Stuðningur
við samfélagið

Arion banki heldur og kemur að fjölda fræðslufunda, ráðstefna og viðburða og er þannig virkur þátttakandi í samfélaginu. Yfir 3.600 gestir sóttu fræðslufundi, ráðstefnur og aðra viðburði á vegum bankans á árinu 2020 og bankinn tók einnig þátt í fjölmörgum ráðstefnum og sýningum utan bankans. Vegna COVID-19 hélt bankinn töluvert færri viðburði á árinu en fyrri ár. Fjöldi gesta var 1.800 á viðburðum í húsakynnum bankans og 1.850 mættu á viðburði sem sendir voru út í beinu streymi.

Dæmi um viðburði á árinu 2020

  • Um 600 manns fylgdust með kynningum á hagspá bankans. Allir fundirnir voru sendir út í beinni útsendingu á Facebook-síðu bankans.

  • Fjöldi viðskiptavina og annarra gesta sótti fræðslufundi um lífeyrissparnað á vegum bankans.

    Nokkur hundruð háskólanemar heimsóttu bankann í vísindaferðum í byrjun ársins með það að markmiði að kynna sér starfsemi bankans.

  • Fjöldi funda var í beinni útsendingu, t.d. upplýsingafundur um brúarlán og fundur um fjármögnun á fyrstu íbúð. 

Stuðningur og samstarf

Arion banki á í samstarfi við fjölda félagasamtaka og fyrirtækja og styður þau til góðra verka. Bankinn er meðal annars bakhjarl Hönnunarmiðstöðvar, Handknattleikssambands Íslands, Íþróttasambands fatlaðra, Nýsköpunarkeppni grunnskólanna og er hluti af Ólympíufjölskyldu ÍSÍ. Að auki styðja útibú bankans um land allt hin ýmsu málefni í sinni heimabyggð.

  • Samstarf Arion banka og Hönnunarmiðstöðvar Íslands felur meðal annars í sér stuðning bankans við HönnunarMars, sem er einn aðalvettvangur Hönnunarmiðstöðvar til að koma íslenskri hönnun og hugviti á framfæri.

  • Bankinn er hluti af Ólympíufjölskyldu ÍSÍ en fjölskyldan styður dyggilega við bak Íþróttasambands Íslands með það að markmiði að efla íslenskt íþróttalíf og þátttöku Íslands á erlendum vettvangi.

  • Arion banki er einn af aðalbakhjörlum Íþróttasambands fatlaðra og styður undirbúning og þátttöku sambandsins á Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó 2021.

  • Arion banki er einn af meginstyrktaraðilum HSÍ en bankinn hefur um árabil stutt við íslenskan handknattleik.

  • Arion banki styrkir Skógræktarfélag Íslands. Styrkurinn felur meðal annars í sér stuðning við framkvæmd verkefnisins „Skógarvist, Skógargátt og lýðheilsa“, en verkefninu er ætlað að hvetja til útivistar og þar með bættrar lýðheilsu. Einnig nýtist styrkurinn til skógræktar.

  • Bankinn styður við fjölda góðgerðarmála á borð við Krabbameinsfélag Íslands, Rauða krossinn og Mæðrastyrksnefnd og útibú bankans á landsbyggðinni styðja við fjölbreytt íþrótta- og menningarstarf í heimabyggð sinni. 

  • Arion banki kostar forsetalista Háskólans í Reykjavík næstu þrjú árin. Bankinn og HR rituðu undir samstarfssamning þess efnis í nóvember 2020. Á forsetalistann komast þeir nemendur sem ná bestum námsárangri á hverri önn. Markmiðið með listanum er að hvetja nemendur sem ná framúrskarandi árangri í námi til dáða og vekja athygli á árangri þeirra. Nemendur á forsetalista HR hljóta styrk sem nemur skólagjöldum einnar annar.

Myndlist og hönnun

Arion banki á um 1.200 listaverk eftir marga merkustu listamenn þjóðarinnar og eru þau sýnileg í útibúum og á öðrum starfsstöðvum bankans. Bankinn hefur í gegnum tíðina boðið upp á fræðslu um myndlist fyrir starfsfólk sitt og viðskiptavini, m.a. með sýningum og fyrirlestrum í höfuðstöðvum bankans. Á þeim sýningum hafa bæði verið verk úr safneign bankans og verk sem fengin eru að láni frá listamönnum og söfnum en bankinn hefur átt í góðu samstarfi við ýmis söfn hér á landi og erlendis, sem m.a. felst í að fá lánuð og lána verk á sýningar.

Á árinu 2020 voru textílverk í eigu bankans áberandi á sýningum. Flosverk eftir Ásgerði Búadóttur var lánað á yfirlitssýningu á verkum hennar á Kjarvalsstöðum, ofið verk eftir Auði Vésteinsdóttur ásamt verkum eftir Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur og Ívar Valgarðsson voru lánuð á sýninguna Listþræðir í Listasafni Íslands og útsaumað verk eftir Loja Höskuldsson var á sýningu í Listasafni Reykjanesbæjar.

Í lok ársins 2019 flutti útibú bankans á Akureyri í nýtt húsnæði og af því tilefni voru Listasafninu á Akureyri færð nokkur listaverk að gjöf sumarið 2020, verk sem öll hafa tengingu við bæinn. Meðal annars málverk af Akureyri frá árinu 1905 eftir Einar Jónsson frá Fossi og verk eftir Akureyringinn Óla G. Jóhannsson. Nokkur ný verk bættust við safneign bankans á árinu, þar á meðal grafíksería eftir Sigurð Atla Sigurðsson, textílverk eftir Hrafnhildi Arnardóttur, ljósmyndaverk eftir Daníel Magnússon og málverk eftir Georg Guðna.