrir raðir félaganna.

Á liðnum misserum hefur starfsmannhópur Varðar eflst enn frekar, til liðs við félagið hefur gengið vel menntað og öflugt fólk sem er árangursmiðað í sínum störfum. Segja má að sú blanda af fólki sem félagið hefur yfir að ráða um þessar mundir sé einstaklega góð og styðji við frekari framrás á komandi árum.

Framtíðarhorfur

Framtíð Varðar er björt og tækifæri til frekari vaxtar og sóknar eru til staðar. Félagið er ákaflega vel skipað fólki og eignarhaldið og tækifærin sem í því liggja styðja við árangur og velgengni á komandi tímum.